Bloggfærslur mánaðarins, október 2010

Smámál fyrir Má

Almennt verður maður að taka gjaldeyrishöftunum með stillingu og kyngja því að þeirra sé þörf.

En smáatriði í útfærslu þeirra sýnist hægt að laga.

Í haust þurfti ég að fá þrjá dollara til að senda skóla vestur í Ameríku til að greiða fyrir afrit af gömlum prófum. Ég fór í banka í Kópavogi og var þá beðinn um farseðil til að sanna að ég væri að fara til útlanda og þyrfti peningana. Farseðilinn hafði ég ekki – enda var ég ekkert að fara, þurfti bara þrjá dollara fyrir ljósrit vestur í Ohio.

Það var ekki hægt, sagði gjaldkerinn og bar fyrir sig regluverki Seðlabankans.

Ég fékk því þrjá dollara annars staðar og sendi í pósti til Ameríku (sem var ábyggilega brot á gjaldeyrisreglunum).

Nú er ég hins vegar á leið úr landi og fór í gær með farseðilinn minn í banka í Kringlunni.

Nei, því miður, sagði gjaldkerinn, þú verður að fara í þinn eigin viðskiptabanka. Það eru reglurnar sem Seðlabankinn setur.

Það kostaði meiri fyrirhöfn (auðvitað ekki banvæna) sem hefði átt að vera óþörf.

Már Guðmundsson Seðlabankastjóri er glöggur maður og hagsýnn. Hann hlýtur að geta snúið þessa bjánalegu agnúa af reglunum.


Góðar fréttir af aðlögunarferlinu

Það voru góðar fréttir sem Mogginn flutti í gær af umsóknar/aðlögunarferlinu að ESB. Sambandið ætlast til þess að Íslendingar taki upp Evru, geri umbætur á dóms- og stjórnkerfi og aðlagi atvinnuvegina að þeim búskaparháttum sem tíðkast meðal menningarþjóða Evrópu.

Mér finnst þetta góðar fréttir því þær gefa til kynna að um síðir megi vænta þess að vit verði haft fyrir okkur um ýmis þau mál sem hafa reynst okkur ofviða. Gleymum því ekki að helstu umbætur á t.d. dómskerfinu hér hafa verið gerðar til samræmis við góða siði í Evrópu. Aðskilnaður lögreglu- og dómsvalds, sem ekki hafðist í gegn fyrr en eldri maður á Akureyri neyddist til að fara með mál sitt fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, er bara eitt dæmi um það. Og þótt ýmislegt umbótastarf sé verið að vinna hér í stjórnkerfinu þessi misserin (eins og þeir vita sem vilja vita), þá þarf vafalaust utanaðkomandi aðstoð til að stíga skrefin til fulls.

Enginn þarf að efast um að ýmislegt er það við kerfið í Evrópu sem betur mætti fara (og reynsla Finna og fleiri þjóða er sú að með upptöku Evru hækkar verðlag fyrst í stað en jafnar sig svo). En það er þó allt miklu betra en það sem hér hefur orðið til í moðsuðu ónýts stjórnmála- og hagsmunakerfis, svo ekki sé minnst á hagkerfið með krónuna sem ekkert er hægt að treysta á. Og áttum okkur líka á því að þeir sem berjast harðast gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu eru fulltrúar þeirra sérhagsmunaafla sem hingað til hafa getað ráðskast með örlög og efni þjóðarinnar að eigin vild. Ekki undarlegt þótt þeir séu í fýlu.

Af þeim kostum sem bjóðast er ESB hinn eini sem felur í sér mátt og vit til að taka völdin af þessu fólki. Það á það skilið – og við hin eigum það skilið.


Nátttröllin

Það var í rauninni svolítið óhugnanlegt að horfa á ágæta mynd um forsetakjör Vigdísar Finnbogadóttur í sjónvarpinu í gærkvöld.

Það óhugnanlega var hversu áberandi kvenfyrirlitningin var í opinberri umræðu á þessum tíma – sumir keppinauta hennar í kosningunum voru eins og nátttröll sem fannst augljóslega gjörsamlega út í hött að konukind væri að abbast þetta upp á dekk - fyrir nú utan ýmislegt það sem sagt var (og sagt er enn).

Það var líka óhugnanlegt að hugsa til þess hversu langt er í land í jafnréttismálum hér, þótt mikið hafi áunnist á ekki lengri tíma en þetta. Og eru þó íslenskar konur miklu betur staddar en flestar aðrar konur í veröldinni.

Ég passaði mig náttúrlega á að láta ekki sjá mig á útifundinum, minnugur þess að kona ein í mannþrönginni á Lækjartorgi sagði við mig á Kvennafrídaginn 1975: Æ, ættir þú ekki bara að vera heima.

Ég veit hins vegar ekki alveg hvað mér finnst um stórt skilti sem ung kona bar hátt á lofti með áletruninni Píka. Ég skil ekki alveg hvað hún er að fara (sjá hér: http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2010/10/25/um_50_000_i_midborginni/)

Hitt þykist ég vita, að ef karl sæist í næstu 1. maí göngu sveiflandi skilti með áletruninni Tittlingur, þá yrði allt vitlaust.


Aðgát skal höfð...

Guðmundur Andri Skúlason heitir maður, stjórnarmaður í Borgarahreyfingunni og frammámaður í Samtökum lánþega. Ég þekki þennan mann ekkert en mér finnst óhjákvæmilegt að taka upp hanskann fyrir hann.

Á Pressunni í gær birtist frétt um að Guðmundur Andri væri dæmdur ofbeldisglæpamaður. Aðrir miðlar tóku þetta upp: þessi kújón er glæpamaður.

Nú hefur Guðmundur Andri sent frá sér yfirlýsingu til útskýringar skilorðsbundnum dómi sem hann hlaut fyrir ofbeldi gegn systur sinni sem hefur lengi verið hættulega veik af alkóhólisma. Það er ekki falleg saga frekar en við er að búast.

Enginn, sem ekki hefur reynt það á eigin skinni, getur skilið þá örvæntingu og þann óumræðilega harm sem fylgir því að glíma við sturlun alkóhólismans – hvað þá þegar um er að ræða ástvin eða ættingja. Það kostar feiknarleg átök og þau átök geta stundum orðið líkamleg. Það er augljóslega ekki til fyrirmyndar en getur verið skiljanlegt – og jafnvel eina ráðið.

Nú hef ég ekki lesið dóminn yfir Guðmundi Andra heldur aðeins frásagnir Pressunnar og hans sjálfs. Af þeim er ljóst að dómarinn taldi að ekki væri um of að byggja á framburði Guðmundar Andra og má af því draga einhverjar ályktanir.

Ég hef hins vegar enga ástæðu til að efast um að hann elski systur sína og vilji henni vel. En mér finnst ég hafa ástæðu til að efast um að þessi frétt Pressunnar hafi átt rétt á sér nú – ekki síst þegar kemur í ljós að fyrir ári síðan var sama frétt birt í DV og að Guðmundur Andri skýrði þá sína hlið á málinu.

Það er ævinlega varasamt að fjalla opinberlega um fjölskylduharmleiki. Pressan hefði átt að hugsa málið betur áður en látið var vaða.


Þetta er eitthvað dularfullt

Er ekki eitthvað undarlegt við hversu fáir hafa nýtt sér þau úrræði sem bjóðast fólki í blankheitum og ‘greiðsluvanda’? Mér finnst þetta dularfullt. Þeir sem ég þekki og veit að eru í greiðsluvanda hafa leitað allra leiða til að fá aðstoð – og fengið hana að verulegu leyti. Af hverju ekki að þiggja hjálp sem stendur til boða ef allt er að fara fjandans til?

Er það kannski sálarkreppa sem kemur í veg fyrir það? Það er líka hægt að fá aðstoð vegna slíkra kvilla.

Eða er kannski gert allt of mikið úr vandanum? Mig er farið að gruna það – og læt mig bara hafa það þótt alls konar kverúlantar og hagsmunapotarar ráðist nú að mér með heitingum. Það er allt of mikið hlustað á svoleiðis fólk nú á tímum lýðskrumsins.

Ég er raunar svo lánsamur að skulda Íbúðalánasjóði ekkert enda var ég um það bil búinn að borga upp húsnæðisskuldir mínar þegar Ballið mikla byrjaði. Ég myndi því ekkert hagnast á hinni svokölluðu flötu niðurfellingu skulda (sem hlýtur að vera dómadags vitleysa í sjálfu sér. Ég er ekki nógu mikill hagfræðingur til að útskýra hvers vegna og þarf þess ekki, margir reikningsglöggir menn hafa tekið af mér ómakið).

En mér er þó ljóst að eitt myndi gerast með þessari flötu niðurfellingu. Fólk sem ég þekki og fór ekki bara óvarlega í fjárfestingum á Ballinu, heldur beinlínis glæfralega, myndi fá 20% afslátt, eða hvað það nú yrði. Og þeim mun meiri sem skuldirnar væru, þeim mun meiri væri afslátturinn. Ég myndi ekkert fá, enda þarf ég ekki á því að halda – sem væri sosum réttlæti út af fyrir sig.

En einhver þarf þá að borga þá 200 milljarða sem þetta myndi kosta. Og þar kemur að mér. Ég myndi þurfa að borga þetta inn í Íbúðalánasjóð sem þegn ríkisins og skattgreiðandi. Og að auki myndi lífeyrissjóðurinn minn, sem ég hef borgað samviskusamlega til í 40 ár, skera niður væntanlegan lífeyri minn.

Sem sagt: við hin þyrftum að borga þetta allt saman.

Það hlýtur að vera hægt að fara skynsamlegri og réttlátari leið til að aðstoða þá sem raunverulega þurfa á hjálp að halda.


Leynifélaginn í ESB

BRUSSEL: Þeir segja um Noreg hér að þar fari “leynifélaginn” í Evrópusambandinu. Norskir embættismenn sem við höfum hitt segjast taka þátt í nánast öllum umræðum og bollaleggingum sem fram fara á vettvangi sambandsins – en fari svo fram á gang þegar kemur að því að taka ákvörðun.

Nojararnir láta drýgindalega og segja að samband þjóðar sinnar við ESB sé hið besta og að þeir fái ýmsum hagsmunamálum sínum framgengt með stuðningi vinveittra þjóða. Einn norsku embættismannanna missti þó út úr sér að það væri stöðugt erfiðara fyrir þá að koma sínum sjónarmiðum að.

Norrænu aðildarþjóðirnar eru að sjálfsögðu með öflug sendiráð í Brussel – Svíar, Danir og Finnar. Stærsta sendiráðið reka þó Norðmenn sem hafa hér um 60 manns. Að auki eru hér skrifstofur fyrir alls konar norræn hagsmunasamtök og áróðursfélög og svokallaðir lobbyistar skipta tugum þúsunda. Það er enda ekki að undra, hér eru teknar stórar og smáar ákvarðanir sem hafa áhrif á líf nærri fimm hundruð milljóna manna og allir vilja koma sínum sjónarmiðum að.

- En hvað myndi breytast fyrir Noreg ef þið hættuð að vera leynifélagar og yrðu fullgildir aðilar? spurði ég einn norska diplómatinn.

Mér til undrunar vafðist honum tunga um tönn og hann átti erfitt með að útskýra efnislegar ástæður fyrir því að Norðmenn kysu að láta EES-samninginn gilda. Niðurstaðan var eiginlega sú að andstaðan við ESB-aðild í Noregi væri fyrst og fremst tilfinningamál.

Það skildi ég mætavel, þekkti það að heiman.

- Þið eruð ekki hræddir við að ESB hirði af ykkur olíuna og fiskinn og fallvötnin? spurði ég.

- ESB hirðir auðvitað engar auðlindir, svaraði hann. – Við leigjum nú þegar talsverðan fiskikvóta til ESB landa og fáum kvóta hjá þeim í staðinn.

Tilfinningarökin komu svo skýrt fram í lyftunni þar sem ég var með tveimur Norðmönnum, öðrum andvígum aðild, hinum fylgjandi. Stúlka sem fylgdi okkur um hús framkvæmdastjórnarinnar setti okkur inn í lyftu og bar svo kort að skynjara þar fyrir framan.

- Lyftan fer með ykkur upp á áttundu hæð, sagði hún, bíðið þar eftir mér.

Og lyftan skilaði okkur á áttundi hæð og vildi hvorki upp né niður nema maður hefði til þess gert kort.

- Svona virkar ESB, sagði þá annar Norðmaðurinn hundfúll. – Maður er settur inn í kassa og svo fer hann upp og niður og út og suður og maður ræður engu um hvar maður lendir.

 


Sjávarútvegsstefnan ekki vandinn, heldur...

BRUSSEL: Sænskir bændur stórgræddu á inngöngu Svíþjóðar í Evrópusambandið, sagði mér sænskur kollega í dag, þeir fengu miklu meiri peninga í sinn hlut en þeir höfðu fengið áður. Og embættismenn úr þeirri deild framkvæmdastjórnarinnar sem annast aðildarsamningana við Íslendinga létu eins og það væri augljóst mál að allur íslenskur landbúnaður myndi falla undir svokallaðan “heimskautalandbúnað”, þ.e. þá uppfinningu að flokka hluta landbúnaðar Svía og Finna þannig – landbúnað norðan við 62. gráðu norðlægrar breiddar. Ísland er allt norðan við þessa gráðu.

Niðurstaðan eftir nærri þriggja vikna samfellda skoðun á ESB, stofnunum þess, sáttmálum og reglum, er sú að það sé ekki hin sameiginlega sjávarútvegsstefna sem Íslendingar eigi að hafa áhyggjur af (eftir sem áður mun enginn komast inn í fiskveiðilögsöguna sem ekki hefur þar veiðikvóta), heldur fjórfrelsisákvæðið um frjálst fjármagnsflæði sem heimilar fyrirtækjum í aðildarríkjunum að reka atvinnustarfsemi hvar sem er.

Þetta er það sem Íslendingum mun reynast erfiðast, sagði embættismaður hér í dag – en bætti við að alltaf væri hægt að finna lausnir á erfiðum vandamálum. Varanlegar undanþágur væru illa séðar í sambandinu, sagði hann, en frjóir samningamenn hefðu hingað til getað látið sér detta í hug alls konar útfærslur sem nýst hafa vel.

Þingmaður á Evrópuþinginu sagðist í vikunni ekki hafa miklar áhyggjur af viðræðunum við Íslendinga eða fyrirvörum þeirra um fiskveiðistefnuna. Sú stefna er í endurskoðun og að sjálfsögðu verður verulega litið til Íslands í þeim efnum, þeir reka sjálfir góða og ábyrga sjávarútvegsstefnu sem reynst hefur vel. Svo gerum við Íslending að sjávarútvegsstjóra! sagði hann við góðan fögnuð norrænna manna og kvenna.

Embættismenn hér segjast hæstánægðir með samskiptin við Íslendinga hingað til og lýstu sérstaklega ánægju sinni með hversu fljótt og vel (betur en margir aðrir) hefðu skilað þeim upplýsingum sem lágu til grundvallar þegar framkvæmdastjórnin samþykkti að hefja aðildarviðræðuferlið.

Það næsta sem gerist í þessu ferli er að 9. nóvember næstkomandi kemur út áfangaskýrsla um viðræðurnar og jafnframt er að fara í gang rækilegur samanburður á íslenskri löggjöf og lagaumhverfi ESB. Hinar eiginlegu viðræður ættu því að geta hafist ekki síðar en á miðju næsta ári, sögðu menn hér í dag. Það verður fróðlegt að fylgjast með því.

En á meðan er hægt að benda á sérstaka vefsíðu um endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar sem sænskur græningi á Evrópuþinginu hefur sett upp. Þar er að finna allar mögulegar upplýsingar um stefnuna sjálfa og þær hugmyndir sem eru í gangi um endurskoðun hennar. 


Það sem virtist svo einfalt...

Í upphafi virtist þetta allt vera frekar einfalt:

Alþingi ákvað fyrir tveimur árum að setja á stofn rannsóknarnefnd til að leiða í ljós sannleikann um aðdraganda efnahagshrunsins. Allir voru ánægðir með þetta.

Í vor kom skýrsla nefndarinnar í löngu máli, Stóra skýrslan. Allir voru ánægðir með hana.

Í Stóru skýrslunni voru nafngreindir nokkrir forustumenn lands og þjóðar sem höfðu sofið á vaktinni. Allir voru mjög ánægðir með að þetta lægi fyrir.

Svo stofnaði Alþingi þingmannanefnd til að fara yfir Stóru skýrsluna og gera tillögur um viðbrögð þingsins. Allir voru mjög ánægðir með það.

Næst gerðist það að þingmannanefndin skilaði tillögum sínum. Allir voru hæstánægðir með þann hluta sem sagði ekkert um ábyrgð á hruninu.

En nokkrir, sérstaklega forustumennirnir og vinir þeirra, urðu spólvitlausir yfir því að það ætti í alvöru að taka mark á skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.

Nema meirihluti þjóðarinnar sem fannst þetta gott mál. Könnun MMR frá 17. september sýndi nefnilega að meirihluti þjóðarinnar vildi taka mark á Stóru skýrslunni og láta forustumennina sæta ábyrgð.

Í kjölfarið var efnt til illinda á Austurvelli – en út af einhverjum allt öðrum málum.

Er nema furða að manni gangi illa að skilja þetta - hvað þá að útskýra gang mála á Íslandi fyrir fólki í öðrum löndum?


Sviðin jörð eftir íslensku innrásina

ÁRÓSUM: Bæjarblaðið hér, Århus Stiftstidende, er að deyja. Upplagið hefur hrapað úr nærri 80 þúsund eintökum í minna en 30 þúsund á örfáum árum.

Þeir berjast um á hæl og hnakka enda á þetta ágæta blað sér rúmlega 200 ára merka sögu, stofnað 1794. En það berst við ofurefli Jyllands-Posten sem hefur haft aðgang að gríðarlegu fé til að berja samkeppnina niður.

JP hefur reyndar sjálft mátt verja miklu fé á undanförnum árum til að verjast viðbrögðum við þeirri ákvörðun að birta umdeildar teiknimyndir af Múhammeð spámanni (í nafni hins takmarkalausa tjáningarfrelsis) og nú eru miklar gaddavírsgirðingar í kringum höfuðstöðvar blaðsins í Viby, útbæjar Árósa. Þörfin fyrir víggirðinguna minnkar varla á næstunni því nú er verið að gefa teikningarnar út í sérstakri bók um það mál allt saman.

Fleiri dönsk blöð berjast í bökkum og raunar er kreppa í blaðaútgáfu ekki sér danskt fyrirbæri, dagblöð víða um heim eiga undir högg að sækja. Hvað hefur ekki verið að gerast á Íslandi?

Ein ástæða þessarar dagblaðakreppu hér í landi rekur ættir sínar til Íslands og er til tákns um að ekkert er eylandið í heimsvæðingu dagsins. Það var nefnilega þannig að Nyhedsavisen-ævintýri Gunnars Smára, Jóns Ásgeirs og félaga kostaði danska blaðaútgefendur um hálfan annan milljarð danskra króna – þrjátíu milljarða íslenskra króna. Það fé var sett í að bæta samkeppnisaðstöðuna gagnvart íslensku innrásinni...sem rann svo út í sandinn eins og margt annað sem kokkað var á þeim bæ. Þessa peninga hefði allt eins verið hægt að nota til að bæta þau blöð sem fyrir voru.

Eftir sátu fátækari dönsk dagblöð, Århus Stiftstidende þar á meðal, og fjölmargir atvinnulausir danskir blaðamenn.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband