Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2009

Hverju reiddust goðin...?

Ég bjó og vann í Indónesíu þegar flóðbylgjan mikla reið yfir um jólin 2004. Næstu mánuði var ég á stöðugum ferðalögum á milli Jakarta og flóðasvæðanna í Aceh við að undirbúa uppbygginguna.

Einhverntíma á fyrstu vikunum var ég á heimleið til Jakarta ásamt indónesískum kollegum, vel menntuðu fólki. Í fluginu ræddu þau saman alvörugefin og sneru sér loks að mér: heldur þú að flóðið hafi komið vegna þess að Guð var reiður?

Ég sagðist ekki halda það, flóðið hefði verið afleiðing jarðskjálfta á hafsbotni og það væri náttúrufyrirbæri.

Þessu tali lauk fljótlega en ég þóttist vita að rasjónalisminn í mér hefði engu breytt um þeirra hugleiðingar.

Nú hefur indónesískur ráðherra sagt upphátt það sem þessir vinir mínir og fleiri hafa verið að hugsa: endalausar náttúruhamfarir í Indónesíu eru refsing fyrir siðleysi landsmanna. Samgöngu- og upplýsingamálaráðherrann, Tifatul Sembiring, sagði þetta á bænasamkomu í Padang á Súmötru á föstudaginn en þar varð mannskæður jarðskjálfti í september. Tifatul sagði ekki óeðlilegt að náttúran væri ill, það væri allt morandi í klámi á mörkuðum og sjónvarpið sýndi marga þætti sem græfu undan siðgæði í landinu.

Ef Tifatul hefur rétt fyrir sér, þá er kannski komin skýringin á íslenska hruninu. Það er að minnsta kosti ekki verri skýring en sú að þjóðir heims hafi sameinast í heift og óvinsemd gegn okkur fáum og smáum.

Auðvitað kemur það ekkert málinu við að Íslendingar fóru um alþjóða fjármálamarkaði eins og drukknir ruddar sem þurfti að stöðva...

Kviksetningin í Belgíu

Fyrir mörgum árum komst ég að þeirri niðurstöðu að ef ég yrði svo alvarlega veikur að ég ætti mér enga batavon, þá myndi ég ekki vilja að mér yrði haldið lifandi með einhverskonar vélbúnaði. Ég trúði því að læknavísindin myndu vita hvort mér gæti batnað eða ekki.

Nú er ég ekki alveg eins viss, ekki eftir að hafa lesið frásagnir af belgíska manninum sem var talinn 'grænmeti' í 23 ár en var glaðvakandi allan tímann og vissi af öllu sem gerðist í umhverfi sínu (sjá t.d. hér http://www.guardian.co.uk/science/2009/nov/24/locked-in-syndrome-belgium-research). Hann  var bara algjörlega lamaður og gat engin merki gefið sjálfur. Það var svo belgískur læknir sem mældi heilavirkni hans á dögunum og þá kom í ljós að heilastarfsemin var í fullkomnu lagi.

Sögur af kviksetningum hafa alla tíð vakið með mér hrylling. Þetta er ein slík - sem betur fer með góðan enda. En það eru svakalegar upplýsingar sem koma fram í Guardian-greininni, að sennilega séu 40% þeirra sem eru úrskurðaðir heiladauðir í raun með fulla meðvitund.


Afdalamennskan á undanhaldi

Framfarir í stjórnsýslu hérlendis hafa að langmestu leyti orðið vegna þrýstings frá útlöndum og þátttöku Íslendinga í alþjóðlegu samstarfi. Á þann hátt hafa nokkrir slæmir skávankar landlægrar afdalamennsku verið fjarlægðir.

Ég er einn þeirra sem tel að þátttaka í alþjóðlegu samstarfi vera af hinu góða, þar með talin þátttaka í Evrópusambandinu. Raunar má þegar sjá þess merki að aðildarumsóknin ein sé að verða að gagni: nú heimtar ESB hlutlausar upplýsingar um raunverulega stöðu landbúnaðarins hér, ekki bara tölur sem Bændasamtökin - samansúrraður sérhagsmunagæsluhópur - hafa skaffað. Í Brussel er vitaskuld ekkert mark tekið á slíkum vinnubrögðum.

Mér þykir íslenskt lambakjöt gott og vil helst íslenskt smjör en hef engu að síður lengi haft um það óþægilegan grun að það sé eitthvað galið við landbúnaðarstefnuna hér á landi – eins og að það þurfi að borga 11 eða 12 milljarða á ári með framleiðslunni (held ég muni þessar tölur rétt). Eitthvað myndi verða sagt ef aðrar atvinnugreinar væri í áskrift að viðlíka hluta skattpeninganna okkar!

Það er nefnilega ekki bara upphefð vor sem kemur að utan, heldur líka flestar umbætur.


Vitlaust gefið

Fyrir tæpum 18 árum var svo komið fyrir mér að ég hafnaði á Vogi. Þar fékk ég þá aðstoð sem ég þurfti og hef síðan lifað miklu betra lífi, mér og mínum til hagsbóta og hamingju.

Á fyrstu árunum eftir dvölina leið aldrei svo mánuður að ég rækist ekki á dánartilkynningu eða minningargrein um einhvern sem ég hafði annað hvort hitt á Vogi eða í þeim kreðsum sem alkar í bata hafa með sér. Þá áttaði ég mig endanlega á hversu hættulega banvænn alkóhólismi er. 

Því er ég að nefna þetta að nú er verið að skera niður opinber fjárframlög til meðferðarstarfs SÁÁ. Þingmaður sem ég hitti á dögunum sagði mér að meðferðarstarfið (sem felst í því að bjarga fjölskyldum frá hryllingi þar sem dauðinn er ekki alltaf verstur) fengi á fjárlögum álíka mikið og Bændasamtökin. Það eru frjáls félagasamtök bænda sem reka margar skrifstofur undir félagsstarfið í vesturborginni. Landbúnaðurinn fær svo einhverja milljarða að auki.

Og Bridgesambandið, félag áhugamanna um að spila á spil, fær heldur meira fé á fjárlögum en Landssamtökin Þroskahjálp sem vinna að því að tryggja fötluðu fólki jafnrétti. 

Ekki vil ég gera lítið úr vanda þeirra sem fara með fjárveitingavaldið í landinu - en hér er forgangsröðin greinilega eitthvað úr lagi gengin.  Auðvitað á meðferðar- og líknarstarf SÁÁ að njóta meiri stuðnings en hagsmunafélag bænda og vitaskuld (nema hvað!) eiga samtökin Þroskahjálp skilið að fá meiri stuðning almennings en spilaklúbbar.


Sjálfhverfa?

Einu sinni hef ég kosið í forsetakosningum - þegar Vigdís var kjörin. Ákvað mig endanlega í kjörklefanum og var alla tíð stoltur af þeirri ákvörðun.

Nú er að koma út ævisaga hennar sem verður ábyggilega fróðleg lesning. Svolítið hefur verið sagt frá innihaldi þessarar bókar, einkum því að eftir hrunið hafi Vigdís haft mestar áhyggjur af því að þar með væri allt hennar landkynningarstarf farið í vaskinn. Er þetta ekki svolítið vandræðalegt?

Ég vona að þetta sé ekki rétt eftir haft.


Falleraðir útrásarvíkingar?

'Þjóðarhagur' er fyrirbæri sem kynnir sig með heilsíðuauglýsingum í blöðum dag og óskar eftir stuðningi við að kaupa gamla Baugsveldið, þ.e. Haga. Þetta er að sögn 'hópur fjárfesta' - en meira fær maður ekki að vita. Á vefsíðunni www.thjodarhagur.is er einskis getið um hverjir eru þessir umboðsmenn þjóðarhags. 

Mér sýnist farið út í þetta á hæpnum forsendum. 'Þjóðarhagur' gæti allt eins verið samsafn falleraðra útrásarvíkinga, þar með talinn Jón Ásgeir og hans lið. 

Grundvallaratriði er að maður fái að vita hverjir standa þarna að baki. Þá gæti vel verið að ég myndi einhvers staðar geta slegið fimm þúsund kall til að leggja mitt af mörkum...


Aldrei séð betri leik

Nokkrir vinir okkar hafa stofnað með okkur menningar- og listaklúbb. Starfsemin felst í því að fara í leikhús og fá sér snarl fyrir eða eftir.

Á sunnudagskvöldið sáum við Fjölskylduna í Osagesýslu í Borgarleikhúsinu. Mér er til efs að ég hafi nokkurn tíma orðið vitni að jafn góðum leik og Margrét Helga Jóhannsdóttir sýnir í þessu verki. Og þótt Fjölskyldan sé á sviðinu í hartnær fjóra tíma, þá er það ekki nema örlítið of langt. Sáralítið, reyndar. Mæli eindregið með þessari sýningu.

Við höfum líka séð í Þjóðleikhúsinu Utan gátta, sem er frábær sýning (þótt við höfum reyndar aldrei verið alveg viss um hvað var að gerast!) og Biedermann og brennuvargana sem fjallar frá orði til orðs um efnahagshrunið á Íslandi þótt það hafi upphaflega verið skrifað um nazismann fyrir 60 árum. Stórkostlegar sýningar. 


Umræða kverúlantanna

Nú er komið í ljós að það er miklu betra að vera úrillur. Ég læt slíkt tækifæri ekki fram hjá mér fara:

Það hefur allt of lítið breyst á því ári sem liðið er frá hruninu. Það hefur ekki dregið mikið úr græðginni, tillitsleysinu, forherðingunni, gorgeirnum og rembingnum. Einstakir pólitíkusar halda áfram að spila sóló og gefa lítið fyrir samstöðu og ábyrgð, helstu foringjar hrunsins hafa bara fært sig um set en halda áfram að verja sig og sína og segjast blásaklausir af öllum ávirðingum, matvöruverslun í landinu er enn í klóm sömu klíkunnar, Mogginn hefur skipt um ham og gerir nú sitt besta til að efna til illinda við hvert tækifæri og sama fólkið er í bönkunum (og endurspeglar þar grundvallarvanda fámennisins: það er einfaldlega ekki nógu margt fólk í landinu til að skipta því öllu út). Við bætist að opinberri umræðu er að talsverðu leyti stjórnað af alls konar kverúlöntum á netinu.

Þegar maður fylgist með fréttum er eins og hér sé allt á vonarvöl, þjóðin svöng og búi við kulda og vosbúð: að hér sé allt á beinni leið til andskotans. Þegar sýndar eru sjónvarpsmyndir af umræðum á Alþingi fer um mann aulahrollur dauðans. Þar er einhver hópur sí-gargandi skólakrakka sem ekkert hefur til málanna að leggja og er sjálfum sér og sínum fjölskyldum til skammar flesta daga. Á meðan eru nokkrir menn að gera sitt besta til að gera þær grundvallarbreytingar á kerfinu sem lofað var, Jóhanna Sigurðardóttir og Gylfi Magnússon einna helst (Steingrímur er of upptekinn við skítmoksturinn til að njóta sín til fulls) en fá sjaldan að ljúka máli sínu í friði fyrir organdi skólakrökkunum. Og ekki er ástandið að batna í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna!

En það er ekki allt svart. Eftir stendur að um 80% þjóðarinnar eru ekki í neinni kreppu, atvinnuleysi er minna en búist var við, hagtölur eru hagstæðari en reiknað var með og umheimurinn virðist treysta því að ólukkans IceSave málið sé leyst (sem sést m.a. á því að Orkuveitan fékk loksins lánið sitt). Ef maður fylgdist ekki með fréttum, heldur gengi bara um bæinn og gerði sín daglegu innkaup, myndi maður ekki hafa hugmynd um að hér væri kreppa.

Ég hef haft betur í slag við sumar illskeyttar fíknir, þó ekki fréttafíknina. Mig grunar að ef mér tekst að hafa einhvern hemil á henni, þá verði skammdegið skammvinnt. Fleiri mega taka þetta til sín.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband