Færsluflokkur: Dægurmál
Ari fattar þetta ekki
22.2.2013 | 08:21
...varðandi afskipti af einstökum fréttum eða það að stjórn félagsins eigi ekki að hafa nein afskipti af ritstjórnarvinnu að þá er ég alls ekki sammála því að það sé svo. Auðvitað er það stjórnar þessa fyrirtækis að ákveða það hvers lags miðla við viljum gefa út. Þess vegna er eðlilegt að stjórnin tali til miðlanna með almennum hætti og helst með skriflegum hætti. Það er það sem við teljum okkur hafa gert með siðareglum sem stjórn félagsins setti í júní 2009 fyrir allar ritstjórnir 365 miðla.
Ari Edwald í Mbl. 21. feb. 2013.
Það er vitaskuld rétt hjá Ara Edwald að það er hlutverk eigenda og stjórnenda fjölmiðla að ákveða hvers konar fjölmiðla þeir vilja reka. Það er einnig rétt hjá honum að það sé eðlilegt að stjórnin tali til miðlanna með almennum hætti.
En hann flaskar á hinu raunverulega grundvallaratriði frjálsrar fjölmiðlunar þegar hann segir jafnframt: ...varðandi afskipti af einstökum fréttum eða það að stjórn félagsins eigi ekki að hafa nein afskipti af ritstjórnarvinnu, að þá er ég alls ekki sammála því...
Þarna liggur rökvilla Ara og annarra eigenda 365, rökvilla sem er hættuleg fyrir frjálsa fjölmiðlun og frítt upplýsingastreymi. Eftir að eigendurnir hafa ákveðið hvers konar fjölmiðla þeir hafa rekið og sett ákveðnar reglur um það (eins og t.d. með siðareglunum frá 2009), þá ráða þeir fólk til að sjá um reksturinn væntanlega besta fólk sem er á lausu hverju sinni. Við það á að sitja, ekki síst þegar um er að ræða jafn viðkvæma og félagslega mikilvæga starfsemi og fréttaöflun og miðlun. Ritstjórinn einn verður að fá að ráða hvað er frétt og hvað ekki. Góður ritstjóri metur það á faglegum forsendum blaðamennskunnar, ekki út frá raunverulegum eða ímynduðum hagsmunum eigendanna. Viðskiptafræðingar og sölumenn í markaðsdeildinni eiga að sinna sínu fagi, blaðamennirnir á ritstjórninni eiga að sinna sínu. Stjórnarmenn í raunverulegu eða ímynduðu stríði eiga ekki að ákveða innihald frétta og enn síður ef fréttirnar snúast um þá sjálfa.
Ef eigendurnir eru óánægðir með blaðið sitt (eða útvarps- eða sjónvarpsstöðina) þá geta þeir sem best skipt um skipstjóra. Það gerði Mogginn undir nýjum eigendum og hafði til þess fullan lagalegan rétt. Eigendurnir ráða þá einhvern í staðinn sem þeir telja að muni fylgja fram hugmyndum þeirra. Hættan er þá vitaskuld sú, eins og dæmin sanna, að hugmyndir eigendanna um hagsmunavörslu stangist á við eðli fréttamennsku og frjálsrar fjölmiðlunar. Lesendur eru ekki fífl, þeir eru fljótir að átta sig á því hvort ástæða er til að taka fjölmiðil alvarlega og fjölmiðill sem ekki er tekinn alvarlega (fyrir sinn hatt, hver sem hann kann að vera) á sér ekki gifturíka framtíð.
Ritstjórnarlegt frelsi er nefnilega ekki bara frasi fyrir hátíðarræður, það er hluti af sjálfum grundvelli lýðræðissamfélagsins. Það er vont ef stjórnendur fjölmiðla fatta það ekki.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Auglýsingaherferð og lygasögur
7.9.2012 | 21:00
Ég hef á tilfinningunni að það sé verið að narra okkur. Fyrir nokkrum mánuðum fóru að berast af því fréttir að talið væri að íslensk kona hefði verið drepin í USA fyrir nokkrum áratugum. Þetta var í blöðum og sjónvarpi og allt heldur óhugnanlegt. Svo komu fyrir tveimur vikum eða svo fréttir af því að sennilega hefði þessi kona ekki verið drepin heldur flutt sig á milli ríkja, gifst aftur og lifað hamingjusöm til æviloka.
Nú dúkkar allt í einu upp umfjöllun í Kastljósi með viðtali við stjúpdóttur konunnar sem hefur skrifað bók um allt saman og þekkir söguna frá upphafi til enda. Hún vissi alla tíð að ekkert morð hafði verið framið. Og svo sá maður ekki betur í Kastljósi en að bókin væri til í íslenskri útgáfu.
Hér hefur einhver slyngur útgefandi fengið fjölmiðla í lið með sér við að búa til mikið og væntanlega ókeypis söluátak.
Hvers vegna fær maður ekki söguna alla? Hver bjó til þessa atburðarás og hvers vegna létu útvarp, sjónvarp, Stöð 2, DV, Mogginn og einhverjir fleiri fara svona með sig? Og fara svona með okkur sem enn gerum okkur vonir um að fjölmiðlar séu ekki auglýsingastofur?
Ekki að undra að útgefandinn vísi hróðugur í alla fjölmiðlaumfjöllunina í auglýsingum sínum!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Enginn er fyndnari en Guðni
16.4.2012 | 15:13
Það er talsverð kúnst að flytja skemmtilegar tækifærisræður, svo ekki sé nú talað um að vera svo skemmtilegur að fólk veltist um af hlátri. Það er fáum gefið. Skemmtilegasti maður sem ég heyri flytja tækifærisræður er Guðni Ágústsson fyrrum ráðherra. Hann getur verið alveg drepfyndinn.
En aldrei hefur hann verið eins fyndinn eins og þegar hann segir í viðtali við DV í gær að forseti lýðveldisins hafi verið eini maðurinn sem hafi þorað að rísa gegn fjármálavaldinu. Ég er búinn að fá magaverk af hlátri yfir þessu, ef ekki bara magasár. You're killing me, eins og þeir segja fyrir westan. Bara ef Rannsóknarnefnd Alþingis hefði haft snefil af kímnigáfu Guðna Ágústssonar þegar hún sagði sína eigin brandara í Skýrslunni góðu:
Forsetinn kom ekki að stjórnvaldsákvörðunum en hann ber ásamt fleirum siðferðilega ábyrgð á því leikriti sem leikið var í kringum foringja útrásarinnar og fyrirtæki þeirra. Þau reyndust ekki vera í neinu frekar en keisarinn í sögu H.C. Andersen. Ljóst má vera að forsetinn gekk mjög langt í þjónustu við einstök fyrirtæki og einstaklinga sem stýra þeim eins og hann hefur sjálfur viðurkennt nokkrum sinnum eftir hrunið.
Forsetinn beitti sér af krafti við að draga upp fegraða, drambsama og þjóðerniskennda mynd af yfirburðum Íslendinga sem byggðust á fornum arfi. Það er athyglisvert að nokkrir þeirra eiginleika sem forsetinn taldi útrásarmönnum til tekna eru einmitt þeir þættir sem urðu þeim og þjóðinni að falli... Þrátt fyrir að kenningar forsetans væru harðlega gagnrýndar hélt hann áfram að lofa útrásina.
DV segir svo frá um helgina: Þá gagnrýnir nefndin að forsetinn hafi margsinnis þegið boð útrásarfyrirtækja um að vera við opnun nýrra útibúa eða höfuðstöðva erlendis. Hann hafi flutt erindi á viðskiptaþingum sem voru skipulögð af bönkum og skrifað fjölda bréfa í þágu fyrirtækja og einstaklinga til erlendra viðskiptamanna. Nefndin segir að það samræmist illa hlutverki þjóðhöfðingja að hann gangi beinlínis erinda tiltekinna fyrirtækja eða einstakra fjárfesta. Útrásarmenn hafi verið tíðir gestir í boðum á Bessastöðum og jafnvel verið skipulögð sérstök boð fyrir þá og fyrirtæki þeirra.
Nei, nú er komið nóg, Guðni Ágústsson. Maður verður að fá tíma til að anda á milli brandaranna hjá þér.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Falleraðir ráðherrar í fýlu
2.4.2012 | 23:27
Ég lenti í úrtaki skoðanakönnunarinnar 2009 sem vitnað hefur verið til í kvöld - þegar ríkisstjórn Geirs Haarde var í andarslitrunum. Ég kaus ekki þá stjórn (frekar en aðrar) en man eftir að hafa svarað því til að ég styddi þá ríkisstjórn - ekki vegna þess að ég væri hrifinn af henni heldur vegna þess að ég sæi ekki að maður ætti aðra kosti í stöðunni: allt var á beinni leið til fjandans og þá fannst mér ósanngjarnt að sparka í liggjandi fólk.
Svo var sem betur fer skipt um stjórn sem síðan hefur mokað skítinn daga og nætur við litlar vinsældir og enn minni þakkir. Það eru ekki nema þrjú ár síðan - og nú er endurreisnarstjórnin í svipaðri stöðu. Að mörgu leyti getur hún sjálfri sér um kennt. Ástandið þar innanbúðar virðist vera hið sama og úti í samfélaginu: hver höndin upp á móti annarri og þegar einn talar í austur talar sá næsti í vestur eða út og suður (sem er raunar algengara). Og þegar stokkað er upp í ríkisstjórninni, sem er óhjákvæmilegur fylgifiskur kerfisbreytinganna sem verið er að gera, þá eru falleruðu ráðherrarnir umsvifalaust komnir í bullandi fýlu og stjórnarandstöðu og eru með tóma stæla. Það þarf engin nöfn að nefna hér! Þetta er náttúrlega enginn manér en sýnir hvað þetta eru litlir karlar.
Ég hef áður nefnt það hér að endurnýjunin á Alþingi í kosningunum 2009 hefur reynst fullkomlega misheppnuð. Það er rétt hjá Davíð Oddssyni í viðtali við skólablað Verzló að það er óvenju lélegt núna mannvalið á þingi og vitsmunalegar umræður þar fágætar, svo ekki sé meira sagt. Það er þinginu sjálfu að kenna og því ekki að undra að ekki nema tíundi hver kjósandi beri traust til stofnunarinnar sem er náttúrlega hrikalegt ástand og hættulegt. Það ástand batnar ekki fyrr en menn hætta að moka stöðugt yfir þá sem eru þó að moka flórinn. Það gildir um Alþingi og það gildir um okkur hin.
Sanngirni er nefnilega af hinu góða.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þjóðin...
29.3.2012 | 00:49
Tvennt:
Ég held að það sé góð hugmynd að viðhafa þjóðaratkvæði um stjórnarskrárdrögin - vegna þess að þau eru skjöl í vinnslu, eins og Birgir Ármannsson orðar það. Einmitt þá: því skyldi ekki þjóðin sjálf hafa eitthvað um þetta ferli að segja? Ekki hefur þinginu tekist að koma þessu máli áfram - fyrr en kannski núna.
Og svo hitt: ekki er ég alveg sáttur við þá kröfu LÍÚ að við lagfæringar á kvótakerfinu eigi að hafa hagsmuni greinarinnar í fyrirrúmi. Er þetta ekki einhver misskilningur? Eiga ekki hagsmunir þjóðarinnar að koma fyrst? Eða eigum við ekki fiskinn í sjónum öll saman? Auðvitað á að taka tillit til hagsmuna greinarinnar en hún á ekki að ráða för.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Dýrkun hrottanna
23.3.2012 | 14:02
Allt er breytingum undirorpið - líka lögin og framkvæmd þeirra. Nú er komið á daginn að gæsluvarðhaldsfangar - fólk sem á að vera í einangrun svo það geti ekki haft samband út og suður - má veita blaðaviðtöl, sbr. þetta sem DV segir frá í dag.
Veit ríkislögreglustjórinn af þessu? Eða lögreglustjórnn á höfuðborgarsvæðinu? Eða sjálfur dómsmálaráðherrann?
Kannski má þetta núorðið. Hvað veit ég?
Hitt þykist ég vita að það getur ekki verið heilsubætandi að fjalla um hættulega ofbeldismenn, sem nú eiga að vera í einangrun, eins og þeir séu einhverjar hetjur. DV hefur dálítið verið að gera að því - eða er ég eini maðurinn sem hefur hikstað yfir glaðbeittum fermingardrengjamyndum af hrottum á borð við Jón "stóra", Annþór handrukkara og fleiri?
Það er ekki skrítið að það fjölgi stöðugt í þessum óþverragengjum. Ekki nóg með að þar fái ungir bjánar útrás fyrir ofbeldisþörf sína, þeir geta líka orðið frægir í DV!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sleikmeistarar
15.3.2012 | 23:46
Sigga Dögg kynfræðingur segir frá því í grein í Fréttablaðinu í dag að á meðan hún vann í fjármálatæki fyrir Hrun hafi skrifstofupartí verið öflugur vettvangur undirmanna til að fara "í sleik" við yfirmenn. Eða öfugt.
Mér þykir þetta ekki mikið. Ég þekki ólygna unga konu sem var við eftirlit á grunnskólaballi á dögunum. Þar var mikið farið í sleik, segir hún mér, enda þetta árlega ball kallað sleikballið.
Viltu fara í sleik við vin minn? var kannski spurt. Ókei. Og svo smullu þau saman í sleik og fóru síðan hvort í sína áttina.
Mér er sagt að á þessu sama balli fyrir ári síðan hafi verið sett met: einn nemandi fór í 54 sleika á sama ballinu. Hann á væntanlega glæsta framtíð í fjármálageiranum.
Dægurmál | Breytt 16.3.2012 kl. 10:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Doh!
1.3.2012 | 22:29
þessi frétt var á RÚV vefnum í kvöld:
Einar K. Guðfinnsson og þrettán aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og utan flokka hafa lagt fram tillögu á Alþingi um aukin áhrif Íslands á mótun og töku ákvarðana á vettvangi Evrópusamstarfs. Vilja þingmennirnir að efla beri þátttöku stjórnmálamanna og embættismanna í hagsmunagæslu tengdri Evrópusamstarfi. Segja flutningsmenn að því hafi verið haldið fram að með því samstarfi, sem nú fari fram á grundvelli EES samningsins, hafi Íslendingar takmörkuð áhrif og megi lúta því að taka við tilskipunum og ákvörðunum frá Evrópusambandinu án þess að geta lagt mikið til málanna. Því þurfi að breyta.
Doh! Auðvitað! Auðvitað er betra að vera við borðið en á biðstofunni. Segir sig sjálft.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tímasetning lögreglumanns
26.2.2012 | 23:50
Ef það er rétt hjá Geir Jóni Þórissyni löggu að þingmaður eða þingmenn hafi stjórnað því sem kallað var árás á Alþingi í ársbyrjun 2009, þá þarf náttúrlega að upplýsa hver eða hverjir voru þar að verki. Í hverju fólst þessi stjórn og hvernig var við henni brugðist?
Um leið þarf náttúrlega að leiða í ljós raunverulega ástæðu þess að Geir Jón er núna fyrst að segja þessa sögu og ef ég tók rétt eftir Sjónvarpsfréttum í kvöld lét hann einnig hafa eftir sér að á sínum tíma hefði verið ákveðið að hafast ekki frekar að. Hver ákvað það, hvenær og hvers vegna?
Eins og margir aðrir dáðist ég oft að Geir Jóni fyrir stillingu og prúðmennsku í störfum. En mér finnst þessi tímasetning hans sérkennileg. Er hægt að ætla svona prúðum manni svo misjafnt að frásögnin sé innlegg í kosningabaráttu um varaformannssæti í Sjálfstæðisflokknum?
Skoðun á þessu máli sem nú hlýtur að fara fram hlýtur að leiða það í ljós. Nei, verður að leiða það í ljós.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Tímasetning lekans
21.2.2012 | 16:01
Enn eitt dæmið um hvernig mál rata í fréttir vegna þess að einhver hefur af þeim greinilega hagsmuni: frásögn DV af skuldamálum Ástráðs Haraldssonar lögmanns í Glitni.
Dettur einhverjum í hug að tímasetningin á þessum leka hafi verið tilviljun? Að hann hafi ekki verið hugsaður sem innlegg í umræðuna um yfirvofandi brottrekstur forstjóra FME?
Enn meiri ástæða fyrir almenning að reyna að átta sig á hvers vegna tilteknar fréttir birtast á tilteknum tíma.
Hagsmunirnir sem verið er að verja hér eru ekki hagsmunir almennings. Hér er í gangi eitthvert spil sem venjulegt fólk kann ekki skil á og er ekki ætlað að skilja.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)