Kurteisleg hústaka

Ég fylgdist með ‘hústökunni’ við Fríkirkjuveg 11 í kvöld. Mér fannst allir standa sig nokkuð vel: hústökufólkið sem var almennt kurteist og prútt, löggan sem var enn prúðari, og bæjarbúar sem norpuðu í súldinni og höfðu yfirleitt ekki sérstaka samúð með skráðum eiganda hússins.

Klukkan eina mínútu yfir níu, þegar búið var að opna lítinn kjallaraglugga með greiðslukorti (!), voru nokkrar umræður í hópi hústökufólksins um hver ætti að fara inn - hver væri nógu grannur og hver myndi ekki meiða sig á gluggajárnspinna sem stóð upp úr karminum. Stúlka fór og sótti grjóthnullung til að berja pinnann niður – en samherjar hennar sögðu umsvifalaust: Nei, nei, þá værum við að skemma! Það vildi hún ekki og grjótið hvarf.

Ungur maður renndi sér svo inn um gluggann eins og ormur og opnaði síðan dyrnar í kjallaranum þar sem haldnir voru dansleikir í mín ungdæmi. (Gott ef unglingahljómsveitin Fjarkar var ekki einskonar húsband þar.)

Þarna voru á að giska 25-30 hústökumenn og konur og svo hópur af vegfarendum sem fylgdust með.

Skyndilega bar að ungan mann með svarta dulu fyrir andlitinu. Hann lagði undir sig gjallarhornið og útskýrði að ef fólk ætlaði að taka hús, þá dygðu engin búsáhöld – það tækist ekki nema með ofbeldi.

Ekki var því áberandi vel tekið, sýndist mér.

Engin læti voru og engin átök – ef frá er talin mikil óeirð í spólgröðum Dalmatíuhundi sem vildi ólmur komast í litla og fallega tík listmannahjóna sem búa þarna í nágrenninu. Brýnt var fyrir tíkinni að forðast svona dóna alla sína daga.

Svo fóru allir heim – og sennilega allir sammála um að Fríkirkjuvegur 11 sé fallegt hús og að aldrei verði friður um að það verði í eigu útrásarvíkingsins Björgólfs Thors Björgólfssonar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Sögunar verður auðvitað að skrá rétt Ómar; þetta var blanda af Dalmatíu og Labrador!

Hvað hið fallega hús varðar hefur hugarfarsleg þinglýsing hér með átt sér stað; Þetta hús er ekki lengur Björgólfshús. 

Friðrik Þór Guðmundsson, 9.6.2009 kl. 00:23

2 Smámynd: Finnur Bárðarson

Sérsveitin mætti ekki með vélsagirnar það gerði gæfumuninn.

Finnur Bárðarson, 9.6.2009 kl. 14:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband