Hvar eru foringjarnir?

Eitt var þó hárrétt hjá Davíð Oddssyni í Kastljósinu í gærkvöld: það er enginn að telja kjark í þjóðina. Og meðal forustumanna virðist skortur á framtíðarsýn: ég man ekki til þess í svipinn að hafa heyrt íslenskan stjórnmálamann lýsa sýn sinni á Ísland framtíðarinnar og hvernig eigi að komast út úr klandrinu.

Það var þess vegna gott að hluta á Barack Obama Bandaríkjaforseta í nótt ávarpa þingið í Washington. Þar fór maður sem var með klára sýn á framtíð lands og þjóðar, virtist vita nákvæmlega hvert hann vildi fara með þjóð sinni og hvernig hann ætlar að komast á leiðarenda.

Barack Obama er nefnilega augljóslega foringi. Slíkir menn eru ekki til í íslensku stjórnmálalífi nú um stundir, því miður. Að minnsta kosti verð ég ekki var við þá. Ríkisstjórn Geirs Haarde féll á því að hún veitti ekki forustu.

En hvað sem segja má um Davíð Oddsson þá verður það ekki af honum tekið að hann er foringi. Eða var, er kannski réttara að segja. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafði einnig þennan mannkost – en veikindin hafa dæmt hana úr leik. Frjálslyndi flokkurinn hefur engan foringja. Það er of snemmt að segja til um hvort Framsókn hefur foringja – en til skamms tíma var augljóslega ekki svo. Vinstri-Grænir? Ekki alveg ljóst – Steingrímur sýnir þó ýmsa takta í þá átt.

Ég hef ekki komið auga á raunverulega foringja í hópi þeirra sem nú vilja komast á þing. Og á meðan heldur þjóðin áfram að engjast og ráfa stefnulaus í upplausninni þar sem hver höndin er upp á móti annarri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldóra Halldórsdóttir

Rétt - þjóðin velkist um leiðtogalaus. Sveiflast á milli vonar og vonleysis allt eftir því hvaða sérfræðingur var síðast í sjónvarpsviðtali.

Halldóra Halldórsdóttir, 25.2.2009 kl. 14:25

2 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Það er bara ekki hægt að telja í okkur kjark með augljósri lýgi - í dag gerir hún illt verra. Til að tala okkur upp þarf fyrst að gera hreint og leggja spilin á borðið.

Helgi Jóhann Hauksson, 25.2.2009 kl. 14:46

3 Smámynd: Emil Örn Kristjánsson

Veiztu, Ómar, okkur skortir bjartsýni í fréttaflutning og meira af erlendum fréttum.

Í fyrsta lagi verður seint hægt að telja dug í fólk og fá það til vinna sig upp úr erfiðleikunum og gera það bezta úr stöðunni ef það er stöðugt verið að hamra á sama svartsýnisbölmóðsbarlómnum.

Í öðru lagi þá veitti okkur ekki að vera minnt á það stöku sinnum að við erum ekki ein í heiminum og ástandið er ekki bara okkur að kenna. Það er kreppa um allan hin vestræna heim.

Emil Örn Kristjánsson, 25.2.2009 kl. 15:46

4 Smámynd: Guðrún Þóra Hjaltadóttir

Það er rétt sem Davíð sagði um foringjaleysið. Það virðist engin hafa þá æfileika sem hafa verið á þingi. Það er því miður ekki von á góðu ef fram fer sem horfir.

Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 25.2.2009 kl. 22:29

5 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Nákvæmlega!

Vilborg Traustadóttir, 25.2.2009 kl. 23:40

6 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Það er ekki öllum gefið foringjagenið og ekki einu sinni víst að hægt sé að kaupa það hjá verktaka.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 26.2.2009 kl. 01:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband