Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2012

Rétt fólk á réttum stað

Það eru góðar fréttir að ríkisstjórnin hafi ráðið sér þaulvanan blaðamann í embætti blaðafulltrúa – mann sem skilur hlutverk fjölmiðla og skilur hvaða upplýsingar það eru sem fjölmiðlar þurfa á að halda til að sinna hlutverki sínu. Ég held endilega að Jóhann Hauksson sé slíkur maður.

Það skiptir miklu máli að það séu reyndir menn sem ráðast í svona starf: menn sem átta sig á því að þeirra hlutverk er að afla upplýsinga og koma þeim á framfæri og að aðstoða þá sem leita upplýsinga af hálfu fjölmiðla við að komast á leiðarenda – en ekki að þvælast fyrir og líta á sig sem  varðhunda ráðherra flokksins sem báðir koma úr. Það eru dæmi um svoleiðis í kerfinu bæði fyrr og síðar.

Utanríkisráðuneytið hefur haft úrvals manneskju á að skipa undanfarin ár, Urði Gunnarsdóttur, sem nýtur óskoraðrar virðingar meðal þeirra erlendu blaðamanna sem hingað leita eða þurfa á upplýsingum að halda. Ég þekki minna til innlendu miðlanna nú orðið en þykist vita að þar séu svipuð viðhorf á lofti. Urður áttar sig nefnilega á því í hvers þágu hún vinnur: upplýsingarinnar. Ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að Jóhann Hauksson skilji sitt hlutverk á sama hátt.

En meira máli skiptir þó að ríkisstjórnin skilji málið og geri Jóhanni kleift að sinna sínu hlutverki – og veiti honum þann aðgang og þann trúnað sem hann þarf til að vinna vinnuna sína. Það væri ekki aðeins í þágu þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr heldur einnig, og það skiptir vitaskuld mestu máli, í þágu lýðræðislegrar umræðu. Ekki veitir af.


Löngu komið nóg

Ef ég væri á Feisbúkk myndi ég stofna þar síðu til að hvetja forseta lýðveldisins til að skynja sinn vitjunartíma og segja frá því skýrt og skorinort að hann ætli ekki að gefa kost á sér til áframhaldandi setu í embætti.

Það er löngu komið nóg.

En ég er ekki á Feisbúkk og kann ekki að búa til svona síður annars staðar. Kannski tekur einhver af mér ómakið.

 


Munurinnn á réttu og röngu

Sjálfselska og tilætlunarsemi eru hvimleið fyrirbæri. Af hvoru tveggja er þó nóg í henni veröld, ekki síst hér á landi, hefur mér þótt. Orgið yfir snjónum í Reykjavík undanfarna daga er dæmi um það eilífa og ósanngjarna sífur sem einkennir daglega umræðu. Það er nefnilega rétt sem borgarstjórinn sagði: Við búum á Íslandi.

Mér fannst afstaða ungs (og oft skemmtilegs) útvarpsmanns kristalla þennan hugsunarhátt. Samstarfskona hans (sem er líka oft skemmtileg) féll í öngvit í miðri útvarpsútsendingu, hugsanlega vegna ofþreytu. Þá lætur pilturinn hafa eftir sér að hann hefði ítrekað hvatt stúlkuna til að "taka veikindadagana" sína.

Aðstandendur útvarpsmannsins ættu nú að taka hann á hné sér og útskýra fyrir honum muninn á réttu og röngu. Það ætti að segja honum að "veikindadagarnir" séu réttindi sem samtökum launafólks tókst að ná fram með mikilli fyrirhöfn. Þeir voru hugsaðir til þess að tryggja að fólk gæti fengið flensuskot án þess að missa laun. Þeir voru ekki hugsaðir til þess að „taka“ þá til að hvíla sig eða að fara út úr bænum. Enginn "á veikindadaga." Þeir eru ekki aukafrí á fullu kaupi heldur nauðvörn.


Ofsagróði Mugisonar

Það er verið að hafa eftir Viðskiptablaðinu að Mugison hafi grætt ríflega 22 milljónir á nýjustu plötunni sinni. Þetta getur ekki passað.

Án þess að ég þekki persónulega til Mugisonar eða hans mála þá þykist ég vita að hann hafi varið drjúgum hluta síðasta árs til að semja efnið og fínpússa, æfa það með öðrum, taka upp og spila konserta til að slípa enn betur. Það hefur sennilega að mestu verið gert án þess að greiðsla kæmi fyrir.

Hann gæti hafa haft 22 milljónir í tekjur af plötunni – en þá á eftir að reikna honum laun fyrir tónsmíðar, æfingar og upptökur, kostnað við upptökur, laun til samstarfsmanna og svo framvegis og svo framvegis.

Ætli bróðurparturinn af sölutekjunum hafi ekki farið til að borga alla þessa vinnu?

En vonandi hefur hann haft gott kaup þegar upp var staðið, hann á það skilið.


Gefa skít í mannasiði

Það er óneitanlega svekkjandi hvað margir eru ófúsir eða ófærir um að taka til í sínum ranni eftir hrunið. Maður kemst bara að einni niðurstöðu: til er fólk og stofnanir sem ætla ekki að láta sér segjast.

Matvælastofnun er dæmi þar um. Stofnunin vissi að verið var að dreifa eitruðum áburði á tún sem búfénaður nærist á. Samt var álitið of mikið vesen að stöðva dreifinguna (þótt annað fyrirtæki hefði áður verið stöðvað fyrir sömu sakir; kannski var það ekki í eigu "réttra" aðila) og nú þykjast forráðamenn stofnunarinnar ekki mega veita upplýsingar um mælingar á eiturmagni í áburði sem endar í mjólk og kjöti. Þetta er eftirlitsstofnun sem á að gæta þess að farið sé að lögum og reglum, til þess var hún sett á stofn.

Það kann að vera rétt hjá Ólínu Þorvarðardóttur að það þurfi að setja skýrari reglur en mig grunar þó að svarið sé einfaldara: að það þurfi einfaldlega að fylgja reglum - að stofnunin eigi einfaldlega að gera skyldu sína. Það eru mannasiðir, til þess eru þessir þjónar almennings ráðnir.

Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar er annað fyrirbæri sem gefur skít í mannasiði og ræður til sín mann sem er grunaður um fals og svik í tengslum við pappírsviðskipti í aðdraganda hrunsins. Opinberar stofnanir eiga ekki að ráða til sín fólk sem liggur undir grun, meðferð fjármuna almennings á einfaldlega að vera hafin yfir allan grun.

Þetta er ekki flóknara en svo.  


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband