Ást út yfir gröf og dauða

Skátafundur við Taj MahalAGRA, INDLANDI: Það fer ekkert á milli mála: Taj Mahal er fegursta bygging í heimi. Hún rís í sínu fullkomna persneska formi upp af bakka Jamuna-fljótsins, kyrrlát, virðuleg og tímalaus, minnismerki um ódauðlega ást og virðingu. Snilligáfa þeirra sem byggðu þetta undursamlega mannvirki er óvéfengjanleg. Þar fór fremstur persneski húsagerðarmeistarinn Ahmad Lahouri sem vann verkið fyrir stórfurstann (shah) Jahan til minningar um þriðju konu hans, Mumtaz Mahal, sem lést af barnsförum eftir fæðingu fjórtánda barns þeirra.

Furstinn var ekki mönnum sinnandi eftir lát Mumtaz og lét hefja byggingu grafhýsisins um ári eftir lát hennar 1631. Hann ætlaði svo að láta byggja samskonar grafhýsi fyrir sjálfan sig úr svörtum marmara til mótvægis við hvíta marmarann í Taj Mahal. Af því varð þó ekki: þegar búið var að leggja grunninn að nýju byggingunni á bökkum Jamuna setti sonur furstans hann af, enda þá búið að sóa og spenna auðæfum ríkisins svo lítið var eftir. Furstinn lifði út sína harmþrungnu ævidaga í rauða virkinu í Agra þaðan sem hann gat horft yfir grafhýsi konunnar sem hann elskaði svona mikið. Hann var grafinn með Mumtaz eftir dauða sinn.

Þetta var í þriðja sinn sem ég kom til þessa ótrúlega mannvirkis – og jafn hugfaginn sem áður. En það er ekki hægt að mæla með því að skoða Taj Mahal í hitanum eins og var þennan dag, 46 gráðum. Þá getur maður ekki hreyft sig nema eins og skjaldbaka og hálf einbeitingin fer í að standa uppréttur.

Og hér er ábending til þeirra sem vilja setja marmara í eldhúsið sitt (ef það skyldi ekki hafa verið gert í gróðærinu): einungis indverskur marmari dregur ekki í sig vökva og breytir því ekki um lit eða verður blettóttur þótt hellist á hann kaffi eða sósa. Enda er þetta óviðjafnanlega grafhýsi jafn hvítt í dag og það var fyrir nærri 400 árum.

Myndin var tekin í byrjun júní þegar við heimsóttum Agra á leið til Nepal og Tíbet. Kannski meira um það síðar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband