Vel heppnuð málamiðlun

Ekki verður annað séð en að nýju stjórnarskrárdrögin frá í morgun séu hið ágætasta plagg. Það hefur ekki verið auðvelt að koma þessu saman – hér og þar má lesa málamiðlanir út úr textanum. En þannig er það, það fá ekki allir allt sem þeir vilja. Sennilega eru drögin ekki nákvæmlega að skapi nokkurs Stjórnlagaráðsmanns – en hópurinn hefur engu að síður komist að sameiginlegri niðurstöðu. Það er fínt, til þess var leikurinn gerður.

Sjálfur er ég ekki himnasæll með allt. Mér þykir til að mynda sérkennilegt að sjá að í drögunum er gert ráð fyrir að þingmenn skuli áfram vera 63, eins og nú er. Þarf endilega að binda það í stjórnarskrá hversu margir þeir eiga að vera? Kannski. Kannski ekki. Mig grunar að 63 séu of margir.

Og fyrst ég er byrjaður er rétt að taka til fleiri atriði. Í 12. grein (um upplýsingarétt) segir að stjórnsýslan skuldi halda til haga gögnum „svo sem fundargerðum“. Fundargerðir eru misjafnar og jafnvel gagnslausar: þarna er nauðsynlegt að tilgreina einnig minnisblöð sem oft segja meira um uppruna og sögu máls en fundargerðir.

13. grein fjallar um frelsi fjölmiðla. Þar er talað um „ritstjórnarlegt sjálfstæði þeirra“. Við hvað er átt? Má ég vera viss um að allir hafi sama skilning á því hvað er ritstjórnarlegt sjálfstæði?

Í þeirri 43. er fjallað um að upplýsingar skuli aðgengilegar almenningi um styrki til frambjóðenda og samtaka þeirra sem „bjóða fram í almennum kosningum.“ Á þetta ekki örugglega einnig að gilda um styrki til frambjóðenda í prófkjörum? Ef ekki, þá getum við setið uppi með þingmenn sem hafa komist á lista með stuðningi huldufólks sem þeir þurfa enga grein að gera fyrir.

Drög Stjórnlagaráðsins eiga væntanlega enn eftir að taka einhverjum breytingum – en í heildina tekið sýnist mér, leikmanninum í fjarska, að vel hafi tekist til.

Gott hjá þeim! Nú þarf að kynna málið rækilega og setja það svo í þjóðaratkvæði þar sem sextíu- og þremenningarnir hafa sama atkvæðisrétt og við hin. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband