Hassið er vont, trúið ekki öðru

Ég hef verið svo lánsamur undanfarnar vikur að fá að taka þátt í skipulagningu og undirbúningi Álfasölu SÁÁ sem fór í gang í dag. Ég hef náttúrlega lært ýmislegt á þessum vikum og rifjað annað upp um fíknir og fíknisjúkdóma.

Það sem kom mér mest á óvart, þegar ég fór að fylgjast með þeirri umræðu eftir all langt hlé, er hvað kannabisneysla er mikil hérlendis og þá ekki síður á á hvaða skítaplani umræðan er.

Á mínum sokkabandsárum var talsvert um hassneyslu og sömuleiðis um fullyrðingar í þá veru að hass væri miklu betra en brennivín, það væri ‘hrein náttúruafurð’ og að það væri allt í lagi að reykja hass.

Um síðir áttaði mín kynslóð sig á því – margir nokkuð laskaðir af neyslunni – að hass og önnur kannabisefni væru vond efni og að það væri best að láta þau sigla sinn sjó.

Ég hafði satt að segja staðið í þeirri meiningu að þessi bitra reynsla minnar kynslóðar hefði skilað sér eitthvað áfram. Það virðist þó hreint ekki vera – talsmenn kannabis eru orðnir miklu ákafari og að sama skapi orðljótari um varnaðarorðin og þá vísindalegu þekkingu sem hefur orðið til um þessi mál á síðustu tveimur áratugum eða svo. En orðfærið er kannski tímanna tákn.

Ég rakst í kvöld inn á athugasemdakerfi Eyjunnar, þess ágæta vefs, þar sem (mestmegnis nafnlaust) fólk var að tjá sig um frétt um Álfasöluna. Þar voru hassmenn greinilega í miklum meirihluta, bálillir út í allt og alla sem ekki vilja leyfa sölu á kannabis í matvöruverslunum og ennþá reiðari út í SÁÁ fyrir að segja hreint út að hass sé ekki gott fyrir fólk og að fullyrðingar um annað séu hættuleg ósannindi.

Ég er eiginlega alveg gáttaður á þessari umræðu og um leið heldur dapur yfir orðfærinu sem rakalaust (og nafnlaust) fólk grípur æ oftar til á íslensku bloggi.

Ykkur er óhætt að taka mín orð fyrir því að hass er ekki gott efni. Svei mér, ef það er meira að segja ekki verra en brennivínið.

Og því miður leiðir hassneyslan oft til harðari neyslu. Eða eins og segir í upplýsingaefni sem hefur verið tekið saman vegna Álfasölunnar:

“Af þeim 105 unglingum sem komu til okkar (á Vog) í fyrsta sinni fyrir 10 árum og voru yngri en 20 ára, hafa (10 árum síðar) 39% sprautað vímuefnum í æð og 29% hafa gert það reglulega í einhvern tíma. 14% þessara einstaklinga hafa fengið lifrarbólgu C.”


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Ég held að hass sé lúmskt. Það er ruglar í fólki á annan hátt heldur en það heldur sjálft á meðan það notar efnið.

Fólk dofnar tilfinningalega, eða hættir að skynja viðbrögð annarra með sama hætti og það á að sér að gera. Það er slæmt.

Á hinn bóginn er umræðan um hass yfirleitt á afskaplega lágu plani af hálfu þeirra sem vilja banna. Sleggjudómar, rugl-heimildir og bull eru algengustu einkennin.

Væru menn ekki að reyna að ljúga því að fólki að hass sé ofsalega eitrað, og valdi í sjálfu sér vandræðum og leiði út í önnur efni væri umræðan mun gáfulegri.

Tímarit eins og New Scientist og fleiri eru fyrir löngu búin að upplýsa að af öllum þessum helstu fíkniefnum er hass hlægilega lítið skaðlegt og gögn um að það leiði út í önnur efni eru afar misjöfn og tölfræðin oft unnin á undarlegum forsendum.

Fólk sem leiðist út í hörð efni eins og heróín, kókaín og fleira er í vandræðum eða í mjög hörðum félagskap, það að það noti líka hass segir ekkert um hvernig hin efnin koma til sögunnar.

Ofsahræðsla og vanhugsaður áróður hjálpa ekkert í þessari umræðu. Hass verður eflaust lögleitt innan fárra ára. Það bendir allt til þess að umræðan sé almennt að færast í þá áttina. Þá mun koma í ljós að neyslan eykst lítið og að hún í sjálfu sér er minniháttar vandamál.

Sjálfum er mér nokk sama, það er langt síðan ég hætti að nenna að fikta við þetta. En þinn áróður, Ómar, er ekki mikið merkilegri en sá sem þú ert að gagnrýna.

mbk,

Kristinn Theódórsson, 21.5.2009 kl. 00:09

2 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Sæll Ómar,

Æji já, ég tek heilshugar undir þín orð, varðandi þín orð um þessi vímuefni.  Er samt tiltölulega léttúðug þegar kemur að blómunum.

Held að þetta geti ekki verið gott, enda herma fregnir nú að þessi virku efni í jurtinni hafi verið stökkbreytt af mannavöldum til þess að magna áhrifin, og nú séum við að tala um hörð efni.

Bý í landi þar sem þessar jurtir vaxa á eyjum, inn á milli skóglenda, í kjöllurum og ...... vel að merkja undir "ríkisforsjá" því sumir ræktendur, eru í raun lyfjaframleiðendur, þar sem þessu "lyfi" er ávísað til ákveðinna sjúklinga með tiltekna sjúkdóma  (gláku, krabbamein ofl.)   Það er vegna mildra aukaverkana, sem þessi lyf eru ávísuð af læknum sem unnið hafa eiðstafinn, til að lina einkenni, án brútal aukaverkana.

Tvískinnungurinn hér er þrefaldur:  dæmi,  fór á tónleika um daginn með Fleetwood Mac,  ef þú hefðir tekið blóðprufu eftir tónleikana, þá hefðu þessi efni fundist í blóðinu, án þess að ég hefði andað að mér, eða gert yfirleitt tilraun til að pukrast með kveikjara og jónu.

En það er algjörlega dauðasynd að kveikja í sígarettu inn í þessari tónleikahöll, og innan við sex metra frá inngöngudyrunum.

Það er þessi fjandans tvískynningur í allri umræðunni sem ég er ekki að skilja.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 21.5.2009 kl. 04:13

3 identicon

Tek heilshugar undir með ræðu Kristins!

 Tilgangurinn helgar ekki meðalið. Það er ótrúlegt að sama fólkið og heldur því fram (eflaust réttilega) að neysla fari vaxandi vilji verja gömlu aðferðirnar í baráttunni gegn þessu dóti fram í rauðan dauðann. Er ekki einhver mótsögn í því? Eða snýst þetta þegar öllu er á botninn hvolft um að fá meira fé í málaflokkinn.

Þá finnst mér ógeðfelld og ómerkileg þessi taktík í umræðunni sem stöðugt er gripið til ef menn vilja fitja uppá öðrum hugmyndum, eins og til dæmis þeirri að reyna að minnka eftirspurnina fremur þumbast við að eiga við vonlítilli baráttu við framboðið, að þá er þeim umsvifalaust ætlað að vera voðalega mikið fyrir hassið. Sbr: "Þar voru hassmenn greinilega í miklum meirihluta..." Þetta er alveg sama forheimskan og stílað er inná ef einhver vogar sér að gagnrýna þessi rassaköst sem nú eiga sér stað á þingi, að vilja leiða í lög að bann sé lagt við súlustöðum og kaupum á vændi (lögmenn gapa yfir vitleysunni og þetta myndi gera Ísland eitt örfárra landa í Evrópu sem það gera og nota bene í slíkum löndum eru kvenréttindi verst á veg komin) - að þá eru slíkir umsvifalaust sagðir klámhundar sem eru ægilega mikið fyrir súlustaðina og miklir áhugamenn um að kaupa sér þjónustu vændiskvenna.

En því miður er þetta einkenni umræðunnar á Íslandi í dag og mér sýnist forræðishyggju vaxa hér fiskur um hrygg og skuggalega hratt um þessar mundir.

Kveðja,

Jakob

Jakob Bjarnar (IP-tala skráð) 21.5.2009 kl. 09:31

4 identicon

Rök Þeirra sem vilja hass, um að efnið sé skaðlaust vegna þess að það er hrein nátturuafurð er álíka og að segja að höggormseitur sé skaðlaust vegna þess að það er hrein nátturuafurð

jonas (IP-tala skráð) 21.5.2009 kl. 09:59

5 Smámynd: Egill M. Friðriksson

"Og því miður leiðir hassneyslan oft til harðari neyslu. Eða eins og segir í upplýsingaefni sem hefur verið tekið saman vegna Álfasölunnar:"

Þarna er verið að búa til orsakasamband út frá fylgni en eins og þeir sem hafa stúderað tölfræði vita er að fylgni er ekki jafnt og orsakasamband. Það sem við ættum líka að vera spurja okkur er hversu margir sem reykja gras þurfa að sækja sér aðstoð á Vogi?

Af Wikipedia má finna eftirfarandi um Gateway drug theory: "No widely accepted study has ever demonstrated a cause-and-effect relationship between the use of cannabis and the later use of harder drugs like heroin and cocaine. However, the prevalence of tobacco cigarette advertising and the practice of mixing tobacco and cannabis together in a single large joint, common in Europe, are believed to be a factor in promoting nicotine dependency among young persons investigating cannabis.[43]". 

Mér finnst í góðu lagi að kynna hættur þess að ánetjast grasi. En það er aldrei skynsamlegt að ljúga að fólki um þessi efni, hvort sem það er áfengi, sígarettur eða gras. Því er best að fara með réttar staðreyndir.


Egill M. Friðriksson, 21.5.2009 kl. 10:59

6 identicon

Það er ekkert skaðlaust í þessum heimi kæru vinir. Í versta falli er Kannabisjurtin í flokki með t.d. eldspýtum, kaffi, magnyl og spilastokkum. Og vegna þess möguleika að hún gæti í einhverjum tilvikum verið skaðleg ættu að gilda einhverjar reglur um meðhöndlun hennar. Eins og gilda um aðrar vörur. Að gefa í skyn, eins og SÁÁ gerir (og þú tekur undir) að neytendur kannabis séu upp til hópa sprautufíklar með lifrarbólgu C er auðvitað endemis rugl og þvæla. Að ljúga að fólki um þetta er margfalt skaðlegra en jurt sem hefur aldrei í mannkynsögunni drepið nokkurn mann.

Árni Gunnarsson (IP-tala skráð) 21.5.2009 kl. 11:05

7 identicon

Látum okkur sjá... þú ert að vinna við þetta...
Veistu að ég þekki nokkuð marga sem hafa hætt að drekka.. reykja bara og eru fullnýtir þegnar...

ekkert er hættulaust.. en hass er tvímælaust ekki eins skaðlegt og áfengi.

DoctorE (IP-tala skráð) 21.5.2009 kl. 12:08

8 Smámynd: Ómar Valdimarsson

Það er náttúrlega alrangt að ég haldi því fram að kannabisneytendur séu "upp til hópa sprautufíklar með lifrarbólgu". Ég er hinsvegar að benda á fylgnina sem er meiri en ég hafði haldið. Mig grunar (og nú hef ég ekki gert vísindalegar rannsóknir á þessu sjálfur) að ástæðan sé ekki sú að hassistar verði vitlausir í amfetamín af hassinu sjálfu, heldur að þröskuldarnir lækki. Það var að minnsta kosti mín reynsla.

Ómar Valdimarsson, 21.5.2009 kl. 13:24

9 identicon

Áróður Ómars er nú ekkert sérlega merkilegt innlegg í umræðu sem er verulega vanþroskuð vegna vanþekkingar og fordóma.

Í fyrsta lagi hafa alkar lítið erindi til forsjárhyggju í neinskonar forvarnarmálum. Þeir hafa einfaldlega ekki þá tegund heilastarfsemi sem kallar á eðlileg eða hlutlaus viðhorf.

Áfengi er líkamlega miklu hættulegra en kannabis og skaðsemi áfengis liggur líka í stjórnleysinu. Síst eru hausarnir til vandræða í samfélaginu og þá væri betra að eiga nágranna sem pukrast með pípu yfir bíómynd, tónlist eða súkkulaði í stað þess að vera með þessar andsk. fyllibyttur sem hafa misst alla sjálfsstjórn og valta yfir nágrenni sitt.

Hassið er auðvitað alveg fyrirtaks leið til geðveiki hverskonar en það er reyndar öll fíkniefni.

En það breytir ekki því að það hefur engan tilgang að mæta þessum vanda með umræðum sem markast af fordómum.

Ef við værum á menningarlegum og neyslulegum núllpunkti gagnvart efnum í dag og þyrftum að velja eitt löglegt fíkniefni þá hugsa ég að kannabis yrði valið frekar en áfengi, en það er bara mín pæling.

Gylfi Gylfason (IP-tala skráð) 21.5.2009 kl. 13:37

10 Smámynd: Kommentarinn

Það eru til fullt af misvitrum rannsóknum á áhrifum kannabis sem voru beinlínis hannaðar til þess að fá fyrirfram ákveðna niðurstöður og hefur SÁÁ meira að segja að mér skilst birt niðurstöður slíkra rannsókna á heimasíðu sinni og ekki fjarlægt jafnvel eftir að upp komst um svindlið. Dæmi eru um að myndir af heilastarfsemi unglings sem reykti hass hafi verið notaðar í áróðurskini en síðar hafi komist upp um að myndirnar hafi verið af heilastarfsemi miðaldra karlmanns í dái. Öll umræða um þessi mál einkennast af lituðum áróðri svo það er mjög erfitt að segja hvað er satt og hvað ekki. Það hefur þó margoft verið sýnt fram á að THC er minna ávanabindandi en áfengi.

Kommentarinn, 21.5.2009 kl. 15:26

11 identicon

Ætli vænisýkin og aðrar geðraskanir séu ekki að mestu leyti orðnar til vegna þess að milljörðum króna er varið í nornaveiðar gegn þessum meinlausa hópi. Þurrir alkar vilja stundum kenna áfenginu um allar sínar misgjörðir og helst láta alfarið banna það. Skynsemin hefur hinsvegar kennt okkur að fyrir samfélagið er langbest að hafa markaðinn með áfengi skattlagðann og uppi á yfirborðinu. Það minnkar aðgengi unglinga að eitrinu og tekur til sín fjármagn sem annars rennur óskipt inn á svartann markað. Sama ætti augljóslega að gilda um kannabisefni. Þannig er líka tryggt að ekki sé búið að blanda efnið með steinolíu, malbiki og lyfjaafgöngum. Eins og innflutt hass hér áður fyrr var oft blandað. Áhrif steinolíureykinga hafa aldrei verið rannsökuð svo ég viti til. Kannski íblöndunarefnin hafi haft svona vond áhrif á þig?

Árni Briem (IP-tala skráð) 21.5.2009 kl. 15:41

12 identicon

Hass er mjög vont fyrir taugakerfið og ég þekki alltof margt hæfileikafólk sem staðnar og hefur kastað hæfileikum sínum á glæ til að geta verið skakkir í friði. Hass er sem sagt kúkur fyrir heilann.  En áfengið er verra. 90% Íslenskra fjölskyldna hafa orðið alkóhólisma að bráð.  Áfengið er ekki síst hættulegt fyrir það að vera eini leyfilegi vímugjafinn og þess vegna þykir það eðlilegt að vera í áfengisvímu. En fólk ætti að hafa val til þess að nota þann vímugjafa sem því hentar. Áfengi er ekki allra, hassið er ekki allra og kókainið er ekki allra. Það á ekki bara að leyfa neyslu á hassi, það á að leyfa neyslu af öllum vímugjöfum. Áhættuhópurinn verður alltaf sá sami og neyslan mun ekki aukast. Það er bara ótti hina fáfróðu. Ég nota enginn vímuefni í dag og það er frelsi. Neysla af þessum efnum er eingöngu til að flýja raunveruleikann. Ef fólk kýs að gera það verði því að góðu. Boð og bönn er bara af hinu illa og eru eingöngu vantraust á almenning.

Snorri Ásmundsson (IP-tala skráð) 21.5.2009 kl. 15:51

13 identicon

Vá hvað þetta er vitlaus pistill, það er vísindalega sannað með hundruðum rannsókna að Hass er minna skaðlegt líkamlega, andlega, félagslega og samfélagslega en brennivín. Þú finnur ekki skaðlegri efni en brennivín og heróín (nema kannski methamfetamín). Samkvæmt fjölda rannsókna er tóbaksneysla skaðlegri en kannabisneysla. 

Mörg lönd í Evrópu (ekki bara Holland) hafa áttað sig á hvaða skaða bannið gegn kannabis er að valda og hafa leyft neyslu á kannabis, bandaríkjamenn eru núna að átta sig líka og er verið að ræða lögleiðingu þar. 

Það er talið að bannið gegn kannabis í USA setji 38milljarða dollara í vasana á ótýndum glæpamönnum, fólk verður að átta sig að bann dregur ekki úr framboði þessara efna heldur setur peninga á vasna á glæpamönnum. 

En svo er mikilvægt að átta sig að ofneysla á hvaða efni sem er, hvort sem það eru vímuefni eða önnur fíkniefni, það veldur skaða og gerir engum gott, sama hvort efni er kannabis, áfengi eða sykur.

Mér þætti vænt um að þeir sem ætli að fræða okkur hin um skaðsemi fíkni og vímuefna geri það af smá innsýn og sé laust við fáfræði. Mér finnst það lágmarkskrafa

Bjöggi (IP-tala skráð) 21.5.2009 kl. 15:57

14 identicon

Já og það er vitað að SÁÁ styðst aðallega við úrelstar Bandarískar rannsóknir þar sem niðurstöður eru hannaðar til að þær þóknist stóru stofnunum og fyritækjum sem hafa tekjur sínar af stríðinu við fíkniefni sem hefur ekki gert neitt gagn heldur búið til frjóan jarðveg fyrir mannréttindabrot út um allan heim, þar sem aðallega er brotið á mannréttindum veikra fíkla.

Evrópskar rannsóknir hafa t.d. verið að sýna allt aðrar niðurstöður en þær Bandarísku um skaðsemi þessara efna. 

WHO hefur t.d. byrt fjöldan allan af skýrslum þar sem er farið yfir þessi mál, hvet þig til að kynna þér eitthvað af þessum skýrslum Ómar. 

Bjöggi (IP-tala skráð) 21.5.2009 kl. 16:05

15 identicon

"... að ástæðan sé ekki sú að hassistar verði vitlausir í amfetamín af hassinu sjálfu, heldur að þröskuldarnir lækki," skrifar síðueigandi og þykir mér þetta merkilegur punktur.

Margir hafa hér lagt orð í belg, talað af viti eins og með að benda á að ekki þurfi að vera samasemmerki milli fylgni og orsakasambands. Enda líklegt að allir sprautufíklar hafi fengið sér ís einhvern tíma á æfinni áður en þeir byrjuðu að sprauta sig. Þá má reyna að flækja sig út úr ruglinu með að tala um að þröskuldar lækki. En það skyldi þó aldrei vera að þessir þröskuldar lækki vegna hreinna rangfærsla og lygi sem þeir skirrast ekki við að grípa til sem halda að tilgangurinn helgi meðalið, þeirra sem vilja ala á ofsahræðslu í tilraun til að halda fólki frá þessu stöffi? Því fanatíkerarnir hafa stillt þessu upp þannig með ofstæki sínu að þeir sem asnast til að prófa þetta hafa nánast sagt sig úr lögum við samfélagið. Þá náttúrlega lækka allir þröskuldar.

Og af gefnu tilefni, þá er ég á engan hátt að mæla með neyslu kanabisefna.

Bestu kveðjur,

Jakob

Jakob Bjarnar (IP-tala skráð) 21.5.2009 kl. 22:16

16 Smámynd: Óskar Arnórsson

Stórmerkileg "vísindi" þó ég taki undir að neysla á hassi er lúmsk og stórhættuleg. Vísindi Þórarins Tyrfingssonar gef ég ekkert fyrir. Það er er bara hlátursefni fyrir mig að hlusta á hann.

Amerísk vísindi eru vægast sagt varhugaverð og eru úrelt eins og einhver sagði hér að ofan. 12.spora kerfið er orðin eins og trúarvitleysa og staðreyndin er að Ísland er aftast á merini í meðferðarúrræðum.

Ég fór sjálfur í meðferð á Silungarpolli, illa farin eftir cannabissneyslu blönduðu með ópúmi. Þar var ég kallaður alkahólisti. Allt er sett undir sama hatt.

Ef þú Ómar kíkir á www.leap.cc þá færðu reynslusögu frá lögreglumönnum, saksóknurum, og dómurum um neyslu á marijuana. Ég þekki SÁÁ síðan 1982. 

Gras og hassneysla eldist af flestum. Neyslufólk er hægt að skipta í 3 hópa.

1. Addiction Personality

2. Abusing Personality

3. Selvmedication Personality oft tengt Trauma.

Ef ég þyrfti að senda einhvern í meðferð sem mér væri kærkomin, myndi sá hinn sami fara beint til Kanada. sem eru komnir lengst í heimi í meðferðarmálum.

Ef ég neyddist til að senda einhvern í meðferð á Íslandi, myndi ég senda hann til Krýsuvíkur frekar enn á vog. 

Vogur er fjölskyldufyrirtæki Þórarins Tyrfingssonar þó hann hafi tekið upp sjúkdómshugtakið til að fá Vog stimplaðan sem spítala. 

Blesaður vertu ekki að blanda saman hassi og marijuana! Það er eins vísindalegt og að segja að hvítur sykur og sykur í kartöflum og ávöxtum sé það sama. 

Ég hef aldrei notað neitt efni nema kannabis, og varð ég mjög veikur vegna aukaefna eins og ópíum sem var settí það vegna þess að nýtt hass er oft blandað í þetta svo hægt sé að selja það.

Ég hef verið kennari í einum stærsta ráðgjafaskóla á Norðurlöndum í 10 ár og þar er ekki svona vitleysa og amerískur áróður notaður.

Ég styð nú reyndar SÁÁ. Smá dæmi um vinnubrög "sérfræðinga" Vogar. Ég hafði mikið fyrir að koma ungri stelpu á Vog sem er sprautufíkil og extasyneytandi. Hún er sett í grúppu með strákum sem líka nota extasy.

Og hvað skeði þá? Þau voru staðin að því að vera í kossaflensi og kanski einhverju meira, og "ráðgjafahálvitinn" rak þau bæði úr meðferðinni! 'eg hef verið forstöðumaður á svo mörgum meðferðarheimilum að ég hefði rekið ráðgjafan! 

Að blanda saman strákum og stelpum á sama stað, í svona neyslu gera bara þeir sem ekkert vita, fylgjast ekki með þróun utan fyrir landsteinanna og eru bara kjánar.

Þetta er krítik á Vog sem meðferðarstöð, enn ekki þig sjálfan persónulega. Enn hass á engan rétt á sér sem söluvara á Íslandi nema undir stjórn yfirvalda. Hass er og verður staðreynd hvorst sem fólki líkar betur eða ver, og það ætti að skoða þessi mál í öðru ljósi enn "gervivísindi" úr kokkabókum Þórarins Tyrfingssonar. Grettir er hinsvegar ágætur.

Ég veit allt um gömlu bardaganna um formenn SÁÁ, eins og Binna Blóm (sem átti Alaska og stal af mér fleyri milljónum) Óttari Guðmundsyni sem er mikli hæfari enn Þórarinn, því hann kann þetta.

Það vinnur engin heilbrigður maður í meðferðarmálum og sér í lagi ráðgjafar. Ég sjálfur er það meðtalin að sjálfsögðu.

Svo nenni ég ekki að skrifa meira. Er að jafna mig eftir fimmtu húðkrabba skurðaðgerðina, orðin of gamall í þessa ruglvinnu. Að vísu hef ég aðallega unnið með heróínista, GHB og MDMA-ista. 

Jaba, Ice, heróín og fentalínduft frá Rússlandi er komið til Íslands, og hvað kann Vogur um þau mál? Ekki neitt! Suputex og skyld morfínefni fyrir cantalginfíkla.

Þórarinn var morfínisti enn ekki alkhólisti. Þess vegna missti hann læknaleyfið á sínum tíma. Aldrei hef ég kallað Þórarinn hassista, enn hann kallar ALLA alkhólista.

Ég veit alveg hvaða álit Þórarinn hefur á mér. Og er skítsama. Mátt segja honum líka að mér tókst að fá afrit af skjalfestri lýgi hans til Siglingarmála stofunar TR, sem hann neitaði í mðrg ár. Og eyðilagði með ferðfyrir einn fárveikan fíkil með bulli og blaðri og ég var fyrir 6 milljóna króna tjóni af hans völdum. Ég hef bara ekki haft tíma til að stefna honum.

Þessum afritum stal ég nú reyndar...

Á maður ekki allaf að segja eins og er annars? Það sagði Þórarinn alla vega á fyrirlestrum 1982...ég ætla að fá mér Heineken með hádegsmatnum...  

Óskar Arnórsson, 22.5.2009 kl. 06:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband