Skrípaleikur og ómark

Eftir yfirlegu hef ég komist að þeirri niðurstöðu að ég skuli ekki ómaka mig við að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni um IceSave. Til hvers væri það? Segja nei eða já við lagasetningu sem þegar er orðin ómark?

Það furðulega er að ég er enn að hitta fólk sem ætlar að greiða atkvæði gegn lögunum frá 30. desember og telur að með því sé það að neita að borga. Ábendingar um annað komast aldrei inn í hausinn á þessu fólki. 

Þjóðaratkvæðagreiðslan verður því aldrei annað en skrípaleikur og ómark. Það liggur þegar fyrir að við getum fengið miklu betri díl (60-70 milljarða afsláttur er ágætur díll í mínum huga) - en það er jafn líklegt að það skipti engu máli þegar til kastanna kemur vegna hinnar svokölluðu þverpólitísku samstöðu.

Ææ, þetta verður stöðugt raunalegra og meiri auðmýking fyrir þessa þjóð. Auðmýkt er góð, auðmýking er síðri.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Þetta er birtingarmynd þess hve vel stjórnarandstöðunni (innan og utan stjórnarliðsins) hefur tekist að rugla þjóðina. Sumir halda enn að samningarnir um hvað og hvernig skuli borga snúist um að borga ekki. Þetta er stefna Sigmundar Davíðs.

Sjálfur sé ég ekki mikinn tilgang í því að eyða 200 milljónum (það er víst verðið á einni þjóðaratkvæðagreiðslu) í kosningu um mál sem er komið í annan farveg.

Væntanlega sit ég heima.

Hjálmtýr V Heiðdal, 25.2.2010 kl. 21:09

2 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Það er að sjálfögðu góð ástæða til heimasetu að kosningarnar leiða ekki til niðurstöðu á hvorn veginn sem fer. Nei þýðir ekki að sest verði að borðinu með tóma stílabók þar sem íslendingar geta skrifað jólasveininum allar sínar hugrenningar. Síðan er það ekki ómerkari ástæða til heimasetu hvernig til kosninganna var stofnað. Góð kjörsókn "lögmætir" vonda stjórnsýslu forsetans. Ég get ekki tekið þátt í slíku. Ef Jóhanna og Steingrímur mæta á kjörstað má líkja því við göngu Krists eftir Via Dolorosa. Það ætti samt sannarlega við á háföstunni.

Gísli Ingvarsson, 25.2.2010 kl. 21:31

3 Smámynd: Ómar Valdimarsson

En svo í seinni fréttum sjónvarpsins í kvöld sá ég að ég hafði misskilið þetta allt saman. Þar kom fram formaður þingflokks Framsóknarmanna og hvatti þjóðina til að hafna "þeim samningum sem nú eru á borðinu", eins og Gunnar Bragi Sveinsson orðaði það. Með öðrum orðum: að hafna því tilboði sem samningaviðræðurnar í London strönduðu á.

Og ég sem hélt að þjóðaratkvæðagreiðslan ætti að vera um lögin frá 30. desember sl. En auðvitað hlýtur Gunnar Bragi að vita betur en ég í þessu, eða það vona ég að minnsta kosti. Ekki getur hann verið að reyna að kasta ryki í augu fólks, ekki vil ég ætla honum það.

Er nema eðlilegt að þjóðin sé ringluð yfir þessari dellu allri!

Ómar Valdimarsson, 25.2.2010 kl. 23:19

4 Smámynd: Brattur

Þessi væntanlega þjóðaratkvæðagreiðsla verður bara skrípaleikur, það er satt.  Ef við náum 60-70 milljarða betri díl, þá gæti það farið upp í tapið sem orðið hefur vegna þess að ekki var gengi frá Icesave um áramótin... mér skilst að þjóðarbúið sé að tapa 50-70 milljörðum á mánuði vegna þess að ekki er búið að ganga frá Icesave samningi... það mun vera vegna þess að stýrivextir væru komnir niður í ca. 5% í stað 9,5% sem þeir eru í núna.

Brattur, 25.2.2010 kl. 23:52

5 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Framsóknarmenn hafa alltaf allt opið, svona til öryggis. Þjóðaratkvæðagreiðslan hefur frá upphafi verið stórleg misskilin og ekki nema von, þar sem mötun á upplýsingum kom bara úr einni átt. Sigmundur Davíð sagði líka einhvern tímann að hann vonaði að ríkisstjórnin færi ekki að reka einhvern áróður.

Hann og Intefens ættu bara að sjá um þetta. (hann sagði þetta reyndar ekki, en hefur örugglega hugsað það)

Hólmfríður Bjarnadóttir, 26.2.2010 kl. 00:36

6 Smámynd: Ómar Valdimarsson

Brattur - ég held ég muni rétt að menn gera að því skóna að þetta séu um 30 milljarðar á mánuði. Það er reiknað út frá neikvæðum hagvexti. Þessi útreikningur gefur sér að með IceSave frágengið væri hagvöxtur hér kominn af stað. ASÍ tók undir þetta sjónarmið í dag.

Ómar Valdimarsson, 26.2.2010 kl. 00:46

7 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Einhvern tíma hefðir þú nú ómakað þig upp úr stólnum/fleti til að setja fram ,,statement" ef mig misminnir ekki mjög.

En svo var sagt í denn að ,,hver ergist sem eldist" (hér er argur í fornri merkingu.)

Njóttu hvíldar á kjördag.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 26.2.2010 kl. 11:07

8 identicon

Er innilega ósammála þér Ómar og hryggur yfir þeim málflutningi sem hér er að finna.

Atkvæðagreiðslan er enginn skrípaleikur í sjálfu sér, en þetta mál í heild sinni er aftur á móti orðið að skrípaleik. Því er ekki við öðru að búast en reynt sé að leggja út af einstökum þáttum þess sem skrípaleik. Við verðum hins vegar að átta okkur á því, að þessi skrípaleikur er ekkert gamanmál, heldur varðar hann framtíð þjóðarinnar. Þess vegna skiptir máli að mæta á kjörstað og segja hug sinn, að svo miklu leyti sem það er unnt.

Ef íslenskir ráðamenn og samningamenn hefðu nennt að standa í lappirnar frá upphafi, þá hefði þetta mál aldrei farið í þann farveg sem það nú er komið í. Hér er ekki við Sigmund Davíð að sakast (sem að mínum dómi hefur staðið sig vel) heldur er hér fyrst og fremst við Steingrím J. að sakast, sem augljóslega setti sér það sem viðunandi markmið í upphafi að komast frá málinu með örlítið "betri" samning en óljóst minniblað úr tíð Geirs Haarde kvað á um.

Ef eitthvað verður raunalegt við þjóðaratkvæðagreiðsluna þá verður það fjöldi þeirra sem munu sitja heima á kjördag í voninni um að áfram megi halda málinu í pólitískum skotgröfum fjórflokksins.

Kristinn Jens Sigurþórsson (IP-tala skráð) 26.2.2010 kl. 12:09

9 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Auðvitað verður þjóðaratkvæðagreiðslan enginn skrípaleikur, því hún snýst ekkert um "betra" eða "verra" tilboð, sem hugsanlega gæti verið á borðinu, eða væntanlegt einhverntíma.

Atkvæðagreiðslan snýst um að staðfesta, eða fella úr gildi, lög frá Alþingi, sem, ef samþykkt verða, skuldbinda íslenska skattgreiðendur til að taka á sig hluta af höfuðstól skuldar Tryggingasjóðs innistæðueigenda og fjárfesta og alla vexti, sem munu nema hundruðum milljarða króna á næstu fimmtán árum.

Með því að hafna lögunum, sýna skattgreiðendur það svart á hvítu, að þeir kæri sig ekki um að taka á sig skattaáþján, jafnvel til áratuga, vegna glæpsamlegs reksturs á einkafyrirtæki.

Eftir að þau lög verða felld úr gildi, geta Bretar og Hollendingar komið með "betra", "besta" og "langbesta" tilboð sitt, en eina ásættanlega niðurstaðan er auðvitað, að skattgreiðendur verði látnir í friði vegna þessa máls, enda banna tilskipanir ESB, að þeir séu gerðir ábyrgir fyrir einkaskuldum.

Axel Jóhann Axelsson, 26.2.2010 kl. 13:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband