Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Vitur maður talar

Það er erfitt að álasa stjórnvöldum fyrir að hitta Dalai Lama ekki á meðan hann er hér – en þó væri óskandi að foringjar lands og þjóðar (og raunar þjóðin öll) hafi hlustað á tíbetska trúarleiðtogann í glimrandi fínum sjónvarpsþætti Þóru Arnórsdóttur og Gauks Úlfarssonar í kvöld og beri gæfu til að tileinka sér eitthvað af þeirri göfgi sem einföld lífsspeki leiðtogans felur í sér.

Það er ekki á hverjum degi sem maður færi tækifæri til að hlusta á raunverulegan djúpvitring en það fengu sjónvarpsáhorfendur í kvöld (og reyndar einnig fyrir nokkrum dögum í öðrum ágætum þætti á RÚV).

Magnaðast við visku Dalai Lama er tær einfaldleikinn: Mannleg samskipti sem byggjast á kærleika og umhyggju eru betri leið.

Það má svo sem vel vera að einhverjum þyki hans heilagleiki og málflutningur hans grunnur í ljósi þeirra ógnvænlegu flækja sem mörg ‘heimsmál’ eru í – en kannski væru flækjurnar færri ef fleiri mönnum tækist að gera þær jafn einfaldar og Dalai Lama.


70% skekkjumörk

Þrátt fyrir allar vondu fréttirnar og allan barlóminn og sönginn um að ríkisstjórnin sé ekkert að gera og að þingið eigi að skammast sín og vinna kauplaust, þá er ýmislegt gott að frétta í þessu landi. Það vorar vel, neysluæðinu virðist að mestu lokið, svínaflensan er ekki að leggja byggðir í eyði og miklu færri fyrirtæki eru farin á hausinn en spáð var í ársbyrjun.

CreditInfo er fyrirtæki hér í bænum sem sagði frá því í fyrradag að fyrstu fjóra mánuði ársins hefðu 346 fyrirtæki orðið gjaldþrota, eða að meðaltali 86 fyrirtæki á mánuði.

Þetta eru í sjálfu sér góðar fréttir, því það er ekki lengra síðan en í febrúar að þetta sama fyrirtæki spáði því að meðaltalið yrði 291 fyrirtæki á mánuði og að samtals myndu 3.492 fyrirtæki fara á hausinn á þessu ári.

Skekkjumörkin eru ekki nema um 70%. Eru það ekki bara nokkurn veginn normalt?


Nýliði lýsir þingstörfum

Það er full ástæða til að benda á fróðlega lesningu eftir Margréti Tryggvadóttur, þingmann Borgarahreyfingarinnar, á vef þeirra í morgun.

Það er kannski ekkert skrítið að ekki nema um það bil fimmti hver maður í landinu hefur trú á þinginu samkvæmt könnun sem MMR birti í gær - og varla hækkar það í áliti við umræðurnar sem þar eru í gangi í dag.

Frásögn Margrétar er hér: http://www.borgarahreyfingin.is/2009/05/27/margret-tryggvadottir-nyi-vinnusta%C3%B0urinn-minn/

 


Æ, góði þegiðu!

Síðan ég var nánast barn að aldri hef ég verið í félagsmálavafstri og stundum haft það að atvinnu. Ég hef því setið ógnarmarga fundi og stýrt þeim ófáum.

Það er mikilvægt á fundum að halda mönnum við efnið, annars fer fundurinn út um þúfur og gerir ekkert gagn. Þeir sem gera ekki annað en að nöldra og þvaðra, þeir eyðileggja markmið fundarins sem oftar en ekki er að komast að einhverri niðurstöðu. Þá er oft betra að slíta fundinum eins fljótt og hægt er og boða til nýs fundar með nýju fólki sem er til í að taka þátt í þokkalega vitrænum umræðum - en láta nöldurseggina og bullarana sitja heima.

Þetta rifjaðist aftur upp fyrir mér í gær þegar ég fylgdist með umræðum á Alþingi eftir að forsætisráðherra hafði flutt skýrslu sína um horfur í efnahagsmálum. Það var heldur raunalegt allt saman. Hvaða gagn er í því að koma upp í ræðustól, segjast ekki nenna að hlusta á hitt eða þetta, eða halda áfram að þrasa og þylja þekktar staðreyndir? 

Menn sem hafa ekkert uppbyggilegra að leggja til málanna eiga að  halda sér saman.


Níu Framsóknarmenn og barnfóstra

Það verður greinilega engu logið upp á þingflokk Framsóknar sem nú neitar að fara að almennum mannasiðum og rýma herbergi sem er stórt fyrir flokkinn svo annar fjölmennari flokkur geti haldið sína fundi.

Væri nú ekki rétt fyrir stjórn Alþingis að viðurkenna að þótt Framsóknarmenn á þingi séu aðeins níu, þá þurfi þeir herbergi fyrir tíu. Einhvers staðar þarf barnfóstran að sitja.

 


Hassið er vont, trúið ekki öðru

Ég hef verið svo lánsamur undanfarnar vikur að fá að taka þátt í skipulagningu og undirbúningi Álfasölu SÁÁ sem fór í gang í dag. Ég hef náttúrlega lært ýmislegt á þessum vikum og rifjað annað upp um fíknir og fíknisjúkdóma.

Það sem kom mér mest á óvart, þegar ég fór að fylgjast með þeirri umræðu eftir all langt hlé, er hvað kannabisneysla er mikil hérlendis og þá ekki síður á á hvaða skítaplani umræðan er.

Á mínum sokkabandsárum var talsvert um hassneyslu og sömuleiðis um fullyrðingar í þá veru að hass væri miklu betra en brennivín, það væri ‘hrein náttúruafurð’ og að það væri allt í lagi að reykja hass.

Um síðir áttaði mín kynslóð sig á því – margir nokkuð laskaðir af neyslunni – að hass og önnur kannabisefni væru vond efni og að það væri best að láta þau sigla sinn sjó.

Ég hafði satt að segja staðið í þeirri meiningu að þessi bitra reynsla minnar kynslóðar hefði skilað sér eitthvað áfram. Það virðist þó hreint ekki vera – talsmenn kannabis eru orðnir miklu ákafari og að sama skapi orðljótari um varnaðarorðin og þá vísindalegu þekkingu sem hefur orðið til um þessi mál á síðustu tveimur áratugum eða svo. En orðfærið er kannski tímanna tákn.

Ég rakst í kvöld inn á athugasemdakerfi Eyjunnar, þess ágæta vefs, þar sem (mestmegnis nafnlaust) fólk var að tjá sig um frétt um Álfasöluna. Þar voru hassmenn greinilega í miklum meirihluta, bálillir út í allt og alla sem ekki vilja leyfa sölu á kannabis í matvöruverslunum og ennþá reiðari út í SÁÁ fyrir að segja hreint út að hass sé ekki gott fyrir fólk og að fullyrðingar um annað séu hættuleg ósannindi.

Ég er eiginlega alveg gáttaður á þessari umræðu og um leið heldur dapur yfir orðfærinu sem rakalaust (og nafnlaust) fólk grípur æ oftar til á íslensku bloggi.

Ykkur er óhætt að taka mín orð fyrir því að hass er ekki gott efni. Svei mér, ef það er meira að segja ekki verra en brennivínið.

Og því miður leiðir hassneyslan oft til harðari neyslu. Eða eins og segir í upplýsingaefni sem hefur verið tekið saman vegna Álfasölunnar:

“Af þeim 105 unglingum sem komu til okkar (á Vog) í fyrsta sinni fyrir 10 árum og voru yngri en 20 ára, hafa (10 árum síðar) 39% sprautað vímuefnum í æð og 29% hafa gert það reglulega í einhvern tíma. 14% þessara einstaklinga hafa fengið lifrarbólgu C.”


Kópavogur á betra skilið

Ég var í mörg ár í PR bransanum og vann margháttuð verkefni fyrir félög, fyrirtæki og stofnanir. Þar á meðal bæjarfélög og ríkisvaldið.

Aldrei hefði mér, eða félögum mínum í þeim bransa, liðist að rukka og rukka en skila ekki verkinu, eins og nú virðist mega í mínum heimabæ, Kópavogi. En við vorum heldur ekki synir og dætur bæjarstjórans.

Bæjarstjórinn hér, Gunnar Birgisson, hafði einfaldlega rangt fyrir sér þegar hann sagði í Kastljósinu í kvöld að dóttir sín ætti ekki að gjalda faðernis síns. Bæjarstjóri, sem vill vera vandur að virðingu sinni og bera virðingu fyrir bæjarbúunum sem leggja honum til peninga til að reka bæinn, á einfaldlega að vera hafinn yfir allan grun um spillingu.

Sá grunur er augljóslega fyrir hendi þegar eldhússfyrirtæki dóttur hans fær borgaða reikninga upp á rúmar 50 milljónir á áratug - og þarf ekki að skila verkum á móti. 

Kópavogsbær á betra skilið.

 


Aukaskatt á óþarfann

Mér líst á enga nýja skatta og ekki heldur á hærri skatta. Mér finnst ég borga alveg nóg.

En það breytir ábyggilega ekki því, að skattar munu hækka og nýir koma til. Staðan er einfaldlega þannig. Og það er sjálfsagt alveg sama hvað ríkisvaldið gerir í þessum efnum, öllum mun finnast að það hefði frekar átt að skattleggja eitthvað annað og skattpína hina, bara ekki mig.

En fyrst þetta mun gerast, þá finnst mér að það eigi að skattleggja óþarfann meira en nauðsynjarnar. Það er ábyggilega borðaður allt of mikill sykur á landinu - ekki síst í sælgæti og gosdrykkjum. Strangt til tekið er hvort tveggja óþarfi. 

Brennivín og tóbak má líka skattpína mín vegna. Það er oftar en ekki óþarfi.

Matur handa ungabörnum er hinsvegar ekki óþarfi. Strætó er ekki óþarfi. Bensín er ekki óþarfi. Tíu milljón króna jeppar eru hinsvegar óþarfi og sömuleiðis innfluttar dádýralundir.


'Hann er voða sætur'

Ég verð að eta það ofan í mig að þátttakan í Evróvisjón yrði niðurlægingin ein. Geri það hér með. 'Yohanna' er sjarmerandi og syngur vel og lagið alveg þokkalegt. Miklu betra en flest hin lögin í þessari keppni - sem sýnist raunar fyrst og fremst ganga út á sexappíl og hamagang á sviðinu. Það er alsiða þegar þarf að fela hvað lögin eru vond.

Ég hafði ekki heyrt norska lagið fyrr en úrslitin lágu fyrir og spurði tvær smekkvísar konur sem voru með mér hvort þetta væri gott lag. Þær svöruðu nánast samhljóða: Já, hann er VOÐA sætur.

Svo heyrði ég norska lagið sem er heldur ómerkilegt þótt norski Hvítrússinn sé sjarmerandi. Íslenska lagið er miklu meira lag - slagaði upp í það breska.

 


FME með stæla

Það má vel selja mér að stundum sé nauðsynlegt að trúnaður ríki um ákveðin málefni sem ríkisvaldið sýslar við. Rafmagnsverð til stóriðju gæti vel verið eitt af því - ef samkeppni á að ríkja er hæpið að birta verðskrána í upphafi samningaviðræðna.

En trúnaðurinn hefur á liðnum árum gengið allt of langt og stjórnkerfið verið innstillt á að láta sjálft sig njóta alls vafa. Það eru vondir stjórnarhættir og ef ég skildi ólguna í vetur rétt, þá var þetta leyndarviðhorf eitt af því sem fólk vildi snúa við. 

Og enn eimir eftir af þessu. Hvaða della er það til dæmis í Fjármálaeftirlitinu að segja ekki afdráttarlaust hvert það sendi mál Milestone/Sjóvá/Moderna eða hvað þetta allt heitir?

Hvað stælar eru að segja að málið hafi verið sent til "viðeigandi" stjórnvalds? Annað hvort er það lögreglan eða sérstakur saksóknari. Hvaða ógnarlegi leyndardómur getur komið í veg fyrir að maður fái að vita hvor aðilinn það er?

Forstjóri FME hlýtur að skilja þetta. Hann þarf ekki að vera með stæla við almenning.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband