Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2011

Gítarhetjan stígur loks á svið

 gitarhetjan_vi_taj_mahal.jpgÞað er magnaður tónlistarviðburður í uppsiglingu: gítarhetjan Björgvin Gíslason ætlar að fagna sextugsafmæli sínu um helgina með tónleikum á Akureyri og í Reykjavík og senda frá sér um leið þrefalt afmælisalbúm með sólóplötum sínum í nýjum búningi.

Björgvin hefur allt of lítið spilað opinberlega á undanförnum árum – að minnsta kosti svo að þess sé getið. Ég hef lengi vitað að hann er mestur allra íslenskra gítarista fyrr og síðar og þeim mun meiri ástæða er til að gleðjast yfir væntanlegum konsertum og afmælisútgáfunni. Hann hefur verið tregur til að spila enda þungt haldinn af veiðidellu – og önnum kafinn við að kenna öðrum gítartöfrana.

Við vorum saman í Indlandi í fyrrasumar og duttum inn í hljóðfæraverslun. Þar sat ungur maður í kyrtli og spilaði á sítar. Björgvin gerði sér lítið fyrir, tók annan sítar sem þar var uppá vegg og upphófst eitthvert dýrlegasta sítardjamm sem ég hef orðið vitni að. Indverjinn sagði fátt – en alltaf breikkaði á honum brosið eftir því sem á spilamennskuna leið og mátti loks ekki á milli sjá hvor þeirra var heilagri. Myndin hér að ofan var tekin við Taj Mahal í þessari sömu ferð.

Það verða engir aukvisar með gítarkónginum á konsertunum um helgina: krónprinsinn Guðmundur Pétursson á gítar, Ásgeir Óskarsson á trommur, Haraldur Þorsteinsson á bassa, Jón Ólafsson á píanó og Hjörleifur Valsson á fiðlu. Björn Jörundur þenur raddböndin – og einhverjir fleiri munu koma fram.

Annars er allt um þetta á heimasíðu afmælisdrengsins sjálfs: www.bjorgvingislason.com


Burt með þetta fólk!

Maður verður að vona að ekkert gruggugt hafi verið að baki þeirri ákvörðun að gera óuppsegjanlegan húsaleigusamning fyrir landlæknisembættið. Ég skil raunar ekki hvernig svoleiðis má gerast – en maður skilur ekki allt.

Ekki gengur mér betur að skilja hvernig fulltrúar sveitarfélaga geta glaðir skrifað undir samning um stórhækkuð útgjöld og kostnað – án þess að hafa minnstu hugmynd um hvaða skuldbindingar þeir eru að leggja á okkur hin. Hér er vísað til nýs kjarasamnings leikskólakennara (sem virtust hafa sovéskt fylgi við kröfur sínar).

Nú viðurkenna launanefndarmenn sveitarfélaganna að þeir hafi ekki grænan grun um hvað samningurinn muni kosta.

Hvaða aulagangur er þetta eiginlega? Hvernig dirfist þetta lið að gera samninga án þess að vita hvað verið er að skrifa undir? Þetta eru okkar peningar – peningar venjulegs fólks sem nú sleppur ekki inn í matvöruverslun fyrir minna en tíu þúsund kall!

Voru ekki samningar við leikskólakennara búnir að vera lausir í marga mánuði? Hvað getur verið svona erfitt við að láta reikna út hvað hvert prósentustig þýðir í launakostnaði? Var kannski ekki tími til þess?

Þetta tekur náttúrlega engu tali. Burt með þetta fólk!


Sérhagsmunafréttir

Fréttastofa RÚV sagði frá því í kvöld að bílaverkstæði væru að segja upp samningum sínum við tryggingafélögin – vegna þess að þau borguðu ekki nóg fyrir tjónaskoðanir.

Þar með small síðasta púslið í spil sem hefur verið í gangi undanfarna daga. Það hófst með sjónvarpsviðtali við sérfræðing tryggingafélaganna um að allt of mikið væri um að fúskarar gerðu við bíla. Það stefndi öryggi vegfarenda í hættu.

Þetta hefur svo verið endurtekið í fréttum hér og þar – og mig var farið að gruna að hér væri í gangi PR „átak“ einhverrar almannatengslastofunnar sem ynni fyrir bílaviðgerðarmenn.

Það kom enda á daginn í kvöld: tilgangur „átaksins“ var sem sé að knýja tryggingafélögin til að borga meira – og um leið að fá að hækka taxta bílaverkstæða um 20 prósent, allt í nafni umferðaröryggis. Varla yrði það til að minnka biðraðirnar hjá meintum bílaviðgerðafúskurum...

En þetta sýnir enn og aftur að flestar fréttir af þessu tagi verða til vegna þess að einhver á hagsmuna að gæta.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband