Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Odetta öll: merku lífi lokið

Odetta, sem lést 77 ára gömul í gær vestur í New York, skilaði góðu dagsverki á langri ævi og skilur til allrar hamingju eftir sig vænt safn hljóðritana sem lengi munu lifa. Hún var stórmerkileg kona og fór í fararbroddi, ásamt mörgum öðrum, í réttindabaráttu blökkumanna í Bandaríkjunum á sínum tíma - söng meðal annars á útifundinum mikla í Washington 1963, þegar Martin Luther King flutti sína frægu ræðu.

Ég var reyndar svo lánsamur að hafa hitt Odettu og kynnst henni svolítið. Það var vestur í Massachusetts veturinn 1975 þegar hún birtist skyndilega í hljóðveri þar sem ég var í embættiserindum sem umboðsmaður hljómsveitarinnar Pelican. Hún varð hrifin þegar í ljós kom að ég hafði verið aðdáandi um langa hríð og nuddaði á mér axlirnar og hálsinn af alúð og eftirlæti. Ég reyndi svo að fá hana flutta heim til að halda hér konsert, en það tókst ekki, því miður.

Odetta var talsvert spiluð á þjóðlagakvöldum sem ég stóð fyrir í Tónabæ sáluga í kringum 1970 og vakti alltaf lukku. Þar hófu reyndar margir ágætir menn sinn feril - gott ef það var ekki á þessum kvöldum sem Hörður Torfason byrjaði, og líka Magnús & Jóhann, Bergþóra heitin Árnadóttir, ljúflingsflokkurinn Lítið eitt úr Hafnarfirði og fleiri og fleiri. 


Svo skal böl bæta...

Ekki þori ég alveg að gera mér miklar vonir um að upp rísi 'nýtt Ísland' með mannúðlegum gildum og betri tíð með blómum í haga. Maður sér ekki alveg í hendi sér hver ætti að leiða þá miklu endurreisn: enn hefur ekkert það nýtt afl orðið til sem býður nýja valkosti.

Stjórnarandstaðan á Alþingi hefur til að mynda bara verið raunaleg. Steingrímur Sigfússon og hans menn byrjuðu að vísu feikna vel í október og virtust greina vandann betur en flestir aðrir. En síðan hafa þeir dottið í gamla pyttinn: vond ríkisstjórn, illur umheimur, útaf með auðvaldið. Framsókn er meira en raunaleg, beinlínis sorglega útí móa, og Frjálslyndir eru eins og þeir séu lentir á tunglinu. 

Það þýðir ekki endilega að íhaldið og kratarnir séu að brillera - en þaðan koma engu að síður einu konstrúktívu aðgerðirnar. Það er svo annað mál hvort þær eru góðar eða vondar, réttar eða rangar. 

En það er þessi veruleiki sem veldur því að ég þori ekki að veðja á Nýja Ísland: það bólar ekki á nýju afli. Til að skapa nýtt samfélag þarf að losna við mikið af því sem skóp gamla Ísland og þar eru flokkarnir fyrirferðarmestir. Það er að vísu líklegt að Framsókn sé búin að vera, og Frjálslyndir eru hvorki né, en dettur einhverjum í hug að hinir flokkarnir ætli að játa sig sigraða og yfirgefa sviðið?

Ætli 'Borgarahreyfingin' svokallaða sér hlutverk í nýsköpun samfélagsins þá þarf meira en að hrópa 'já' við því hvort spillingaröflin og skítapakkið eigi ekki að víkja og hvort ekki eigi að halda annan fund næsta laugardag.

Því eins og segir í kvæðinu: Svo skal böl bæta að benda á eitthvað annað.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband