Bloggfærslur mánaðarins, mars 2011

'Tilgangslausar frægðarhórur'

Stundum les ég eitthvað sem hittir svo rækilega í mark að ég óska þess að ég hefði skrifað það sjálfur.

Þessi grein úr Reykjavik Grapevine er dæmi um það: http://grapevine.is/Features/ReadArticle/A-FOREIGNERS-GUIDE-TO-THE-CONFUSING-WORLD-OF-ICELANDIC-CELEBRITIES

 

 


Aftur í stríð

Ég hjó eftir því í dag að Össur utanríkisráðherra Skarphéðinsson sagði það vel koma til greina að Íslendingar myndu styðja við hernaðaríhlutun Vesturveldanna í Líbýu.

Það kann svo sem að vera að ég hafi misst af umræðum á Alþingi um þetta mál og hugsanlega þátttöku Íslendinga í hernaði gegn Líbýumönnum – að það sé búið að ræða það í þaula að okkar friðsama þjóð við ysta haf skuli nú í stríð suður í Afríku. Það væri þá ekki í fyrsta sinn sem ég missti af slíkum stórtíðindum.

En var það ekki einmitt þetta sama lénsherraviðhorf sem gerði okkur samsek um hernað Ameríkana og bandamanna þeirra í Írak – að forustumenn ríkisstjórnarinnar sem þá var ákváðu að við skyldum vera með og spurðu hvorki kóng né prest? Er þetta ekki annars sá sami Össur sem hefur verið að leita árangurslítið í skjalasöfnum stjórnarráðsins að pappírum sem skýra aðdraganda þess hernaðarævintýris okkar?

Þá er að vona að hann skjalfesti þessar hugmyndir sínar nú vel og vandlega svo að eftirmenn hans þurfi ekki að leita lengi og árangurslaust í skjalageymslum ráðuneytisins þegar hernaðurinn verður erfiður og óvinsæll.

Gaddafi ofursti er sjálfsagt ekki síðri skúrkur en Saddam sálugi Hussein. En það er bara allt annað mál.


Ekki hlustað

Alistair Darling fyrrum fjármálaráðherra Breta lýsti því skilmerkilega í viðtali við Sigrúnu Davíðsdóttur í Sjónvarpinu í gærkvöld að ekkert hefði verið að marka Íslendinga í aðdraganda hruns bankanna. Þeir hefðu ekkert skilið og enn síður hlustað.

Hann hlýtur að hafa sannfærst endanlega um það í viðtalinu að það væri þjóðareinkenni á Íslendingum að hlusta ekki á viðmælendur sína – því engu var líkara en að Sigrún hlustaði alls ekki á það sem hann sagði. Hún endurtók spurningar sínar með mismunandi orðalagi og uppskar að vonum sömu svörin. Aftur á móti sleppti hún fjölmörgum gullnum tækifærum til að fylgja eftir spurningum eða bregðast við því sem Darling var að segja.

Það var í rauninni alveg furðulegt að fylgjast með svona fúskaralegum vinnubrögðum. 


Það er vandlifað

Ekki er góður kostur að versla við Arion eða Íslandsbanka þar sem topparnir hafa enga siðferðisvitund.

Ekki verður freistandi að halda áfram að versla við MP banka eftir að menn með vafasama fortíð ná þar yfirhöndinni. Hver fer maður þá með sín viðskipti? Í Byr? Ha ha ha!

Ekki er gott að ferðast úr landi með Iceland Express – augljóst hvers vegna ekki.

Ekki er gott að taka mikið mark á DV eða Pressunni sem fjalla glæpamenn og óþokka eins og þeir séu þjóðhetjur.

Ekki er gott að treysta um of á Moggann sem birtir lygafréttir og lætur eins og ekkert hafi í skorist.

Á maður þá að binda trúss sitt við 365 miðla í staðinn? Æ, varla.

Hæpið er að treysta um of á Alþingi – það dugar að fylgjast með umræðum um fundarstjórn forseta eða eitthvað slíkt í 10 mínútur til að fá uppí kok.

Á ég að kaupa mér timbur í Húsasmiðjunni sem er í eigu ríkisins og beitir hundakúnstum í samkeppninni – eða á ég að kaupa skrúfur í Byko fyrir fimm þúsund krónur pakkann?

Á ég að kaupa bensín hjá Orkunni eða Skeljungi? Æ, sama fyrirtækið. Vond fortíð. Veit ekki einu sinni hver á þetta núna – enda skiptir það varla máli.

Á ég að taka mark á hámenntuðum sérfræðingum sem segja í sjónvarpinu að gufan dugi ekki nema í 50 ár og láta þar með eins og það muni aldrei rigna á Íslandi framar?

Er einhverjum eða einhverju að treysta yfirleitt?

Það er skítalykt af þessu öllu saman. Því er nú ver og miður. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband