Einangrun á púlsinum

Ég held að það sé talsvert til í því sem Steingrímur Sigfússon var að segja í leiðtogaumræðunni í sjónkanum í kvöld um einangrun fjölmiðlanna og einsleitar áherslur eða rörsýni.

Ég tók eftir því sjálfur þegar ég hætti daglegri fréttamennsku að utan fréttastofanna var raunverulegt líf í öllum sínum margbreytileika. Það var allt annað líf en ég hafði lifað í fjölmiðlahasarnum.

Í þessi tuttugu ár hafði ég talið mig vera með fingurinn á púlsinum og hafa býsna góða hugmynd um hvar þjóðarhjartað sló. En þegar ég hætti þessu daglega amstri þá uppgötvaði ég að í raun hafði ég verið harla einangraður frá daglegu lífi – að fréttirnar voru ekki upphaf og endir alls. Fyrir utan fréttastofurnar reyndist vera mikill fjöldi fólks sem var ekki að hugsa um fréttirnar og einstök skúbb daginn út og daginn inn – heldur um lífið sjálft, gleði þess og sorgir, stór mál og smámál og allt þar á milli.

Þess vegna held ég enn að það skipti höfuðmáli fyrir fjölmiðla að ráða til sín fólk með fjölbreytta reynslu – sjómenn, bændur, múrara, listamenn, næturverði – í stað þess að allir komi úr stjórnmálafræði í háskólanum. Sem betur fer er þetta að verulegu leyti á þann veg – en ég hef á tilfinningunni að það séu að verða breytingar þar á.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég tók líka eftir því hvað Jóhanna Vigdís var fýluleg við þessa athugasemd Steingríms.

Sigurður Þór Guðjónsson, 26.4.2009 kl. 21:07

2 identicon

Fjölmiðlar og fjölmiðlafólk er upp til hópa mjög hörundssárt og getur aldrei tekið neinni gagnrýni. Þess vegna var ekki hægt að búast við góðum viðtökum hjá Jóhönnu Vigdísi og Sigmari við þessari athugasemd.

Og ég er alveg sammála þér, Ómar, um mikilvægi þess að ráða fólk með fjölbreyttan bakgrunn á fjölmiðlana.

Hinsvegar á þetta engan veginn við um þetta tiltekna málefni; að halda því fram að íslenskir fjölmiðlar séu uppteknir af Evrópusambandinu eða erlendum málefnum almennt. Reyndin er þveröfug; hér á landi er afskaplega lítið fjallað um alþjóðamál, áherslan er alltaf á hin dæmigerðu "íslensku" mál, jafnvel þó að fjölmargar ákvarðanir í Brussel hafi einmitt bein áhrif á almennt líf hér á Íslandi.

Sem dæmi, þá er Ísland örugglega eina landið í Evrópu og jafnvel í öllum hinum vestræna heimi, sem ekki hefur einn einasta fréttaritara í Brussel. Það er náttúrlega alveg galið og sýnir í hnotskurn að íslenskir fjölmiðlar sýna þessum brýna málaflokki engan áhuga. Ég reikna með að íslenskir blaðamenn myndu upp til hópa kolfalla á einfaldasta krossaprófi um ESB, EES samninginn ofl.

Ég vek líka athygli á því að þó að Steingrímur J. kvarti undan Evrópu-umræðu fyrir kosningar, þá var hún í raun afskaplega lítil og grunn. Umræðan fór aldrei út í Evrópumálin af neinu viti, þ.e. af hverju tilteknir stjórnmálamenn eru með eða á móti, hverjir eru kostir og gallar við inngöngu osfrv. VG hafa sjálfir ekki náð að svara því hvers vegna þeir eru svona á móti, enda hefur enginn spurt þá! Ég hef heyrt þingmenn VG tala um ESB af ævintýralegri vanþekkingu, þannig að þeir virðast taka afstöðu af einhverri óskilgreindri hugsjón um gamaldags föðurlandsást.

Sem sagt, Ómar, það vantar einmitt enn meiri umræðu um Evrópumál og auðvitað um alþjóðamál almennt. Ástandið hefur versnað frá því efnahagskerfi okkar hrundi. Það er sannarlega kominn tími til að snúa við blaðinu.

Evreka (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 13:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband