Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Áfallahjálparplástur

Mér finnst hjákátlegt að heyra í fréttum að þessum hópi eða hinum hafi verið "veitt áfallahjálp í dag" eftir einhverjar ófarir. Þetta orðalag hljómar eins og hóparnir hafi fengið áfallahjálparplástur eða -sprautu og að nú sé allt búið.

Ég efast stórlega um að þetta sé svona einfalt. Ég hef farið á fleiri en eitt lært námskeið um þessi mál og tekið svolítinn þátt í að hjálpa fólki komast yfir miklar hörmungar. Það tekur margar vikur, yfirleitt marga mánuði. 

Nema náttúrlega að hér sé búið að finna upp nýja aðferð. Kannski maður geti bara farið í Bónus og keypt sér áfallahjálparpakka til að hafa við höndina?!


Heiðurslaun

Mér finnst ég mega til að taka upp hanskann fyrir Þráin Bertelsson. Hann fær heiðurslaun listamanna frá Alþingi og nú eru menn að gera kröfur um að hann afsali sér þeim vegna þess að hann sé kominn á þing.

Ég sé enga ástæðu til þess. Heiðurslaun listamanna eru einmitt það - heiður. Viðurkenning fyrir listrænt framlag til þjóðmenningarinnar.

Fjölmargir aðrir listamenn úr þessum flokki hafa haldið áfram sínum daglegu störfum eftir að þeir komust í heiðurslaunaflokk - og enginn hefur verið með röfl út af því. Í fljótu bragði man ég eftir Matthíasi Johannessen sem er í heiðurslaunaflokki og var jafnframt ritstjóri Morgunblaðsins áratugum saman. Ég man ekki betur en að hann hafi litið á þetta svipuðum augum og Þráinn: að það væri verið að heiðra hann og að það kæmi daglegu brauði ekkert við.

Engum dettur í hug að taka gullverðlaunapening af íþróttamanni fyrir það eitt að hann skiptir um íþróttafélag.


Einangrun á púlsinum

Ég held að það sé talsvert til í því sem Steingrímur Sigfússon var að segja í leiðtogaumræðunni í sjónkanum í kvöld um einangrun fjölmiðlanna og einsleitar áherslur eða rörsýni.

Ég tók eftir því sjálfur þegar ég hætti daglegri fréttamennsku að utan fréttastofanna var raunverulegt líf í öllum sínum margbreytileika. Það var allt annað líf en ég hafði lifað í fjölmiðlahasarnum.

Í þessi tuttugu ár hafði ég talið mig vera með fingurinn á púlsinum og hafa býsna góða hugmynd um hvar þjóðarhjartað sló. En þegar ég hætti þessu daglega amstri þá uppgötvaði ég að í raun hafði ég verið harla einangraður frá daglegu lífi – að fréttirnar voru ekki upphaf og endir alls. Fyrir utan fréttastofurnar reyndist vera mikill fjöldi fólks sem var ekki að hugsa um fréttirnar og einstök skúbb daginn út og daginn inn – heldur um lífið sjálft, gleði þess og sorgir, stór mál og smámál og allt þar á milli.

Þess vegna held ég enn að það skipti höfuðmáli fyrir fjölmiðla að ráða til sín fólk með fjölbreytta reynslu – sjómenn, bændur, múrara, listamenn, næturverði – í stað þess að allir komi úr stjórnmálafræði í háskólanum. Sem betur fer er þetta að verulegu leyti á þann veg – en ég hef á tilfinningunni að það séu að verða breytingar þar á.


Myndi kaupa notaðan bíl af Gylfa og Rögnu

Mikið skelfing er gott að kosningarnar eru að baki. Þá getur fólk farið að tala mannamál á ný.

Allir hafa sigrað nema Sjálfstæðisflokkurinn. Meira að segja fóstbróðir minn og vinur, Sigmundur Ernir, er kominn á þing. Það fer vonandi vel - hann er drengur góður og vel innrættur. Og á mikla öðlingskonu, hana Ellu. Ég reyndi að fá hann til að lofa mér því að komast í einhverja góða nefnd. Hann gaf ekkert út á það - og þá varð ég glaður.

En mestan áhuga hef ég á að það taki við raunveruleg ný pólitík og ný hugsun - sem miðast við hagsmuni fólks, ekki flokka. Einn liður í því myndi vera að halda í utanþingsráðherrana, Gylfa og Rögnu. Þau tala mannamál og eru bæði þannig til augnanna að ég myndi þora að kaupa af þeim notaðan bíl. 

 


Palladómar í þáttalok

Ég hef horft og hlustað á stjórnmálaforingja í sjónvarpinu í kvöld - fyrst undir heraga Heimis Más á Stöð 2 og svo hjá Sigmari og Jóhönnu (í aðeins of stuttum kjól - nú, eða of síðum) í Sjónvarpinu.

Á endanum snýst þetta um hverjum maður trúir og treystir.

Steingrímur er orðinn landsföðurlegur og ábyrgur, klókur og heldur öllum leiðum opnum – þar á meðal um samkomulag við Samfylkinguna um Evrópusambandið. Það er eins og ráðherradómurinn hafi gefið honum það púst sem hann þurfti.

Jóhanna er jafn einörð og venjulega, gefur ekkert eftir í sínum hjartans málum, þykist vita hvert er hægt að komast með Vinstri-Græna. Það er ekki hægt annað en að trúa henni og treysta til að gera það sem hún telur rétt. Og á morgun ætlar hún loks að tala við útlendu pressuna. Ekki seinna vænna.

Bjarni Benediktsson var næst best klæddur (á eftir Jóhönnu & Jóhönnu). Færði ágæt rök fyrir máli sínu – en reynsluleysið háir honum. Hann er eins og margir aðrir Sjálfstæðismenn þessa dagana: í fýlu yfir því að vera ekki lengur við völd og að vera kennt um allt ruglið.

Sigmundur Davíð er enn óskrifað blað: maður óttast helst að þessi geðþekki piltur sé alltaf að gera í buxurnar sínar með delluhugmyndum – en svo talar hann inn á milli af fágætu viti. Augljóslega er hann þó nýgræðingur í pólitíkinni.

Guðjón Arnar kemur til dyranna eins og hann er klæddur: sjóari að vestan sem er ekki að láta hugmyndafræði flækjast fyrir sér, viðurkennir staðreyndirnar sem blasa við og er ekki mikið gefinn fyrir kjaftæði.

Þór Saari er ekki glaðlegur maður. Oft meinskarpur og athugull, þess á milli ergilegur – og lái honum hver sem vill. Ekki alveg víst að hann hafi kjörþokkann.

Ástþór Magnússon er...aarrgghhh! Hvað er eiginlega með þennan mann? Er ekki komið nóg?!

Og svo mynda Jóhanna og Steingrímur ríkisstjórn eftir helgina. Þau munu á næstu vikum hefja samtöl við ráðamenn í Brussel (óformleg eins lengi og hægt verður) og leggja svo dæmið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Evrópusambandið er óumflýjanlegt.


Lopi og slátur

Þetta sá ég á Moggavefnum í kvöld:

"Kolbrún Halldórsdóttir, umhverfisráðherra, sagði í fréttum Stöðvar 2, að Vinstrihreyfingin-grænt framboð leggðist gegn olíuleit á Drekasvæðinu svonefnda enda sé olíuvinnsla í andstöðu við stefnu flokksins."

Þá veit maður það.  Nú er það bara lopi og sláturgerð á 'nýja Íslandi'...eða hvað?


Að kenna eða hjálpa

Ég horfði í kvöld með áhuga á prýðilega gerða heimildamynd um kynlífshryllinginn í Kambódíu.  Það mætti gera meira af slíku efni og með þeirri natni sem María Sigrún Hilmarsdóttir og Guðmundur Bergkvist lögðu í verkið.

Ég varð þó svolítið hissa þegar ein stúlkan fór að segja frá því hve trú hennar væri henni mikið gagn í endurhæfingunni: mín reynsla þar austur frá er frekar sú að fólk geri almennt ekki mikinn greinarmun á (Búddha)trú sinni og daglegri menningu.

Þá áttaði ég mig á því að myndin var gerð fyrir tilstilli hjálparsamtaka Aðventista; auðvitað var stúlkan orðin kristin!

Og það skýrði einnig annað sem var að brjótast í mér á meðan ég horfði: talsmaður þessara samtaka, Breti sem ég náði ekki nafninu á, var eins og ýmsir sem ég kynntist sjálfur á árum mínum í þróunarlöndum - kominn til að kenna þeim innfæddu hvernig þeir eiga að lifa og miðar allt við sitt eigið gildismat. Ástralinn Geoff var af hinni tegundinni - og þeirri sem gerir yfirleitt miklu meira gagn, kominn til að hlusta og hjálpa til. 

 Það breytir þó ekki því að María og Guðmundur eiga hrós skilið.


Það er ljótt að ljúga

Öll voru upphefð kemur að utan, var einhverntíma sagt. Þetta má enn til sanns vegar færa.

Nú eru Sjálfstæðismenn arfavitlausir yfir því að sendiherra Evrópusambandsins sagði hugmynd þeirra um að taka upp evru í samvinnu við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn tóma dellu.

Það þurfti sosum ekki sendiherra EBS til að segja manni þetta – maður þarf ekkert að vera sérstaklega vel að sér um málefni ESB eða AGS til að sjá í hendi sér að þetta er delluhugmynd.

En þetta sagði enginn hér með jafn afdráttarlausum hætti og sendiherrann í Osló. Og þess vegna eru Bjarni Ben og hans menn sjóðandi illir. Skiljanlega.

Það ætti frekar að þakka sendiherranum fyrir að tala skýrt. Á sama hátt ætti að þakka Katrínu Jakobsdóttur aftur fyrir að segja berum orðum að auðvitað þurfi að hækka skatta hér og skera niður í opinberri þjónustu. Nema hvað?

Hver sá sem heldur öðru fram er að ljúga. Það er ljótt að ljúga.

 


Húsameistari Kópavogs, ekki meir!

Það eru góðar hliðar á öllum vondum málum. Til dæmis eru nú allar líkur á að ekkert verði úr byggingu mikillar óperuhallar á Borgunum í Kópavogi en sú hugmynd kemur úr smiðju bæjarstjórans hér sem aldrei má sjá grænan blett sem hann vill ekki byggja á. Og byggja stórt og mikið með mörgum gröfum og krönum og steypubílum og hvað þetta allt heitir.

Borgirnar, þar sem Kópavogskirkja stendur, eru náttúruvætti. Fyrr á tímum, þegar framsýnt fólk stjórnaði bænum, þá tók það þennan stað frá fyrir kirkju og ætlaðist ekki til að þar yrði meira byggt. Svo kom Gerðarsafn og Tónlistarhúsið (með Salnum) ofan á brúna yfir Hafnarfjarðarveginn og þá var þetta orðið ágætt. Hvort tveggja falleg hús og falla ágætlega í umhverfið - en nóg komið, engu að síður. 

Verðlaunatillagan um óperuhúsið er að vísu glæsileg - en það væri allt að því glæpsamlegt að setja þá byggingu þarna niður. Það er nóg pláss í Kópavoginum (að vísu aðeins austanverðum) undir svona monthús (þótt það yrði fallegt á öðrum stað).

Svo fýkur bæjarstjórinn í næstu kosningum (nóg er af vafasömum stjórnunarháttum hans sem sjá munu til þess!) og þá kemur kannski aftur framsýnt fólk til starfa í bæjarstjórninni.

Verst að það fær sjálfsagt aldrei tækifæri til að líta upp úr skuldasúpunni sem byggingaglaði bæjarstjórinn skilur eftir sig.


Ómerkilegur hagsmunagæslulýður

Ef ég væri betur að mér um þingsköp Alþingis myndi ég kannski skilja hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn gat haldið þinginu í stjórnlagagíslingunni dögum saman - og fá svo málið blásið út af borðinu. Hvers vegna gat ekki stjórn með tryggan meirihluta komið þessu lengra? Er ekki eitthvað athugavert við svona fundasköp?

Hvað gefur minnihluta á þingi - sem nú um stundir hefur í mesta lagi fjórðungs fylgi með þjóðinni - heimild til að gefa manni langt nef og segja manni að éta það sem úti frýs? En ég er ekki vel að mér um þingsköpin og verð því að láta mér nægja að vera ergilegur og hneykslaður yfir þessum málalyktum.

Ég hef verið fylgjandi hugmyndum um stjórnlagaþing og persónukjör af þeirri einföldu ástæðu að ég treysti ekki flokkunum. Atburðir undanfarinna daga hafa síður en svo breytt þessari afstöðu minni.  Það er að vísu margt ágætt fólk á þingi - en innanum er samansúrraður og ómerkilegur hagsmunagæslulýður sem á ekki skilið að fá kosningu til eins né neins.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband