Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010

Deilurnar að baki

Ég hef verið í Blaðamannafélagi Íslands í fjörutíu ár og þykir vænt um það félag. Það hefur reynst mér vel. Það fór því illa í mig þegar harkalegar deilur um keisarans skegg innan stjórnar félagsins rötuðu í fjölmiðla. Framboð slíkra frétta var að vonum mun meira en eftirspurn.

Svo var haldinn aðalfundur þessa félags í gærkvöld og fór eins vel og hægt var að búast við. Nú mega félagsmenn eiga von á að deilurnar séu að baki og að ný félagsstjórn dragi lærdóm af reynslunni.

Það versta sem fylgdi þessum deilum voru órökstuddar dylgjur um að eitthvað væri gruggugt við bókhald og fjármál félagsins. Á fundinum í gærkvöld kom ekkert það fram sem bendir til að svo sé, þvert á móti.

Ég ætla því að halda því fram hér og nú að leitun sé að verkalýðsfélagi af stærð BÍ sem stendur jafn vel og hefur farið jafn vel út úr hruninu. Staðreyndin er nefnilega sú að með aðgætni í fjármálastjórn hefur Blaðamannafélagið ekki tapað einni einustu krónu á hruninu heldur hafa sjóðir þess eflst og vaxið. Geri aðrir betur.

Svo segi ég ekki meira um þetta.


Á pöllunum

Það er mikil hamingja fólgin í því að fá að syngja í góðum kór. Tónlistarmenntunin er eitt hamingjublómið, andlega upplyftingin annað, líkamlega útrásin það þriðja. Og svo að vera í félagsskap líkt hugsandi fólks sem kemur saman til að búa til músík.

Minn kór er Karlakór Reykjavíkur sem þessa vikuna syngur vorkonserta í Langholtskirkju fyrir fullu húsi. Þar stígur fram úr kórnum hver einsöngvarinn á fætur öðrum og syngur eins og engill fyrir framan áttatíu karla. Flestir þessara einsöngvara eru ungir menn og líta ekki út fyrir að vera meira en nýfermdir. En þeir syngja af slíkum náttúrutalent og gleði að maður er eiginlega hálfskælandi á pöllunum af hrifningu og aðdáun.

Góður karlakór er flott og magnað hljóðfæri þegar rétt er á það spilað. Og við í Karlakór Reykjavíkur erum svo lánsamir að hafa í tuttugu ár haft eldkláran og smekkvísan strák fyrir söngstjóra (sem líka sýnist varla nema um fermingu; það hlýtur að vera eitthvað í genunum úr Hólminum sem veldur þessu).

Það er í senn undarlegt og skemmtilegt, þegar komið er á pallana fyrir fullu húsi, að maður finnur á fyrstu sungnu hendingunum hvort kórinn er í góðu formi og hvort salurinn er góður. Þannig var það í kvöld og þá er dýrlegt að syngja. Þá er dýrlegt að vera hluti af áttatíu manna kór sem hefur aðeins eitt markmið á konsert: að láta söngstjórann spila á hljóðfærið eins og honum er einum lagið; með örlitlum höfuð- eða fingrahreyfingum plokkar hann út örlítið meiri bassa hér, aðeins meiri annan tenór þar, aðeins meiri styrk, örlítið minni...og þá verður kórinn, söngstjórinn og salurinn eitt og þetta fer úr því að vera bara músík og breytist í andlega reynslu.


Dírrin-dí

Nú er mér alveg sama um hitastigið, eldgos, pólitík og IceSave - vorið er komið. Til marks um það er lóur á grasblettinum fyrir utan gluggann minn.

Þau hafa verið hér undanfarin vor og sumur og ylja mér alltaf um hjartað.

Nú eru þau í hópi starra að næra sig. Karlinn sýnist að vísu hafa meiri áhuga á aksjón og flennir sig og glennir óspart við kerlinguna. Hún flýgur í burtu af og til...en kemur alltaf aftur. Þetta hlýtur að enda fallega.


'Alltaf' Kötlugos á eftir Eyjafjallajökli? Óekkí.

Ekki er ég sérfræðingur í eldgosum, ég er eins og flestir aðrir: mér finnst eldgos spennandi og tignarleg ef þau eru fjarri byggð og valda ekki mannfólkinu vandræðum.

Og eins og margir aðrir hef ég heyrt jarðvísindamenn segja að það sé nánast regla að það gjósi í Kötlu í framhaldi af gosi í Eyjafjallajökli. Þetta sama var forseti vor á Bessastöðum að segja.

En í kvöld hitti ég jarðvísindamann sem sagði að þetta væri ekki alls kostar rétt. Frá landnámi hefur Katla nefnilega gosið 22 sinnum, Eyjafjallajökull bara tvisvar. Og í bæði þau skipti fór að gjósa í Kötlu í framhaldinu. Ekki man ég ártölin nógu vel til að fara með þau - en veit að Katla gaus 1918. Pabbi sagði mér það og hann var vitni. 

Sem sagt: Katla 22, Eyjafjallajökull 2. 


Óhamingja Sjálfstæðisflokksins

Þau í Hreyfingunni hafa rétt fyrir sér: þeir sem voru við völd í Hruninu og aðdraganda þess verða að víkja.

Það verður þó ekki einfalt: hver á að taka við? Sjálfstæðisflokkurinn? Framsókn? Varla, þeir flokkar eiga að vera í löööngu fríi.

Til að byrja með þurfa því allir þeir að víkja sem ekki eru hafnir yfir allar grunsemdir um dómgreindarleysi, aðgerðarleysi, leti eða svínarí. Innan þings og utan. Þetta fólk er allt nefnt í Skýrslunni góðu. 

Við blasir meiriháttar uppstokkun í pólitíkinni hér sem mun sennilega taka langan tíma. Stjórnmálastéttin er rúin trausti. Þetta er eins og í Sovét forðum: kerfið hefur rotnað innan frá og étið sig upp. Að draga sig í hlé "um stundarsakir," eins og Þorgerður, Illugi og Björgvin gera, dugar því ekki þótt virðingarvert sé (ekki síst í tilviki Björgvins).

Og svo er eins og hjá sumum flokkum verði óhamingjunni allt að vopni. Er það til dæmis besta útkoman fyrir Sjálfstæðisflokkinn að í stað Þorgerðar setjist á þing sjálfur holdgervingur fjölmiðlaþjónkunarinnar við bankana og bíssnissinn? 

Varla. 

En það verður þó að segja fjölmiðlunum hér til hróss að þeir hafa frá hruninu starfað með þeim hætti (misjafnlega vel náttúrlega) að fátt í Skýrslunni góðu kemur alveg á óvart. Stóru drættirnir voru búnir að koma fram - í fjölmiðlum. 


Banki á hausinn án vitneskju Seðlabankans!?

Andskoti brá mér í kvöld þegar Már Guðmundsson Seðlabankastjóri sagði í sjónvarpsfréttum að það gæti vel gerst að íslenskur banki færi á hausinn án þess að hann vissi af því. Lagaumhverfið væri slíkt (þ.e. óbreytt frá 'gullöldinni') og Seðlabankinn væri ekki í þeirri stöðu að geta krafið viðskiptabankana um nauðsynlegar upplýsingar.

En að banki fari á hausinn án þess að Seðlabankinn viti af því?

Augnablik, augnablik!

Var það ekki einmitt þetta sýstem sem setti allt hér á annan endann? Af Skýrslunni miklu verður ekki annað ráðið en að fyrri Seðlabankastjórar hafi haft alveg þokkalega hugmynd um hvað var að gerast í bönkunum (þótt það hafi sennilegaekki breytt miklu um úrslit mála).

Ókei, það er ekki langt frá hruni og í mörg horn að líta í efnahagsmálum, en hlýtur ekki að vera býsna framarlega í forgangsröðinni að gera Seðlabankann sæmilega starfhæfan?

Eða var Már að spauga?

Æjæjæ, ég er ekki viss um að ég þoli mikið af svona gríni.


Þetta hefði Vigdís ekki gert

Áður fyrr var ég oft stoltur af því að vera Íslendingur. Í dag er ég sosum ekkert að fyrirverða mig fyrir það en...ja, það eru breyttir tímar.

Og aldrei var ég eins ánægður með þjóðerni mitt og á Lýðveldisafmælinu á Þingvöllum 1994 þegar Vigdís Finnbogadóttir steig í pontu og ávarpaði þjóð sína. Það var falleg stund og eftirminnileg.

Nú er Vigdís allt í einu orðin áttræð, sem verður að teljast nokkuð hár aldur. En hún er jafn klassí og ævinlega.

Aldrei hefði Vigdís brugðist við ákúrum í opinberri skýrslu á sama hátt og eftirmaður hennar gerir nú. 


Hreinn, er ekki í lagi með þig?

Á dögunum hellti ég mér yfir ritstjóra Vikunnar sem var dæmdur fyrir það sem ég kallaði fúsk. Ekki stendur til að endurskoða þá afstöðu mína - en nú er kominn upp á því máli annar flötur sem nær engri átt.

Það virðist sem sé vera - ef marka má fréttir (til dæmis hér http://www.dv.is/leidari/2010/4/9/domsmord-bladamanni) - að ritstjórinn eigi að sitja persónulega uppi með sektina, en ekki útgefandi blaðsins, sem væri þó hið eðlilega og lengst af hefur tíðkast. Augljóslega er það stór biti að kyngja fyrir blaðamann á þeim láglaunum sem almennt eru í stéttinni að borga árslaunin sín í sekt.

En til hvers eru útgefendur ef þeir ekki standa með sínu fólki? Hvernig verður sú hugsun til í kolli útgefandans - sem í þessu tilviki er Hreinn Loftsson lögmaður í Birtingi - að sekt sem fellur á fjölmiðil í hans eigu komi honum ekki við? Er þetta ekki einhverskonar bankaglæfrahugsun á-la 2007: ég hirði gróðann en læt mig tapið engu varða og því síður fólkið sem vinnur hjá mér og gerir sitt besta?

Þetta er augljóslega feilhugsun hjá útgefandanum og siðrof af vondri sort. Nei, annars, þetta jaðrar við að vera glæpsamlegt!



Fréttamannaverðlaun dagsins

Fréttamannaverðlaun dagsins fær Helga Arnardóttir á Stöð 2 fyrir viðtal sitt við Jónas Fr. Jónsson í kvöld. 

Jónas hefur greinilega farið í fjölmiðlaþjálfun hjá einhverjum og ætlaði að nota sömu aðferð og hann beitti í fréttaskýringarþætti RÚV í gærkvöld - tala bara nógu andskoti mikið og hleypa engum spurningum að - en Helga lét hann ekki komast upp með neitt múður og gaf ekkert eftir.

Svei mér þá, ef hún minnti ekki á breska fréttamanninn Jeremy Paxman sem einhverju sinni bar upp sömu spurninguna fjórtán sinnum í beit - en fékk aldrei svar. 

Helga fékk hins vegar svarið sem hún vildi fá og við hin áttum skilið.

Nú er bara til eitt ráð handa Jónasi: ekki tala meira.


Skítapakk og moððerfökkers

Maður verður að vona að það komi ekki margir svona dagar. Búinn að vera að lesa, hlusta og horfa síðan snemma í morgun og er orðinn hálfdofinn yfir öllu saman.

En niðurstaðan af þessari prýðilegu skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis hlýtur að vera einhvern veginn svona:

Bankarnir: þjófar, skítapakk og moððerfökkers

Ríkisvaldið: rolur á róandi

Stjórnkerfið: ekki benda á mig...

Eftirlitsbransinn: druslur í jakkafötum

Fjölmiðlarnir: rassasleikjur og grúpís

En svo verður að hrósa fjölmiðlunum í dag fyrir góða umfjöllun - og óska DV til hamingju með að hafa verið með fæstar 'jákvæðar' fréttir af ballinu. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband