Falleraðir ráðherrar í fýlu

Ég lenti í úrtaki skoðanakönnunarinnar 2009 sem vitnað hefur verið til í kvöld - þegar ríkisstjórn Geirs Haarde var í andarslitrunum. Ég kaus ekki þá stjórn (frekar en aðrar) en man eftir að hafa svarað því til að ég styddi þá ríkisstjórn - ekki vegna þess að ég væri hrifinn af henni heldur vegna þess að ég sæi ekki að maður ætti aðra kosti í stöðunni: allt var á beinni leið til fjandans og þá fannst mér ósanngjarnt að sparka í liggjandi fólk.

Svo var sem betur fer skipt um stjórn sem síðan hefur mokað skítinn daga og nætur við litlar vinsældir og enn minni þakkir. Það eru ekki nema þrjú ár síðan - og nú er endurreisnarstjórnin í svipaðri stöðu. Að mörgu leyti getur hún sjálfri sér um kennt. Ástandið þar innanbúðar virðist vera hið sama og úti í samfélaginu: hver höndin upp á móti annarri og þegar einn talar í austur talar sá næsti í vestur eða út og suður (sem er raunar algengara). Og þegar stokkað er upp í ríkisstjórninni, sem er óhjákvæmilegur fylgifiskur kerfisbreytinganna sem verið er að gera, þá eru falleruðu ráðherrarnir umsvifalaust komnir í bullandi fýlu og  stjórnarandstöðu og eru með tóma stæla. Það þarf engin nöfn að nefna hér! Þetta er náttúrlega enginn manér – en sýnir hvað þetta eru litlir karlar.

Ég hef áður nefnt það hér að „endurnýjunin“ á Alþingi í kosningunum 2009 hefur reynst fullkomlega misheppnuð. Það er rétt hjá Davíð Oddssyni í viðtali við skólablað Verzló að það er „óvenju lélegt núna“ mannvalið á þingi og vitsmunalegar umræður þar fágætar, svo ekki sé meira sagt. Það er þinginu sjálfu að kenna og því ekki að undra að ekki nema tíundi hver kjósandi beri traust til stofnunarinnar – sem er náttúrlega hrikalegt ástand og hættulegt. Það ástand batnar ekki fyrr en menn hætta að moka stöðugt yfir þá sem eru þó að moka flórinn. Það gildir um Alþingi og það gildir um okkur hin.

Sanngirni er nefnilega af hinu góða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: K.H.S.

Fallerðir fjölmiðlamenn "ekki blaðamenn".

Varst þú hætinu hót betri.

K.H.S., 3.4.2012 kl. 20:12

2 Smámynd: Ómar Valdimarsson

Það er sama hér: talað út og suður. Hvað koma fjölmiðlamenn þessu við - eða blaðamenn? Er ómögulegt að halda sig við efnið?

Ómar Valdimarsson, 3.4.2012 kl. 21:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband