Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Nema hvað?!

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það sé bara tímaspursmál hvenær Ísland verður fullgildur félagi í Evrópusambandinu. Þjóðir sem ekki taka þátt í veröldinni eru dæmdar úr leik.

Mér þótti þess vegna sérstaklega athyglisvert í morgun þegar Álfheiður Ingadóttir sagði ítrekað í umræðum á þingi að það hefði verið gott fyrir fulltrúa í viðskiptanefnd þingsins að hafa fengið fjármálaskýrsluna umræddu beint úr bakarofninum í Brussel; þeir hefðu þá verið með fingurinn á púlsinum öfugt við það sem væri algengara – að löggjafarþing þjóðarinnar vissi ekki almennilega hvað væri að gerast útí Evrópu fyrr en það stæði frammi fyrir orðnum hlut.

Langmestur hluti regluverks Evrópusambandsins hefur lagagildi hér nú þegar – en við höfum ekkert um það að segja. Augljóslega er betra að geta átt þátt í ákvörðunum sem móta líf okkar og kjör um langa framtíð.


Hvar eru foringjarnir?

Eitt var þó hárrétt hjá Davíð Oddssyni í Kastljósinu í gærkvöld: það er enginn að telja kjark í þjóðina. Og meðal forustumanna virðist skortur á framtíðarsýn: ég man ekki til þess í svipinn að hafa heyrt íslenskan stjórnmálamann lýsa sýn sinni á Ísland framtíðarinnar og hvernig eigi að komast út úr klandrinu.

Það var þess vegna gott að hluta á Barack Obama Bandaríkjaforseta í nótt ávarpa þingið í Washington. Þar fór maður sem var með klára sýn á framtíð lands og þjóðar, virtist vita nákvæmlega hvert hann vildi fara með þjóð sinni og hvernig hann ætlar að komast á leiðarenda.

Barack Obama er nefnilega augljóslega foringi. Slíkir menn eru ekki til í íslensku stjórnmálalífi nú um stundir, því miður. Að minnsta kosti verð ég ekki var við þá. Ríkisstjórn Geirs Haarde féll á því að hún veitti ekki forustu.

En hvað sem segja má um Davíð Oddsson þá verður það ekki af honum tekið að hann er foringi. Eða var, er kannski réttara að segja. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafði einnig þennan mannkost – en veikindin hafa dæmt hana úr leik. Frjálslyndi flokkurinn hefur engan foringja. Það er of snemmt að segja til um hvort Framsókn hefur foringja – en til skamms tíma var augljóslega ekki svo. Vinstri-Grænir? Ekki alveg ljóst – Steingrímur sýnir þó ýmsa takta í þá átt.

Ég hef ekki komið auga á raunverulega foringja í hópi þeirra sem nú vilja komast á þing. Og á meðan heldur þjóðin áfram að engjast og ráfa stefnulaus í upplausninni þar sem hver höndin er upp á móti annarri.


Ég er of fattlaus

Ég er stundum seinn að fatta. Nú sé ég til dæmis að mikið af því fólki sem hefur verið að taka þátt í umræðum í sjónvarpi og útvarpi í vetur og fjallað um kreppuna og vonsku heimsins er á leið í prófkjör fyrir fjórflokkinn.

Og ég sem hélt að þetta væru óháðir sérfræðingar sem hefðu fengið nóg af sukkinu! Ónei, nú kemur á daginn að margir voru einfaldlega að ota síns flokks tota.

Ég á mér þá eina afsökun að eftir áratug í útlöndum þekkti ég ekki lengur vel til í samfélaginu og var hættur að fatta að auðvitað héldu stuttbuxnadeildirnar áfram að unga út fólki í sinni gömlu mynd. Mér sýnist enda að flestir 'nýju' frambjóðendurnir í væntanlegum prófkjörum séu aldir upp á flokksskrifstofum hér og þar.

Kannski er það borin von að kerfishrunið leiði til raunverulegra uppstokkunar í þjóðfélaginu.

 


Til fyrirmyndar

Ég hef nánast alla mína tíð verið í upplýsingabransanum, þ.e. fengist við að afla upplýsinga, framreiða þær og dreifa þeim. Ég þykist því hafa ágæta reynslu af góðri upplýsingamiðlun og vondri. Lengst af hefur upplýsingamiðlun stjórnvalda á Íslandi verið slök, stundum beinlínis vond.

En nú er ástæða til að fagna - og því lýsi ég best með því að birta orðrétta tilkynningu sem barst frá ríkisvaldinu í gær. Þessi viðleitni er í stuttu máli sagt til fyrirmyndar: 

18.02.2009 -Tilkynning frá forsætisráðuneytinu

Ríkisstjórnin eykur upplýsingagjöf til almennings

Í samræmi við verkáætlun ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar-Græns framboðs hefur verið mótuð skýrari stefna í upplýsingamiðlun, bæði hvað varðar framsetningu og innihald. Starfshópur á vegum forsætisráðuneytisins hefur á síðustu dögum unnið markvisst að því að finna leiðir til að bæta upplýsingastreymi stjórnvalda þar sem lögð er áhersla á gagnsæi og lifandi upplýsingagjöf.

Þetta verður gert með tilkynningum, með fundum, svörun fyrirspurna og miðlun efnis á vefjum stjórnarráðsins. Dagskrá ríkisstjórnarfunda verður gerð aðgengilegri og nú verða blaðamannafundir það sömuleiðis.Uppfærð verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar með ítarefni er aðgengileg í heild sinni á netinu frá og með deginum í dag.

Verkefnaskráin verður uppfærð eins oft og þörf er og hún gefur öllum kost á að fylgjast með því hvað ríkisstjórnin er að fást við og hvernig verkum hennar miðar.

Um leið verða upptökur af vikulegum blaðamannafundum ríkisstjórnarinnar aðgengilegar í gegnum vefinn. Fundirnir eru haldnir í Þjómenningarhúsinu og þar sitja forsvarsmenn stjórnarinnar, Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra fyrir svörum.

Allar tilkynningar og yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar eða ráðherra og ráðuneyta má finna á vefjum stjórnarráðsins og viðkomandi ráðuneyta, en upplýsingaveita stjórnvalda er á www.island.is. Þar eru fréttir og ítarefni tengt fjármálavandanum, leiðbeiningar til fólks í vanda og mikilvægir tenglar.

Uppfærð verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar: www.island.is/efnahagsvandinn/adgerdir-stjornvalda/yfirlit-adgerda

Upptökur af fréttamannafundum: http://stjornarrad.is/fyrir_fjolmidla/frettamannafundir

Upplýsingaveita stjórnvalda á ensku: www.iceland.org

 

 

 


Fátt er fegurra

Mikið var ég glaður að heyra að Anna Guðný Guðmundsdóttir skuli hafa fengið íslensku tónlistarverðlaunin sem flytjandi ársins.

Það er fátt fallegra en Anna Guðný að spila.



Óendanlegur hryllingur Tuol Sleng

Þeir eru loksins farnir að rétta yfir fjöldamorðingjum Rauðu khmeranna austur í Kambódíu, þremur áratugum eftir að Pol Pot og hans nótar hófu slátrunina. Stjórnvöld þar í landi hafa að vísu séð til þess að flestir þeirra sem mesta sök báru fengu að lifa í friði sína ævidaga enda forsætisráðherrann, Hun Sen, fyrrum samherji Pols Pots. Kannski verður einhverntíma réttað yfir honum sjálfum fyrir mannréttindabrot hans og spillingu – og fyrir að hafa komið í veg fyrir að Kambódíumenn hafi fengið að gera upp þennan ógnarlega kafla í sögu sinni.

En réttarhöldin eru hafin og það er gott.

Sá fyrsti fyrir réttinum er fyrrum yfirmaður útrýmingarmiðstöðvarinnar Tuol Sleng eða S-21, sem var sett upp í gagnfræðaskóla í höfuðborginni Phnom Penh. Þar er nú safn – án þess að nokkru hafi verið breytt eða lagað til eftir að manndrápunum og pyntingunum lauk.

Heimsókn þangað er einhver svakalegasta upplifun sem ég hef orðið fyrir. Maður gengur í gegnum þessa byggingu þar sem þúsundir manna létu lífið – og smám saman rennur hryllingurinn upp fyrir manni: sumar skólastofur voru notaðar til pyntinga og þar eru enn blóðslettur á gólfum og ótrúlega frumstæð pyntingartæki að ryðga og rotna í hitabeltissvækjunni. Sums staðar eru málverk eftir þá sem lifðu vistina af – og loks kemur maður í stórt herbergi þar sem eru myndir af hundruðum fórnarlamba: Rauðu khmerarnir gættu þess nefnilega að skrásetja vandlega öll sín fórnarlömb – börn og gamalmenni og allt þar á milli.

Það tekur marga daga að ná úr sér hrollinum eftir heimsókn í Tuol Sleng en hún er þess virði, bæði til að reyna að skilja vonsku mannsins og til að geta dáðst að nær óendanlegri þrautsegju hans.


Er ekki allt í lagi?

Jón Baldvin Hannibalsson hefur komist að þeirri niðurstöðu að það sem þjóðina vanti umfram annað sé að hann komi til forustu og leiði okkur út úr ógöngunum.

Er ekki í lagi með manninn? 


Það sem Mugabe vantar...

Það verður fróðlegt að fylgjast með hvernig hinum nýja forsætisráðherra Zimbabwe, Morgan Tsvangerai, gengur að starfa með erkiþrjótnum Mugabe. Morgan var brattur þegar hann tók við embætti í dag og sagðist geta staðið við stóru orðin.

Við skulum spyrja að leikslokum - Mugabe hefur hingað til ekki gefið mikið fyrir reglurnar.

Það er ljótt að segja þetta, en það eina sem Mugabe vantar er kúla í hausinn.

 


Æææ

Ég var að horfa á HardTalk viðtalið við Geir Haarde á BBC. Æææ.

Á undanförnum árum hefur mér lærst að það getur verið gott að biðjast afsökunar og fyrirgefningar - bæði sekur og saklaus, því skynjun annarra á misgjörðum mínum (meintum eða raunverulegum) er oft önnur en mín. Þetta snýst um að reyna að setja sig í spor annarra.

 


Þaulseta án sóma

Þaulseta Seðlabankastjóranna tveggja sem eftir eru verður stöðugt vandræðalegri - í rauninni alveg með ólíkindum. Mér er ómögulegt að skilja hvaða endalokum þeir eru að bíða eftir.

Nú þykir mér ekki ólíklegt að þeir Eiríkur Guðnason og Davíð Oddsson telji sig hafa gildar ástæður fyrir afstöðu sinni. En þeir segja ekkert um þær - hvorki við almúgann né yfirmann sinn forsætisráðherrann, að manni skilst. Mér þætti hinsvegar gott að vita hverjar þessar ástæður eru.

Bankastjórarnir telja sig vafalaust órétti beittir - og að vissu leyti með réttu, því hingað til hefur ekkert það komið fram sem bendir til að þeir hafi gerst sekir um bein tækileg afglöp í starfi. Froðufellandi og heilalaust hatur í garð Davíðs Oddssonar sem við höfum orðið vitni að á undanförnum vikum og mánuðum hefur heldur ekki leitt nokkuð slíkt í ljós.

En auðvitað verða mennirnir að fara, sama hvaða ástæður þeir telja sig hafa til að sitja áfram. 

Það sem ég skil ekki er hvers vegna þeir vilja ekki gera það með sæmilegum sóma.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband