Svo skal böl bæta...

Ekki þori ég alveg að gera mér miklar vonir um að upp rísi 'nýtt Ísland' með mannúðlegum gildum og betri tíð með blómum í haga. Maður sér ekki alveg í hendi sér hver ætti að leiða þá miklu endurreisn: enn hefur ekkert það nýtt afl orðið til sem býður nýja valkosti.

Stjórnarandstaðan á Alþingi hefur til að mynda bara verið raunaleg. Steingrímur Sigfússon og hans menn byrjuðu að vísu feikna vel í október og virtust greina vandann betur en flestir aðrir. En síðan hafa þeir dottið í gamla pyttinn: vond ríkisstjórn, illur umheimur, útaf með auðvaldið. Framsókn er meira en raunaleg, beinlínis sorglega útí móa, og Frjálslyndir eru eins og þeir séu lentir á tunglinu. 

Það þýðir ekki endilega að íhaldið og kratarnir séu að brillera - en þaðan koma engu að síður einu konstrúktívu aðgerðirnar. Það er svo annað mál hvort þær eru góðar eða vondar, réttar eða rangar. 

En það er þessi veruleiki sem veldur því að ég þori ekki að veðja á Nýja Ísland: það bólar ekki á nýju afli. Til að skapa nýtt samfélag þarf að losna við mikið af því sem skóp gamla Ísland og þar eru flokkarnir fyrirferðarmestir. Það er að vísu líklegt að Framsókn sé búin að vera, og Frjálslyndir eru hvorki né, en dettur einhverjum í hug að hinir flokkarnir ætli að játa sig sigraða og yfirgefa sviðið?

Ætli 'Borgarahreyfingin' svokallaða sér hlutverk í nýsköpun samfélagsins þá þarf meira en að hrópa 'já' við því hvort spillingaröflin og skítapakkið eigi ekki að víkja og hvort ekki eigi að halda annan fund næsta laugardag.

Því eins og segir í kvæðinu: Svo skal böl bæta að benda á eitthvað annað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband