Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010

Eru þessi 40% verri en hin?

Það er engin sérstök ástæða til að vera með stórar yfirlýsingar um kjörsókn í stjórnlagaþings-kosningunum. Tæplega 40% kjörsókn er alveg nóg: þingið hefur fullt umboð til að vinna þá vinnu sem því er ætlað.

Auðvitað hefði verið betra ef kjörsókn hefði verið meiri en hún var það bara ekki.

Það hefur til að mynda þótt alveg nóg fyrir stjórnmálaflokka að fá innan við 40% atkvæða í kosningum til að fara með öll völd í landinu og ráðskast með það að eigin geðþótta. Ekki eru þau fjörutíu prósentin sá “afgerandi” meirihluti sem þras- og úrtölumenn okkar gjaldþrota stjórnkerfis eru nú að heimta á bak við stjórnlagaþingið.

Ég hef engar kenningar um hvers vegna kjörsóknin var ekki meiri en mér finnst hún vel duga. Nú er bara að sjá hvort stjórnlagaþingsmenn og –konur duga. Það skiptir miklu meira máli en hvort letingjar voru svo uppteknir við að þrasa frá sér allt vit að þeir nenntu ekki á kjörstað.


25 á toppnum

Það hefur ekki verið einfalt mál að velja þá 25 sem ég ætla að kjósa á stjórnlagaþingið. Eftir fyrstu yfirferð hafði ég merkt við um 60 nöfn. Það er nefnilega margt úrvalsfólk meðal frambjóðenda sem ég treysti vel til að fara í verkið þótt þar sé líka að finna rugludalla, kverúlanta og vitleysinga.

Úr sextíu tókst mér næst að skera niður í rúmlega 40 manns – allt fólk sem ég kannast við, ýmist persónulega eða af afspurn. Allt gáfað, réttsýnt og vel menntað fólk með reynslu og þekkingu á ýmsum sviðum. Einstaka með einhver lausleg tengsl við stjórnmálaflokka, flestir ekki. Enginn sem hefur verið að pirra mig með auglýsingum um eigið ágæti.

Í gærkvöld kláraði ég svo lista yfir 25 manns og er búinn að raða eftir persónulegum smekk. Það eru heldur færri konur á listanum en ég hafði ætlað mér – en þeim mun fleiri jafnréttissinnar. Þarna eru menntamenn, blaðamenn, listamenn, lögfræðingar, bændur, prófessorar, ungt fólk og eldra fólk (og einn ljóngáfaður frændi minn úr Vestmannaeyjum, enda er hann af svo góðu fólki).

Ég hef reynt að halda mig við þá sem segjast ætla að taka mark á niðurstöðum Þjóðfundarins á dögunum og vilja setja stjórnarskrártillögu Stjórnlagaþingsins beint í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það fer enda best á því að halda Alþingi utan við þetta að svo miklu leyti sem hægt er, Alþingi hefur dæmt sig úr leik fyrir löngu síðan.

En ég verð að segja að ég er ekki yfir mig hrifinn af frammistöðu fjölmiðla í kynningu og umfjöllun. Páll Skúlason fyrrum háskólarektor hafði ítrekað bent á nauðsyn þess að gerðir yrðu nokkrir sjónvarpsþættir um stjórnarskrármál yfirleitt – að farið yrði yfir stjórnarskrár annarra landa og að rakið yrði fyrir fólki út á hvað slík plögg gætu gengið. Því miður var ekki farið að þeim ábendingum og það kann að vera skýringin á því að ýmsir frambjóðenda eru að tiltaka alls konar sérhagsmuni og persónuleg áhugamál sem tæplega eiga heima í stjórnarskránni, grundvelli stjórnskipunar þjóðarinnar, heldur miklu frekar í lögum eða reglugerðum.

Og svo er bara að vona að fólk kjósi sér gáfaðra og klárara fólk sem skilar okkur góðri og göfugri stjórnarskrá.


Búrkur á Íslandi?

Fjölskyldumyndataka í ArabíuÞað er ekki endilega rétt hjá Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur alþingismanni að notkun búrku og kúgun kvenna sé einn og sami hluturinn. Margar konur sem nota búrku, eða slæður af ýmsu tagi til að hylja andlit sitt, kjósa sjálfar að gera það og hafna því alfarið að þær geri það nauðugar.

Sumar múslimskar konur telja einfaldlega að slíkur klæðnaður veiti þeim skjól fyrir áreiti umhverfisins og áskilja sér rétt til að ákveða sjálfar hvernig þær klæðist. Margar aðrar múslimskar konur hafna búrkunni og vilja ekkert af henni vita. Það er sömuleiðis þeirra ákvörðun.

Það er útbreiddur misskilningur að það hafi verið Talibanarnir í Afganistan sem fundu upp búrkuna til að kúga konur sínar enn frekar. Búrkur hafa verið notaðar í Afganistan, og fleiri löndum reyndar, um margra alda skeið. Það er hins vegar rétt að Talibanarnir gerðu þá kröfu að allar konur klæddust búrku – og það var sennilega ekki til að auka á jafnrétti kynjanna þar í landi.

Það er aftur á móti rétt hjá Þorgerði Katrínu að búrkur samræmast illa íslenskri hefð. En að gera kröfu um að konur af einum trúflokki megi ekki klæða sig eins og þeim sýnist er trauðla lausnin á þeim 'vanda' sem ÞKG telur sig hafa greint. En sennilega geta margir tekið undir með Jack Straw, fyrrum utanríkisráðherra Breta, sem sagðist kunna því illa að geta ekki horft framan í fólk sem hann væri að tala við.


Unnur og Björk í Kína

LILONGWE, MALAVÍ: Hitti hér í gærkvöld írskan diplómat sem er nýkominn hingað frá Kína eftir fjögurra ára dvöl. Honum líkaði vel þar austur frá, raunar svo vel að hann kom með kínverska konu heim með sér og ungan son sem nú búa í þorpi á Írlandi.

Hann fór mörgum fögrum orðum um frammistöðu Íslendinga á heimssýningunni í Shanghai, sagði básinn hafa verið með þeim vinsælustu og að íslenska starfsfólkið þar hefði verið sérlega hugmyndaríkt og duglegt. Og hann átti ekki orð yfir fegurð Unnar Vilhjálmsdóttur heimsfegurðardrottningar sem þar vann í nokkrar vikur.

- Hún var..., sagði hann, andvarpaði svo og sagði ekki meira um það.

Þá barst talið að músík og þá nefndi hann tónleika sem Björk Guðmundsdóttir hélt í Beijing þar sem hún endaði með því að hrópa Frjálst Tíbet!

- Það hafði vondar afleiðingar, sagði diplómatinn. - Þessi uppákoma stöðvaði nánast alveg tónleikahald vestrænna hljómsveita í Kína. Og ekki nóg með það, kínverska umboðsfyrirtækið fór á hausinn í beinu framhaldi af þessum tónleikum og tónleikahaldarinn lenti í verstu málum.

Sem ítrekar hið fornkveðna: When in Rome...


Lært af hvíta manninum

Gamli bóndinn í MwanzaLILONGWE, MALAVÍ: Það hefur komið ánægjulega á óvart að sjá hversu vel Malaví virðist standa þessa stundina miðað við ástandið þegar ég kom hér síðast fyrir einum 12-13 árum. Þá blasti við manni örvæntingarfull fátækt hvar sem litið var – nú er nægur matur fyrir alla, fjölmargir að byggja sér ný hús og víða byggingavörumarkaðir meðfram þjóðvegum. Vegakerfið hefur verið stórbætt, bílum fjölgað og væntanleg millistétt ferðast um á reiðhjólum sem er stundum merki um vaxandi velsæld. Fólk virðist stíga léttar til jarðar.

Þeir eru enda sagðir vinnusamir, Malavímenn, og eru reiðubúnir að leggja talsvert á sig til að sjá fyrir sér og sínum. Hitti blindan, áttræðan mann í gær sem hefur misst tíu af tólf börnum sínum en var samt harla ánægður með lífshlaupið.

- Ég vann mikið, búskapurinn gekk vel og gat hjálpað nágrönnum mínum, sagði hann. - Börnin mín sem komust til fullorðinsára voru dugleg. Ég er ánægður með það.

Stórar myndir af Bingu wa Mutharika forseta áberandi hvar sem farið er. Hann hefur staðið sig að mörgu leyti ágætlega og hlaut dúndrandi endurkosningu í maí í fyrra. Hann er þegar farinn að hugsa til næstu kosninga þótt hann megi ekki bjóða sig fram aftur – en nú fer hann um landið og hvetur fólk til að styðja yngri bróður sinn, Peter.

Varaforsetinn, frú Joyce Banda, sem er ágætlega menntuð og reynd kona, hafði áður látið í það skína að hún myndi gjarnan vera í framboði. Það hefur ekki mælst vel fyrir í forsetahöllinni, síður en svo. Nú er hún í ónáð forsetans og hans manna og fær hvergi að hafa sig í frammi. Bingu forseti líkti forsetaembættinu við reiðhjól á blaðamannafundi hér í Lilongwe fyrr í vikunni og sagði að aðeins einn maður gæti stýrt hjólinu, varaforsetinn sæti bara á bögglaberanum. Það verður fróðlegt að fylgjast með pólitíkinni hér fram að kosningunum 2013.

Á meðan ferðast Bingu um heiminn, tók m.a. þátt í G-20 fundinum í Kóreu á dögunum. Þingi var frestað þegar hann kom heim svo þingmenn meirihlutans gætu farið út á flugvöll og fagnað foringja sínum. Í fyrramálið er hann sagður á leið til Botswana: vikapiltur hér á gistihúsinu sagði að það gæti farið svo að ég yrði vakinn um fjögurleytið í nótt, því þá væri forsetinn á leið út á flugvöll og það gæti orðið einhver hávaði af bílalestinni sem jafnan fylgdi honum.

- Af hverju eruð þið með svona vesen þótt forsetinn sé að fara í flug? spurði ég.

Hann skellti á lær sér og hló hátt: - Eeeeh, þið hvítu mennirnir kennduð okkur þetta!


Réttlæti götunnar í Mangochi

Fanginn i Mangochi.jpgMANGOCHI, MALAVÍ: Í þessum bæ við suðurenda Malaví-vatns, þar sem alla jafna ber fátt til tíðinda, varð uppi fótur og fit undir hádegið þegar stór hópur fólks með æpandi krakka í fararbroddi kom skálmandi eftir aðalgötunni. Í miðjum hópnum var ungur maður sem hafði verið bundinn á höndum með tágum. Sumir í hópnum slógu til hans eða spörkuðu.

- Sennilega þjófur, sagði maður sem ég var að spjalla við. – Það er verið að fara með hann á lögreglustöðina.

Lögreglustöðin var í næsta húsi og þar sátu tveir lögreglumenn á tröppunum í makindum, reyktu sígarettur og biðu eftir því að þeim væri færður fanginn.

Á meðan hersingin nálgaðist fengust frekari fréttir af meintu afbroti. Fanginn var sagður hafa lent í slagsmálum við nágranna sinn og lagt til hans með skærum. Granninn var kominn á sjúkrahúsið.

Þetta er algengur aðgangur þegar brotamenn eiga í hlut, var mér sagt. Borgararnir taka manninn og færa hann í hendur yfirvalda. Brotamaðurinn sem hafði verið bundinn með tágum var ekki upplitsdjarfur enda lentur í vondum málum. Ef granninn skyldi deyja af völdum skæraárásarinnar verður hann umsvifalaust dæmdur til dauða.

- Dauðarefsingum er ekki framfylgt í Malaví lengur, sagði ferðafélagi minn, - en margir dauðadæmdir menn deyja engu að síður í fangelsum. Meðferðin er vond og þeir fá litla aðstoð, jafnvel þótt þeir verði alvarlega veikir.

Svo nam hersingin staðar fyrir framan lögreglustöðina. Þar tók einn úr borgaralöggunni til máls, útskýrði hvert erindið væri – og hinn handtekni gekk rakleiðis inn. Annar lögreglumannanna spurði hópinn nokkurra spurninga og plokkaði út eina þrjá sem voru einnig kallaðir inn, sjálfsagt til að gefa skýrslur.

Og þar með var því lokið. Lítill hópur beið fyrir utan í tíu mínútur eða svo – en eftir það fóru allir heim.

Sjálfum var mér nokkuð brugðið við þetta – en hef þó séð ákafari hópa grípa meinta brotamenn í Afríku. Yfirleitt eru þeir barðir í klessu áður en lögreglan er kölluð til. Í einu blaðanna hér í dag var mynd af einum slíkum sem hafði verið gripinn fyrir að reyna að stela bíl og lá í blóði sínu í rykinu. Ekki fylgdi sögunni hvort hann lifði göturéttlætið af.


Samban er horfin úr loftinu

MAPUTO, MÓSAMBÍK: Þegar ég kom hér síðast fyrir rúmum áratug var grimmilegri borgarastyrjöld nýlokið. Mér fannst þá vera bjartsýni ríkjandi – eins og væri samba í loftinu. Það er ekki eins í dag – en það ber að hafa í huga að ég hef aðeins verið hér í nokkra daga og er á förum aftur.

Tilfinningin sem maður fær nú af því að fara hér um götur og torg og tala við fólk er miklu frekar sú að fólk sé orðið þreytt á að bíða eftir betra lífinu sem það reiknaði með eftir að stríðinu lauk. Þótt það hafi óneitanlega orðið miklar framfarir í Mósambík á þessum tíma er enn margt í skralli.

Þeir voru enda óheppnari en margir aðrir með nýlenduherra: Portúgalar voru sennilega verstu nýlenduherrar sögunnar, næst á eftir Belgum. Þegar portúgalarnir fóru héðan í kjölfar byltingarinnar í Portúgal 1975 létu þeir sér sæma að brenna verksmiðjur sínar og byggingar eða sprengja allt draslið í loft upp.

Það besta hér er náttúrlega að hér ríkir pólitískur stöðugleiki, Frelimo og Renamo sem börðust í borgarastyrjöldinni (Frelimo vann stríð og allar kosningar síðan) eru nú venjulegir stjórnmálaflokkar, hættir að beita byssum.

Marxisminn, sem rekinn var hér í upphafi, er nú á bak og burt – en maður þarf ekki að tala við marga til að heyra að opinberar framkvæmdir beri keim af stórum sýningarverkefnum sem kosti mikið en skili litlu í hlut samfélagsins. Á næsta ári ætla Kínverjar (jú, auðvitað eru þeir hér líka) að byggja mikla brú á milli höfuðborgarinnar og eyjarinnar Catembe sem liggur hér rétt fyrir utan: maður sagði mér í morgun að brúin myndi sennilega kosta tvö þúsund milljón dollara. Í fljótu bragði sér maður ekki að þetta sé alveg bráðnauðsynlegt, ég fór sjálfur með ferju út í þessa eyju í gær og var fljótur að því. En þar á sjálfsagt að byggja lúxushótel í þeirri von að ferðamenn komi með peninga inn í hagkerfið.

Og ekki veitir af, náttúruhamfarir hér á síðustu árum hafa kostað mikið og eyðilagt mikið af þeirri þróunarvinnu sem unnin hefur verið.

Í næstu viku verður það svo Malaví, eitthvert fátækasta og aumasta land heims.


Hádegisverður á Happiness

FARAFENNI, GAMBÍU: Þetta er hálfgert eymdarpláss, um það bil í miðju landinu, og ekki að sjá að mikið sé að gerast. Karlar sitja undir trjám í hitanum við aðalgötuna og ræða málin, konurnar stika um með börnin. Götur og götuhorn hér, og víðar þar sem við höfum farið um, eru fullar af búfénaði, einkum sauðfé og kúm, enda er fórnarhátíð múslima, Eid al-Adha, framundan og þá þurfa allir að hafa eignast nýtt kjöt til að borða og deila með öðrum.

Bílstjórinn keypti myndarlegan hrút á fæti til að fara með til borgarinnar. Í bílnum? spurði ég, varla búinn að ná mér eftir geiturnar og asnana sem héldu hávaðasamt partí fyrir utan gluggann minn á gistihúsinu í nótt. Nei, hann ætlaði að fá vin sinn til að koma skepnunni til sín eftir helgina. Það verður heimaslátrun, sagði hann og skildi ekki alveg hvers vegna mér datt í hug eitthvað annað.

Við fengum að borða á veitingastaðnum Happiness. Hrísgrjón og seigar kjöttægjur. Ágætlega bragðgott. Ráðskonan er hávær og glaðvær og hikaði ekki við að pota í belginn á mér (sem hér er vitaskuld höfðingjamerki, eða þannig túlka ég það).

Tveir hvítir menn voru við næsta borð, annar sofandi. Ég tók hinn tali og þá kom í ljós að þeir eru spánskir næringarfræðingar sem eru að vinna enn innar í landinu (Spánverjar eru farnir að láta sjá sig í Vestur-Afríku til að reyna að sporna við stöðugum straumi flóttamanna úr þessum heimshluta sem margir enda í spánsku fóstri á Kanaríeyjum). Bíllinn þeirra hafði bilað og nú var beðið eftir viðgerðarmanni. Sú bið hafði þegar tekið tvo daga. Ég sagist vera Íslendingur á stuttri yfirreið.

Þá reisti sig upp sá sem hafði sofið sagði forviða: Ertu Íslendingur?

Já, en þú?

Nei, sagði hann á lýtalausri íslensku, ég er Spánverji en ég las mannfræði við Háskóla Íslands eitt ár. Svo fór ég í hjúkrun og er búinn að vera hér í mánuð. Ég heiti Vilhjálmur.

Þetta var náttúrlega ekki alveg ónýtt fyrir mig, mannfræðinemann, og við áttum ágætt tal...sem auðvitað fór allt of fljótt út í kreppuna á Íslandi. Þá var kominn tími til að haska sér, maður þarf ekki að fara alla leið til Gambíu til að tala um andskotans kreppuna. 

 


Barnaníðingar og lækning á eyðni

BANJUL, GAMBÍU: Stjórnvöld hér hafa vaxandi áhyggjur af því að hingað komi kynlífsbrjálaðir ferðamenn í þeim tilgangi að níðast á smákrökkum. Á hótelum liggja frammi bæklingar um þetta efni með áskorunum um að liggja ekki á vitneskju sinni um slíka hluti.

Barnaníðingarnir eru ekki áberandi á götum úti en þeim mun meira er um sjúskaða, hvíta miðaldra karla sem hafa krækt sér í spengilegar og íturvaxnar ungar gambískar konur. Á túristasvæðum sér maður slík pör ganga um hönd í hönd, rétt eins og var svo áberandi í Bangkok þegar við bjuggum þar.

Jafnhliða þessum iðnaði fjölgar stöðugt HIV-smitum hér í þessu litla landi þar sem þrír af hverjum fjórum eru múslimar. Almenn eru HIV-smit yfirleitt færri í löndum Islam en í dag sagði mér ungur maður að það væru nærri 50 þúsund HIV-smitaðir í landinu – íbúar hér eru 1.4 milljónir tæpar. Það er býsna hátt hlutfall.

En hér er glaðlegt fólk og vingjarnlegt í samræmi við orðspor Vestur-Afríku. Það manni með kostum og kynjum og vill allt fyrir mann gera. Ég ætla út um sveitir hér næstu 2-3 daga; þá fyrst hefur maður komið til lands að maður hefur farið um sveitir og séð hvernig venjulegt fólk lifir sínu lífi. Borgir eru alls staðar svipaðar.

Og hvar sem maður fer um höfuðborgina blasa við stórar myndir af forsetanum, Yahya Jammeh sem rændi völdum 1994 en hefur síðan sigrað þrisvar í umdeildum kosningum og hefur heldur slæmt orð á sér þegar kemur að mannréttindum og slíkum málum. Hann ber marga titla og flaggar þeim öllum. Annar ungur maður sagði mér, í fúlustu alvöru, að forsetinn væri að vinna að því að breyta Gambíu í konungdæmi svo hann gæti verið kóngur til æviloka. Þá geta verið kóngafréttir í ríkissjónvarpinu hér, ekki bara endalausar fréttir af forsetanum.

Hann vakti nokkra athygli á alþjóðavettvangi 2007 þegar hann sagðist hafa uppgötvað aðferð til að lækna eyðni – sem væri gott í þessu landi, eins og rakið var að ofan. Lækningaaðferð forsetans byggist á grænni kryddstöppu, beiskum gulum vökva og bananaáti. Hann fullyrðir að þetta meðal skotvirki.

Fulltrúi þróunarstofnunar SÞ, sem lýsti efasemdum sínum um gagnsemi kássunnar og taldi hana jafnvel geta ýtt undir óábyrga kynhegðun, var umsvifalaust rekin úr landi.

Það er því best að segja ekki meira í bili.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband