Bara ef maður gæti treyst bæjarstjórninni

Það er mikið sundurlyndi meðal Sjálfstæðismanna í Kópavogi í framhaldi af vafasömum embættisfærslum Gunnars Birgissonar fyrrum bæjarstjóra sem var settur af á liðnu ári. Nú vill hann auðvitað koma aftur í sitt gamla sæti í prófkjörinu um næstu helgi enda er hann atorkumaður og myndi sjálfsagt aldrei nenna að vera óbreyttur bæjarfulltrúi, og enn síður bæjarfulltrúi í minnihluta.

Gallinn er sá að nú er flokkurinn hans í bænum klofinn og um leið gerist það (sennilega ekki af hreinni tilviljun) að fleiri dæmi um vafasama stjórnunarhætti og vinavæðingu Gunnars Birgissonar koma upp á yfirborðið.

Það væri ekki gott fyrir Kópavog að fá Gunnar aftur þó ekki væri nema vegna þess að ráðvendni hans er ekki hafin yfir allan vafa. Dómgreindin (eða er það raunveruleikaskynið?) er líka stundum sérkennileg: á dögunum sagði hann í viðtali við eitt bæjarblaðanna að það þyrfti endilega að byggja fleiri íbúðir fyrir ungt fólk!

En því miður er valkosturinn í hópi Sjálfstæðismanna, Ármann Kr. Ólafsson bæjarfulltrúi og fyrrverandi þingmaður, ekki endilega betri. Hann er í hópi þeirra sem í útrásarfylliríinu fengu ‘vildarvinafyrirgreiðslu’ banka á einstökum kjörum gegn lélegum veðum. Ekkert í samanburði við suma þá sem mest er talað um þessa stundina, en nóg samt til að minna á gömlu, vondu dagana.

Ekki að minnihlutaflokkarnir, kommar og kratar, séu heldur með alveg hreinan skjöld – fulltrúar þeirra, sem og Gunnar og hans gömlu samherjar, sæta enn lögreglurannsókn vegna setu sinnar beggja vegna borðs þegar vélað var með lífeyrissjóð bæjarstarfsmanna.

Það er nefnilega rétt sem Gunnar Birgisson hefur oft sagt: það er gott að búa í Kópavogi.

Og það væri enn betra ef hægt væri að treysta bæjarstjórninni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Þú segir nokkuð Ómar og það með réttu. Það er miklu betra að geta treyst yfirvaldinu í sínu nærumhvefi. GB er auðvitað fyrirgreiðslu gaur af gamla skólanum sem finnst eðililegt að yfirvaldið geti rétt vinum og ættingjum smá vinarvott í formi vel greiddra verkefna. Svoleiðis er bara ekki inn í dag.  

Hólmfríður Bjarnadóttir, 16.2.2010 kl. 02:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband