Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009

Stjórnlagaþing? Ert'ekk'a'djóka!

Frumvarp Jóhönnu forsætis um stjórnlagaþingið veldur miklum vonbrigðum vegna þess að þar er ekki tryggt að þingið verði óháð stjórnmálaflokkunum eins og margir höfðu vonast til. Frumvarpið gerir að vísu ráð fyrir að þar megi ekki eiga sæti ráðherrar og þingmenn – en það kemur ekki í veg fyrir að flokkarnir raði sínu fólki þarna inn (beinlínis gert ráð fyrir þátttöku þeirra í 9. gr. frumvarpsins).

Það sýnist vera skotheld uppskrift að því að þetta stjórnlagaþing verði áframhald þess getuleysis og flokkahagsmunapots sem hingað til hefur hefur einkennt viðleitni til að endurnýja stjórnarskrána frá 1944/1874.

Einstaklingar munu ekki eiga auðvelt með að bjóða sig fram til þátttöku í smíði nýju stjórnarskrárinnar; þar munu flokkarnir með sínar kosningamaskínur hafa yfirburði. En þetta þarf ekki að koma óvart: Fjórflokkurinn hefur sameinast um þessa tilhögun og enginn þarf að láta sér detta í hug að hann gefi neitt eftir eða hafi mikið lært á fjármála- og samfélagshruninu sem hann ber sök á.

Það væri yfirmáta hryggilegt ef frumvarpið um stjórnlagaþingið, eina af helstu kröfum almennings frá í vetur, yrði samþykkt eins og það er lagt fram. En það er ekki gott að sjá hvaðan hjálpin gæti borist. Um Fjórflokkinn þarf ekki að spyrja og því miður virðist heldur engin leið að treysta á Borgarahreyfinguna á þingi, jafn brotin, kunnáttulaus og móðursjúk og hún virðist vera.

Æ, mín auma þjóð...


Ísberg eða ísjaki

„Við vitum að þetta er bara toppurinn á einhverju ísbergi,“ segir Haraldur Briem sóttvarnalæknir.

Þetta er í vef-Mogganum í kvöld. Hvort sem Haraldur Briem hefur sjálfur tekið svona til orða eða rangt er eftir honum haft, þá er þetta vont orðalag. Íslenska orðið er ísjaki. Berg er grjót.

Gamall kennari minn í blaðamennsku þreyttist aldrei á að brýna fyrir nemendum sínum að þeirra hlutverk væri að hafa eftir fólki það sem það meinar, ekki endilega það sem það segir.


7,5 árs?!

Nei, í öllum bænum, ekki 7,5 árs!

Ekki einu sinni 7,5 ára - heldur sjö og hálfs árs fangelsi. 

Mogginn má skammast sín ofaní tær fyrir svona aulaskap!


mbl.is Fujimori dæmdur fyrir spillingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afsakið - hlé vegna bilunar

hle.jpg

Sjálfboðavinna?

Ég renndi yfir bresku IceSave-skýrsluna sem Össur Skarphéðinsson segir ekki hafa verið skrifaða að sinni beiðni.

Ég sé ekki betur en að með þessu plaggi hafi breska lögfræðifirmað verið að auglýsa sjálft sig og leggja til að það yrði fengið til að leggjast í meiri vinnu fyrir íslenska ríkið.

Það er algengt í ráðgjafabransanum að fólk og fyrirtæki reyni að komast inn í safaríka 'díla' með þessum hætti - skrifi einhverskonar skýrslu eða tillögudrög í þeirri von að það skapi þeim meiri vinnu í framhaldinu. Þetta er þá gert í sjálfboðavinnu.

Og ef svo var, þá er skiljanlegt að hvergi sé getið um það í skýrslunni að hvers beiðni hún var sett saman og hvert uppleggið var.

 


Sama skítalyktin

Mikið andskoti hef ég illan bifur á æfingum Geysir Green Energy suðrí Svartsengi án þess að hafa mikið í höndunum um þetta allt saman. Kannski er þetta bara sama skítalyktin og var af tilraun þessa félags til að komast yfir Orkuveituna - hitann og rafmagnið sem Reykvíkingar hafa átt í gegnum tíðina.

Manni sýnist þó að það sé verið að svína á Grindvíkingum og skilur vel að þeir séu svekktir.

Og svo er GGE auralaust fyrirtæki - en bíður eftir peningum frá Bill Gates! 

Kostulegast af öllu var þó að heyra forstjóra fyrirtækisins segja að það væri feiknarlega vel stætt - það vantaði bara peninga og erlenda fjárfesta!

Ég segi það sama fyrir mína parta. Ef ég hefði aðgang að peningum og erlendum fjárfestum, þá gæti ég auðveldlega keypt hálfan heiminn.

 


Illyrmin emja undan DV

Stundum er nauðsynlegt að brjóta lög - þá eru minni hagsmunir látnir víkja fyrir meiri.

DV hefur verið að því þessa dagana með birtingu á upplýsingum úr 'lánabók' Kaupþings. Smám saman skýrist myndin af hugarfari og hegðun þeirra sem fengu að vaða hér uppi á tímum nýfrjálshyggjunnar. Veslings foreldrar þeirra!

Þetta er gott hjá DV, raunar firna gott - og þeim mun betra sem illyrmin emja meira. Meira af slíku.


Jacko og Elvis í felum

Það er ábyggilega rétt að Michael Jackson sé enn á lífi en í felum fyrir aðdáendum sínum. Íransforseti var aðeins of seinn til að drepa hann, missti sennilega af strætó í umferðaröngþveitinu í Teheran.

Ég veit meira að segja hvar Michael Jackson er. Þar eru líka Elvis, Hendrix, Joplin, Brian Jones, Buddy Holly og feiti söngvarinn úr Canned Heat.

Þau eru öll á sama stað og stöku sokkarnir sem týnast í þvottavélum um allan heim. 

Jim Morrison og Lennon eru annars staðar.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband