Útrýmingarstefna Páfagarðs

Það er ótrúlegt en satt: Benedikt páfi er enn meira afturhald og jafnvel enn hættulegri fátæku fólki en forveri hans, Jóhannes Páll.

Þar er langt til jafnað. Þótt Jóhannes Páll hafi verið ógnarvinsæll var blóðslóðin eftir hann rekjanleg um alla veröldina. Nú gengur Benedikt í fótspor hans og bannar fátækasta og fáfróðasta fólki heims að nota smokka: að verja sig og sína gegn alnæmi sem er að þurrka út heilu kynslóðirnar í Afríku og víðar. Hans ráð er að fólk eigi að hætta að gera hitt!

Páfinn er nú á ferðalagi um álfuna. Það er ekki mikil hætta á að honum verði sýnd þorpin og fátækrahverfin í borgum Afríku þar sem milljónir barna eru á vergangi eftir að foreldrar þeirra dóu úr alnæmi.

Ég hef komið á svona staði og séð afleiðingar útrýmingarstefnu Páfagarðs. Benedikt væri hollt að líta upp úr gullbryddaða skrúðanum sínum eitt augnablik og horfast í augu við raunveruleikann sem stofnun hans hefur átt hvað mestan þátt í að skapa og viðhalda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hér fellur þú í þá gryfju, Ómar, að dæma út frá kannski skiljanlegri vanþekkingu þinni . Skírlífi – bæði með kynlífsbindindi fyrir hjónaband og með hjúskapartryggð – er það, sem Benedikt páfi og Jóhannes Páll 2. hafa ráðlagt sínum trúuðu, og þetta er mjög örugg og áhrifarík vörn gegn HIV-smiti (þ.e. því, sem berst með kynmökum).

Kirkjan gefur einnig grænt ljós á notkun smokksins, þegar annað hjóna er með lífshættulegt kynsjúkdómasmit.

Fari kaþólskt, trúað fólk eftir ráðleggingum páfa í þessum efnum, þá er það vel.

Smokkurinn er hins vegar talinn af stofnun, sem fjallar um þessi má hjá Sameinuðu þjóðunum, einungis um 90% öruggur í reynd.

Þar við bætist, að smokkurinn eykur "öryggiskennd" ungs fólks gagnvart bæði barngetnaði og HIV-smiti, og þetta hefur þau áhrif að auka til muna lauslæti fyrir hjónaband og þar með fjölga mjög kynmökum. Þegar smokkurinn bregzt, er svo ekki á góðu von: stundum HIV-smiti og ósjaldan fósturdeyðingu. Ertu sáttur við þau aukaáhrif smokksins og þessa hugarfars?

Alnæmi er útbreitt í ýmsum Afríkulöndum, þar sem kaþólska kirkjan er afar fáliðuð, en í ýmsum löndum, s.s. Kongó, þar sem kaþólska kirkjan er jafnvel 50% íbúanna, er alnæmi jafnvel margfalt minna.

Ég blogga í dag um Moggagreinina á http://blogg.visir.is/jvj/

Jón Valur Jensson, 22.3.2009 kl. 15:41

2 Smámynd: Heidi Strand

 Hættulegur maður á ferð!!

Heidi Strand, 22.3.2009 kl. 16:02

3 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Ég tek heilshugar undir þín skrif Ómar.   Kaþólska kirkjan yfirhöfuð er sjúkt batterí.  Fólki þarf að fara að taka völdin frá þessum sjálfskipuðu siðapostulum og hætta að láta guðsótta og helgislepju ógna sér.

Margrét St Hafsteinsdóttir, 22.3.2009 kl. 20:22

4 Smámynd: Ómar Valdimarsson

Jón Valur heldur áfram að berja höfðinu við steininn, eins og við var að búast. En það gildir einu hvað honum og páfanum þykir um eðli mannskepnunnar, fólk mun halda áfram að brynna hvötum sínum og náttúru. Og jafnvel þótt smokkurinn veiti 'aðeins' 90% vörn, þá er það örugglega betra en að grípa fast fyrir augu, munn og eyru og halda áfram að trúa á forstokkun páfans og bandamanna hans.

Ómar Valdimarsson, 22.3.2009 kl. 21:02

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Málið hér er ekki, að ég berji höfði við stein, heldur er Ómar ónæmur fyrir rökum. Til hamingju með það, karlinn minn, þá þarftu ekki að standa í löngum rökfærslum og getur haldið áfram að vera í fríi frá umræðunni.

Jón Valur Jensson, 22.3.2009 kl. 22:39

6 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Hver er ónæmur fyrir hverju, það finnst mér ekki skipta mestu, heldur hitt að við erum að tala um nútímann og Alnæmi er nútíminn, smokkurinn er nútíminn en páfinn og kirkjan eru fortíðin. Hvernig getur staðið á því að maður i þessari stöðu vílar ekki fyrir sér að ljúga að fólki sem er í bráðri lífshættu. Jón Valur er líka fortíðin og er með eldgamlar klisjur og er það að auki að bera í bætifáka fyrir forpokaðann karl sem telst vera yfirmaður katólskra.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 23.3.2009 kl. 00:01

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég er jafnlifandi og Hólmfríður, en virðist hafa það fram yfir hana í þessum málum, að ég hef kynnt mér þau vel og get fært góð rök fyrir afstöðu minni.

Jón Valur Jensson, 23.3.2009 kl. 02:00

8 identicon

Sæll og blessaður elsku kallinn. Til hamingju með daginn Valdimar Ómar, Evu- og Valdimarsson. Meira að segja Andersen og Villumsen. Nú fatta ég, þaðan koma myndlistargenin í Dagmar. Auðvitað í gegnum þig. Við Sólbekkingar líðum ekki að makar fari að neinu leyti með yfirburði umfram okkur. Nema þá helst hvað varðar þvermóðsku, óbilgirni, einstæðan húmor og fleira, sem við erum ekki þekkt fyrir!!!

 

Einu sinni vorum við ungir, gr. og ríkir, eins og segir í ágætum dægurlagatexta. Nú erum við bara ríkir, já ríkir af fjölskyldu. Ríkir af dýrmætri reynslu, lífið hefir verið okkur gott. Flest eins og við viljum hafa það. Peningar hafa aldrei skipt okkur máli. Það er gott að vera matvinnungur. Það dugir mér. Hún móðir mín, systir þín, hélt því nú reyndar fram, að peningar puntuðu svolítið uppá. Auðvitað er það rétt. Jæja, nú er ég farinn að tala eins og gamall maður, sem mér finnst ég ekki vera. Mér finnst ég t.d. ekki vera deginum eldri en þú, samt skeikar rúmum mánuði, mér í óhag. Hugsa sér hvað hún amma var dónaleg, var ólétt á sama tíma og dóttirin. Held að bræðurnir frá Sólbakka (bestustu kallar í heimi) hafi hneykslast á henni systur sinni. Hvað um það frændi, við fylgjumst að í ýmsu. Held við séum fjári líkir að mörgu leyti. Helvítis rauðliðar við beinið. Krossinn er einungis yfirskin. Aldrei að gefa sig, hanga á því meðan logar á perunni.

 

Það er eitt, sem þú hefir enn fram yfir mig, og ég sáröfunda þig af. Tónlistarferillinn. Hver man ekki eftir Bleika fílnum, og hvernig þú hjalaðir við Drífu með Nútímabörnum. Ég var á herrakvöldi fyrir nokkru. Ræðumaður kvöldsins var Halldór Einarsson, Henson. Eyjamaður að uppruna. Hann endaði pistilinn á söng með laginu “Eighteen Yellow Roses”, og gerði það mjög vel. Í framhaldinu skutlaði ég mér í “La Bamba”, með tilþrifum. Organisti Landakirkju, galdramaður af Ströndum kom til mín nokkru síðar. “Ert þú til í að koma í kirkjukórinn”? Ómar, ef til vill stend ég nú á krossgötum. Er þetta upphefð, eða upphafið að endalokunum ? Á ég afturkvæmt?

 

Sendum kærar afmæliskveðjur á 36 Ocean Boulevard, með laginu I shot the sheriff (But I did not shoot no deputy). Þú gerir eitthvað skemmtilegt í tilefni dagsins, vona ég. Kærar kveðjur  héðan úr golunni undir Helgafelli.

 

fóv.

Eftirskrift. Hver er þessi páfi? Hvaðan kemur hann og hvert er hann að fara?

Friðbjörn Ó. Valtýsson (IP-tala skráð) 23.3.2009 kl. 10:51

9 identicon

Hafa skal það, er sannara reynist. Willumsen skal hann heita.

Friðbjörn Ó. Valtýsson (IP-tala skráð) 23.3.2009 kl. 11:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband