Asninn Bjartur

Öll lönd þurfa á erlendri fjárfestingu að halda, hvort sem í hlut eiga Bandaríkin, Sviss, Norður Kórea, Sómalía eða Ísland. Þetta er augljóst mál og vefst ekki fyrir fólki úti í hinum stóra heimi.

Nema hér. Af því að við erum svo spes og frábær og miklu klárari en allir aðrir.

Vendingarnar í ‘Magma-málinu’ eru nú farnar að jaðra við efnahagslegt skemmdarverk. Litlir kallar í pólitík eru farnir/farnar á límingunum eins og venjan er hér þegar kemur að ákvörðunum sem skipta máli. Afdalamennskan tröllríður umræðunni.

Erlendir fjárfestar sitja nú í fjárhirslum sínum í fjármálaborgum heimsins, lesa fréttirnar sem berast frá Íslandi og hrista hausinn.

Ekki einasta er þetta auma land farið á hausinn, hugsa þeir með sér, heldur virðist þar allt vera í upplausn, hver höndin er upp á móti annarri, hatast er við útlenda peninga sem brýn þörf er á og ríkisstjórnin virðist enga stjórn hafa á atburðarásinni.

Og hafi þessu lánlausa liði tekist fyrir slysni að landa samningi um erlenda fjárfestingu, þá virðist nú standa til að segja slíkum samningum upp!

Best að láta þá eiga sig, þeir geta étið sitt slátur og spunnið sinn lopa einir og í friði, hugsa fjárfestarnir með sér, það er ekki fyrirhafnarinnar virði að ætla að standa í viðskiptum við þá.

Og þá gleðjast afturhalds- og einangrunarsinnar hér sem aldrei fyrr og telja sér trú um að það sé fínt að vera Bjartur í Sumarhúsum. Sem var náttúrlega asni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Ekki tala illa um Bjart í Sumarhúsum þú hrokafulla menntamannagimpi.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 25.7.2010 kl. 22:16

2 Smámynd: Aðalsteinn Agnarsson

Það er ekki hægt að segja þig umburðarlyndan, gagnvart þínum löndum.

Aðalsteinn Agnarsson, 25.7.2010 kl. 22:40

3 identicon

Rétt hjá Ómari.

Og Bjartur í Sumarhúsum var asni. Grasasni.

Kristján Sveinsson (IP-tala skráð) 25.7.2010 kl. 23:14

4 identicon

Hefur þú lesið sögum um Bjart í Sumarhúsum Ómar? Það er harmræn saga af manni, sem reyndi að standa uppréttur hvað sem á gekk og barðist við afar mótdræg örlög. Maður sem hefur lesið söguna getur ekki komist að þeirri niðurstöðu að Bjartur hafi verið asni. Kannske of stoltur og sjálfstæður en ekki asni. Við íslendingar höfum ekki verið stolt í anda Bjarts og kannske er það ein af ástæðum þess að fyrir okkur er komið eins og nú um stundir stundir. Þessi færsla þín er ógeðfellld og lýsir þér betur en Bjarti í Sumahúsum, mikilli hversdagshetju.  

Tryggvi Sigurðsson (IP-tala skráð) 25.7.2010 kl. 23:53

5 Smámynd: Aðalsteinn Agnarsson

Er ekki komið að því að þjóðinn fái góða uppskeru, af fiskimiðum sínum.

Hafskip LÍÚ eru að fiska hér upp í fjöru sama afla eða minni ( bolfiskafli

Íslendinga er ca. 300.000 tonn ) heldur en  SKARFAR eru að veiða fyrir

Kínverska fiskimenn. Þetta er orðinn þjóðar skömm, er ekki mál að vakna.

Aðalsteinn Agnarsson, 26.7.2010 kl. 00:23

6 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Það er mikill misskilngur að Bjartur í Sumarhúsum hafi verið einhver hetja. Hann var þröngsýnn, þrjóskur og barnalegur, ef ekki beinlínis heimóttarlegur. Eru það þau gildi sem íslenska þjóðin ætti helst að rækta með sér?

Svala Jónsdóttir, 26.7.2010 kl. 00:41

7 identicon

Hvar í heiminum hefur borgað sig að einkavæða orkufyrirtækin þannig að verð á raforku og heitu vatni hefur lækkað til almennings og öryggi orkuframleiðslu og afhendingar til neytenda hefur haldist?

Garðar Garðarsson (IP-tala skráð) 26.7.2010 kl. 00:52

8 Smámynd: Kama Sutra

Mikið er ég sammála varðandi Sumarhúsaskrímslið sem asna og fífl.  Hann á vart sinn líka í heimsku og þröngsýni.

Þetta vill þorri Íslendinga taka sér til fyrirmyndar.

Kama Sutra, 26.7.2010 kl. 01:05

9 identicon

Ómar minn.

Þú ert ekki alveg að fatta þessa "erlendu" fjárfestingu. Fyrir það fyrsta er fjárfestingin öll á ábyrgð seljenda, sem sé kúlulán með veði í hlutabréfunum og á vöxtum sem heyra bara siðmenntuðum heimi til (ekki Íslandi). Í öðru lagi; hvað veist þú um eignarhald í þessu Magma fyrirtæki?

Ég hef nú yfirleitt tekið mark á þér og þínum skoðunum, en núna ertu að synda í þvílíkum drullupolli að ég get bara ekki fylgt þér.

Hreggviður (IP-tala skráð) 26.7.2010 kl. 01:53

10 identicon

"Öll lönd þurfa á erlendri fjárfestingu að halda." Það er nefnilega það! Enn ein trúarkennisetningin! Má ég bæta við annarri: Jörðin er flöt!

Auðun Gíslason (IP-tala skráð) 26.7.2010 kl. 02:00

11 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Hver er asni og hver er fífl, það finnst mér ekki skipta máli, heldur hitt að þjóðin þarf nauðsynlega að njóta arðs af sínum auðlindum.

Það hefur ekkert með það að gera að ekki megi koma inn erlent fjármagn til að byggja upp og eða koma að fjárfestingum með einhverjum hætti.

Lagaumhverfi þessara mála er ófullnægjandi og að því er virðist með þannig götum að erlendir fjárfestar geta náð til sín yfirráðum og þar með arðinum af auðlindunum.

Svo er önnur hlið á þessum málum sem eru umhverfismálin. Það verður að vera tryggt að stjórnvöld hér geti haft með höndum eftirlit með nýtingu auðlindanna. Að ekki sé á þær gengið og um þær gengið að þær beinlínis skaðist/eyðist upp.

Bankarnir okkar áttu að vera góð tekjulind fyrir þjóðarbúið og um þá átti að ganga af heiðarleika. Hvað gerðist, eftirlitsþátturinn brást algjörlega og allt hrundi.

Ég sé það fyrir mér þegar Ísland verður komið inni í ESB, að umhverfismálin verði tekin fyrir af enn meiri festu en nú er. Þá væri skelfilegt að hafa klúðrað yfirráðum yfir hluta auðlindanna og ekki væri unnt að gripa inn í næstu áratugina.

Bjartur í Sumarhúsum er ekki að hugsa með þessum hætti - hann vill ekki ganga í ESB og hann vill ekki útlenda peninga.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 26.7.2010 kl. 02:01

12 identicon

Ætlaði að senda inn útskýringu á sjálfum Bjarti, en menn eru komnir með þvílíka múra í kringum sig að ekki er nema fuglinum fljúandi möguleiki á að komast inn fyrir þá.

Bjartur er sjálf Framsóknarmaddaman í huga Laxness, nenni ekki að skrifa aftur texta um það sem síðan hafnar í varnarmúrnum;))

Það er eins og meira en helmingur þjóðarinnar skilji ekki boðskap Laxness - hreinlega ótrúlegt. Erum við ekki betur gefin en svo??? Ómar er síðan að misskilja allt varðandi Magma ævintýrið og fer að blogga út frá því - sorglegt.

Hreggviður (IP-tala skráð) 26.7.2010 kl. 02:10

13 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

.. hinir erlendu fjárfestar hljóta líka að vera ánægðir með að innlendir aðilar, þ.e. íslenskir fjárfestar, fái ekki að kaupa í HS Orku á sömu kjörum.

Erlendir aðilar, þe. Magma Energy, fékk 3ja milljón USD afslátt(375 milljón króna) sem stóð ekki innlendum aðilum til boða.

Þetta dæmi sýnir hversu ógagnsæ lögin eru, hversu miklu máli geðþóttaákvarðanir skipta og þá hversu ógagnsætt allt ferlið er.

Svo hljóta allir að átta sig á því að skuldabréf sem er ekki á gjalddaga fyrr en eftir nokkur ár og aflandskrónur geta ekki verið flokkuð sem erlend fjárfesting og skapa enga atvinnu.

Lúðvík Júlíusson, 26.7.2010 kl. 07:22

14 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Það í raun versta við asnaskap Bjarts var að háttalag hans stórskaðaði alla þá sem þurftu að vera undir hans verdarvæng inní því litla samfélagi sem Bjartur mótaði og ríkti yfir með harðstjórn. 

Ómar Bjarki Kristjánsson, 26.7.2010 kl. 10:23

15 Smámynd: Dexter Morgan

Ef að "Bjartur" í Sumarhúsum,var asni síns tíma og jafn heimskur og sumir vilja láta, þá ert þú, Ómar, velsæmdur af því að hljóta titilinn "Bjartur" 2010.

Dexter Morgan, 26.7.2010 kl. 11:37

16 identicon

Þeir sem vilja kynna sér hvað skapara Bjarts í Sumarhúsum fannst um hann væri hollt að lesa þessa grein:

http://www.dv.is/blogg/tresmidja/2009/8/21/grein-skrimslid-i-sumarhusum/

Illugi Jökulsson hefur eftir Laxness að Bjartur í Sumarhúsum væri "þurs" og "afglapi". Vægast sagt áhugavert að margir hér hefji hann upp til skýjanna - sjá líklega sjálfa sig í honum...

Ómar R (IP-tala skráð) 26.7.2010 kl. 19:48

17 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ég er ennþá að leita að Bjarti í Sumarhúsum hér á Íslandi og mér hefur ekki tekist að finna hann. Getið þið hjálpað mér?

BS er einhver sem er ekki háður neinum, sjálfstæður og vill standa á eigin fótum. Ef við tökum þá sem helst æpa um sjálfstæði eru það þessir hópar:

  1. Bændur. Sjálfstæðir? Lifa sem afætur á skattpeningum þess litla atvinnurekstrar sem ennþá ber sig. Raunar er helsta mótbára þeirra gegn ESB sú að þeir fá ekki að lifa eins miklu sníkjulífi og þeir helst vilja.
  2. Útgerðarmenn. Sjálfstæðir? Ekki láta mig hlæja. Flest fyrirtæki þeirra í fanginu á ríkinu, gjaldþrota eða að verða gjaldþrota. Búnir að stofna til gríðarlegra skulda og velta þeim yfir á skattgreiðendur. Þeir sem seldu frá sér kvóta fyrir hrun lifa auðvitað á erfiði þeirra sem eru í rekstri. Aðrir fengu skuldhreinsun og halda enn kvótanum.

Þannig að hvar er Bjartur í Sumarhúsum?

Theódór Norðkvist, 26.7.2010 kl. 23:22

18 Smámynd: Theódór Norðkvist

Þeir sem helst æpa um sjálfstæði sem mótrök gegn ESB....

...átti það að vera.

Theódór Norðkvist, 26.7.2010 kl. 23:25

19 Smámynd: Billi bilaði

Verst að þú sért ekki áhugamaður um umburðarlyndi og sanngirni sjálfs þíns.

Billi bilaði, 27.7.2010 kl. 00:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband