'Tilgangslausar frægðarhórur'
30.3.2011 | 13:47
Stundum les ég eitthvað sem hittir svo rækilega í mark að ég óska þess að ég hefði skrifað það sjálfur.
Þessi grein úr Reykjavik Grapevine er dæmi um það: http://grapevine.is/Features/ReadArticle/A-FOREIGNERS-GUIDE-TO-THE-CONFUSING-WORLD-OF-ICELANDIC-CELEBRITIES
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Aftur í stríð
21.3.2011 | 17:44
Ég hjó eftir því í dag að Össur utanríkisráðherra Skarphéðinsson sagði það vel koma til greina að Íslendingar myndu styðja við hernaðaríhlutun Vesturveldanna í Líbýu.
Það kann svo sem að vera að ég hafi misst af umræðum á Alþingi um þetta mál og hugsanlega þátttöku Íslendinga í hernaði gegn Líbýumönnum að það sé búið að ræða það í þaula að okkar friðsama þjóð við ysta haf skuli nú í stríð suður í Afríku. Það væri þá ekki í fyrsta sinn sem ég missti af slíkum stórtíðindum.
En var það ekki einmitt þetta sama lénsherraviðhorf sem gerði okkur samsek um hernað Ameríkana og bandamanna þeirra í Írak að forustumenn ríkisstjórnarinnar sem þá var ákváðu að við skyldum vera með og spurðu hvorki kóng né prest? Er þetta ekki annars sá sami Össur sem hefur verið að leita árangurslítið í skjalasöfnum stjórnarráðsins að pappírum sem skýra aðdraganda þess hernaðarævintýris okkar?
Þá er að vona að hann skjalfesti þessar hugmyndir sínar nú vel og vandlega svo að eftirmenn hans þurfi ekki að leita lengi og árangurslaust í skjalageymslum ráðuneytisins þegar hernaðurinn verður erfiður og óvinsæll.
Gaddafi ofursti er sjálfsagt ekki síðri skúrkur en Saddam sálugi Hussein. En það er bara allt annað mál.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ekki hlustað
11.3.2011 | 10:14
Alistair Darling fyrrum fjármálaráðherra Breta lýsti því skilmerkilega í viðtali við Sigrúnu Davíðsdóttur í Sjónvarpinu í gærkvöld að ekkert hefði verið að marka Íslendinga í aðdraganda hruns bankanna. Þeir hefðu ekkert skilið og enn síður hlustað.
Hann hlýtur að hafa sannfærst endanlega um það í viðtalinu að það væri þjóðareinkenni á Íslendingum að hlusta ekki á viðmælendur sína því engu var líkara en að Sigrún hlustaði alls ekki á það sem hann sagði. Hún endurtók spurningar sínar með mismunandi orðalagi og uppskar að vonum sömu svörin. Aftur á móti sleppti hún fjölmörgum gullnum tækifærum til að fylgja eftir spurningum eða bregðast við því sem Darling var að segja.
Það var í rauninni alveg furðulegt að fylgjast með svona fúskaralegum vinnubrögðum.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Það er vandlifað
7.3.2011 | 21:27
Ekki er góður kostur að versla við Arion eða Íslandsbanka þar sem topparnir hafa enga siðferðisvitund.
Ekki verður freistandi að halda áfram að versla við MP banka eftir að menn með vafasama fortíð ná þar yfirhöndinni. Hver fer maður þá með sín viðskipti? Í Byr? Ha ha ha!
Ekki er gott að ferðast úr landi með Iceland Express augljóst hvers vegna ekki.
Ekki er gott að taka mikið mark á DV eða Pressunni sem fjalla glæpamenn og óþokka eins og þeir séu þjóðhetjur.
Ekki er gott að treysta um of á Moggann sem birtir lygafréttir og lætur eins og ekkert hafi í skorist.
Á maður þá að binda trúss sitt við 365 miðla í staðinn? Æ, varla.
Hæpið er að treysta um of á Alþingi það dugar að fylgjast með umræðum um fundarstjórn forseta eða eitthvað slíkt í 10 mínútur til að fá uppí kok.
Á ég að kaupa mér timbur í Húsasmiðjunni sem er í eigu ríkisins og beitir hundakúnstum í samkeppninni eða á ég að kaupa skrúfur í Byko fyrir fimm þúsund krónur pakkann?
Á ég að kaupa bensín hjá Orkunni eða Skeljungi? Æ, sama fyrirtækið. Vond fortíð. Veit ekki einu sinni hver á þetta núna enda skiptir það varla máli.
Á ég að taka mark á hámenntuðum sérfræðingum sem segja í sjónvarpinu að gufan dugi ekki nema í 50 ár og láta þar með eins og það muni aldrei rigna á Íslandi framar?
Er einhverjum eða einhverju að treysta yfirleitt?
Það er skítalykt af þessu öllu saman. Því er nú ver og miður.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Skinkur og skynsemi
24.2.2011 | 00:05
Sjónvarp færði okkur í kvöld það besta og það versta í fréttatengdu efni.
RÚV fór firnavel af stað með þáttaröðina Hvert stefnir Ísland? Málefnalegar umræður þar sem hugmyndir eru ræddar en ekki sérhagsmunir. Þátttakendur vel að sér, spurðu og svöruðu vel, þóttust ekki vera eitthvað annað en þeir eru. Mikið skelfing var þetta góð tilbreyting!
Það versta var svo í Ísland í dag á Stöð 2 þar sem talsverðum tíma var varið til að tala við tvö stelpubimbó (yngra fólk segir mér raunar að bimbó sé úrelt, nú sé talað um skinkur) um ja, að ég hafi skilið það sennilega hvort það væri til nóg af flottu fólki til að koma með þeim í partí. Þetta hefur tröllriðið sumum vefjum undanfarna daga og kemst þó þar víst ekki í hálfkvisti við það sem á gengur á Feisbúkk, þar sem ég er ekki.
Nógu vitlaust er nú hjá skinkunum að vera að þessu yfirfirrta rausi, enn verra að fjölmiðlar sem vilja láta taka sig alvarlega skuli verja til þess tíma.
Hvernig stemning ætli sé fyrir skinkupartíinu í Grímsey?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Grenjuskjóður
16.2.2011 | 23:24
Meiri grenjuskjóðurnar þessir níumenningar. Hundleiður á þessu!
Allt frá upphafi þessa máls (sem sennilega hefði aldrei átt að fara af stað) hefur hópurinn verið volandi og sífrandi um píslarvætti sitt og þeir sem ekki hafa tekið undir hvert orð eru úthrópaðir sem kerfissnatar og þaðan af verra. Nú hefur verið gefin út allsherjar fordæming á Alþingi, ríkissaksóknara, dómstólum, fjölmiðlum og...ábyggilega miklu fleirum.
Hvaða hvaða!
Ef byltingarmenn eru ekki til í slaginn allt til enda, þá eiga þeir ekki að fara af stað.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Kerfið virkaði
14.2.2011 | 17:06
Man ég það ekki örugglega rétt að ríkisvaldið hér á að vera þrískipt? Löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald, ekki satt?
Og þetta á allt að virka saman. Þannig að ef fulltrúi framkvæmdavaldsins fer ekki eftir reglunum sem löggjafarvaldið setur, þá kemur til kasta dómsvaldsins.
Það má vel vera að Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra sé andvíg hverskonar virkjunum og vilji láta auðlindirnar ónýttar. Það er hennar mál. Sjálfum finnst mér eðlilegt að nýta auðlindirnar í þágu fólksins í landinu, svo fremi það eyðileggi ekki landið í leiðinni. Oft verður landslag heldur fallegra þegar eitthvað er búið að byggja í því, þótt á því séu vitaskuld margar undantekningar.
En ég sé ekki ástæðu til að vera með hamagang út í Svandísi þótt Hæstiréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu að henni hefði borið að staðfesta skipulag virkjana austur í sveit. Hún var með einhverjar efasemdir um það og þá var dómsvaldið látið komast að endanlegri niðurstöðu, sem sé þeirri að hún hafi haft rangt fyrir sér. Það er ekki bannað.
En er það ekki einmitt þetta sem við viljum - að kerfið virki?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sorrí dugar ekki
11.2.2011 | 16:35
Á Morgunblaðsárum mínum gerðist það að blaðið birti frétt með röngum upplýsingum. Þær höfðu komið frá ónafngreindum heimildarmanni sem blaðið hafði treyst fram að því. Þegar uppvíst varð um lygina var rækilega frá því sagt í blaðinu og þess getið, minnir mig, að blaðið myndi framvegis ekki treysta viðkomandi. Þetta þótti hið versta mál enda keppti Morgunblaðið á þeim tíma einarðlega að því að vera ábyggilegt fréttablað. Menn vildu umfram allt geta staðið á því að Mogginn lygi ekki.
Nú hefur það gerst í fyrsta sinn (í að minnsta kosti þau rúmlega 40 ár sem ég hef vandlega fylgst með fréttum á Íslandi) að Morgunblaðið hefur neyðst til viðurkenna, m.a. í heilsíðuauglýsingum í tveimur samkeppnisblöðum, að burðarfrétt úr blaðinu hafi reynst uppspuni.
Mogginn skuldar okkur meira en þetta. Í fréttinni sjálfri 31. janúar sl. var engra heimildarmanna getið. Nú þarf Mogginn að upplýsa hvernig uppspunafréttin um lögreglurannsóknina á tölvumálinu ógurlega og aðild DV að því varð til. Var fréttin vísvitandi skáldskapur frá upphafi til enda eða lét blaðið ljúga svona að sér? Hvað ætlar Morgunblaðið að gera til að tryggja að lesendur megi ekki eiga von á fleiri fréttum af þessu tagi?
Sorrí er einfaldlega ekki nóg.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Með bókstafinn að vopni
10.2.2011 | 12:00
Ekki veit ég nákvæmlega hvenær það gerðist en með þessari þjóð hefur orðið eitthvert ógnarlegt siðrof. Ekki bara ólukkans bankaræningjunum heldur miklu fleiri. Munurinn á réttu og röngu virðist vefjast fyrir ótrúlegasta fólki.
Nú síðast er það nýi bæjarstjórinn í Kópavogi sem til þessa hefur haft á sér gott orð fyrir að hafa verið skilvirkur embættismaður en er allt í einu dottinn í fúlapytt einkahagsmuna og vísar í bókstafstúlkun lagatækna til að verja sig.
Guðrún bæjarstjóri Pálsdóttir hefur sem sé haft bíl bæjarins til umráða og ekkert við því að segja. En svo lætur hún dóttur sína nota bílinn og heldur því nú fram að í ráðningarsamningi standi ekkert um að bíllinn megi ekki notast af öðru fólki en þeim sem ráðningarsamningurinn gildir um, þ.e. sjálfri sér.
Hvaða rugl er þetta? Hvers vegna þarf það að vera flókið mál að bíll bæjarins, sem settur er undir bæjarstjórann svo hann komist leiða sinna, er ekki jafnframt fjölskyldubíllinn hennar? Jafnvel þótt ráðningarsamningurinn taki það ekki fram.
Þetta er í rauninni sáraeinfalt mál og snýst um rétt og rangt. Það er rétt að láta bæjarstjórann hafa bíl en það er rangt að láta aðra nota bílinn eins og um einkabíl væri að ræða og nota sjálf aðra bíla bæjarins á meðan. Hvað er svona flókið við það?
Vorum við Kópavogsbúar ekki einmitt að losa okkur við þaulsetinn bæjarstjóra sem lét muninn á réttu og röngu vefjast fyrir sér? Varla var það til þess eins að nýr bæjarstjóri gæti tekið við með bókstafinn að vopni og siðferðið útí móa.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Amerískt trúarofstæki kostar mannslíf í Uganda
27.1.2011 | 12:20
Ofstæki hómófóba í Úganda hefur nú kostað þarlendan baráttumann lífið, sbr. þessa frétt úr Mogganum í morgun: http://mbl.is/frettir/erlent/2011/01/27/barattumadur_fyrir_rettindum_samkynheigdra_myrtur/.
Það er ekki í fyrsta sinn sem blóði er úthellt vegna óþols gagnvart skoðunum eða lífsmáta og verður sjálfsagt ekki það síðasta heldur.
Þetta kom mér sannast sagna ekki sérlega mikið á óvart, það er mikið um trúarlegt ofstæki í Afríku og hommar og lesbíur í Úganda (og fleiri Afríkulöndum) hafa að undanförnu mátt sæta ótrúlegri framkomu. En ég vissi ekki fyrr en ég datt niður á það, að það eru amerískir trúarofstækismenn sem standa á bak við herferðina gegn samkynhneigðum í Úganda, sbr. þessa frétt úr New York Times: http://www.nytimes.com/2010/01/04/world/africa/04uganda.html
Ameríkanar af þessu tagi, og raunar þarlend stjórnvöld líka, hafa lengi verið í stríði við saklaust fólk í Afríku. Þróunaraðstoð bandarískra stjórnvalda á sér jafnan pólitísk markmið sem sveiflast upp og niður eftir stemningunni heima fyrir. Opinberu amerísku fé sem varið er til baráttunnar gegn eyðni hefur t.d. ekki mátt verja til að kaupa smokka eða annað það sem gæti raunverulega dugað til að hefta útbreiðslu kynsjúkdóma - en þess heldur til að hvetja fólk til að gera ekki hitt.
Hvað sagði ekki Tómas Guðmundsson: Því meðan til er böl sem bætt þú gast,og barist var á meðan hjá þú sast,er ólán heimsins einnig þér að kenna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)