Sorrí dugar ekki

Á Morgunblaðsárum mínum gerðist það að blaðið birti frétt með röngum upplýsingum. Þær höfðu komið frá ónafngreindum heimildarmanni sem blaðið hafði treyst fram að því. Þegar uppvíst varð um lygina var rækilega frá því sagt í blaðinu og þess getið, minnir mig, að blaðið myndi framvegis ekki treysta viðkomandi. Þetta þótti hið versta mál enda keppti Morgunblaðið á þeim tíma einarðlega að því að vera ábyggilegt fréttablað. Menn vildu umfram allt geta staðið á því að Mogginn lygi ekki.  

Nú hefur það gerst í fyrsta sinn (í að minnsta kosti þau rúmlega 40 ár sem ég hef vandlega fylgst með fréttum á Íslandi) að Morgunblaðið hefur neyðst til viðurkenna, m.a. í heilsíðuauglýsingum í tveimur samkeppnisblöðum, að burðarfrétt úr blaðinu hafi reynst uppspuni.

Mogginn skuldar okkur meira en þetta. Í fréttinni sjálfri 31. janúar sl. var engra heimildarmanna getið. Nú þarf Mogginn að upplýsa hvernig uppspunafréttin um lögreglurannsóknina á „tölvumálinu“ ógurlega og aðild DV að því varð til. Var fréttin vísvitandi skáldskapur frá upphafi til enda – eða lét blaðið ljúga svona að sér? Hvað ætlar Morgunblaðið að gera til að tryggja að lesendur megi ekki eiga von á fleiri fréttum af þessu tagi?

Sorrí er einfaldlega ekki nóg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Huggun harmi gegn að á sömu síðu og afsökunarbeiðnin var birt í Mogganum var boldungsfrétt um hinn ofurheiðarlega blaðamann DV sem svo illilega hafði verið hafður fyrir rangri sök.

greinilegt að strákurinn kemur víða við og vílar ekki allt fyrir sér.

Ragnhildur Kolka, 11.2.2011 kl. 21:27

2 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Menn hafa dregið í land vegna þess að sönnunarbyrðin er þeim ofviða. Hins vegar má lesa það út úr Reykjavíkurbréfinu í dag, laugardag, að mönnum þykir enn vera skítalykt af lekafréttamennsku DV

Flosi Kristjánsson, 12.2.2011 kl. 10:08

3 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Bakþankar út af fyrirsögn: "Love means never having to say you're sorry" kemur upp í hugann. Á náttúrlega engan veginn við, en samt ...

Voruð þið Agnes ekki saman í handboltaliði á íþróttahátíð í Réttó fyrir alltof mörgum árum?

Flosi Kristjánsson, 12.2.2011 kl. 16:28

4 Smámynd: Ómar Valdimarsson

Flosi: Við Agnes Bragadóttir (og þú) vorum að vísu skólasystkin en ég komst sem betur fer aldrei í handboltalið, enda var ég alltaf logandi hræddur við að fá boltann í mig. Á síðasta ári mínu í Réttarholtsskóla voru sjö strákar í bekknum, sem sé fullt lið. Í minn stað var fengin stelpa í liðið - og enginn var fegnari en ég sjálfur.

Ómar Valdimarsson, 12.2.2011 kl. 17:54

5 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Sammála í þessu tilviki. Sorrí er ekki nóg. Og ég get sagt eins og þú, við Agnes vorum um skeið skólasystkin (samnemendur á nútímaíslensku) en aldrei í sama liði. Ég reyndi á sínum tíma að ráða hana til blaðamennsku á Vikunni (eins og fleiri) en ég hef alltaf verið lukkunnar pamfíll.

Kv.

SHH

Sigurður Hreiðar, 13.2.2011 kl. 18:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband