Hálfkveðnar vísur biskupsdóttur

Séra Ólafur heitinn Skúlason var fermingarfaðir minn og vinur alla tíð síðan. Þegar fyrst var farið að saka hann um kynferðislegt ofbeldi fyrri hluta árs 1996 var ég í útlöndum en varð all brugðið við fréttirnar. Trúði þessu satt að segja aldrei.

Svo fyrir fáeinum dögum dúkkar þetta mál upp aftur og af enn meiri ofsa en fyrr. Enn var mér brugðið, fannst jafnvel að verið væri að naga hryggjartindana á dánum manni, sem aldrei er til sóma.

Nú eru sagðar af því fréttir að dóttir séra Ólafs, Guðrún Ebba, hafi gengið á fund Kirkjuráðs og lýst þar “reynslu minni af föður mínum,” eins og haft er eftir henni í DV í gær.

Ekki hvarflar að mér að gera lítið úr viðleitni dóttur biskups til að hindra og upplýsa kynferðislegt ofbeldi innan kirkjunnar, þvert á móti. Og ekkert veit ég það um þessi mál að ég geti leyft mér að hafa á þeim skoðun á einn veg eða annan.

En þessi ummæli Guðrúnar Ebbu vekja hins vegar miklu fleiri spurningar en þau svara. Dóttir biskups getur ekki talað svona, sagt A, án þess að segja B. Hún hefur kosið að tala opinberlega um “reynslu mína af föður mínum” – en aðeins undir rós. Það gengur ekki. Hún verður að segja meira.

Og það verða Kirkjuráð og Biskupsstofa einnig að gera. Hver er hún, nákvæmlega, þessi reynsla af foringja íslensku kirkjunnar um áratuga skeið?

Gömul sóknarbörn séra Ólafs, og raunar landsmenn allir, eiga að vita hvern mann hann hafði að geyma, hversu sársaukafullt sem það kann að vera. Hér nægja ekki hálfkveðnar vísur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórdís Bachmann

Ómar - ef þú hefur fylgst með öðrum fréttum af þessu máli undanfarna viku, þá hefurðu t.d. lesið bréf organistans og kannski komment við fréttir.

Þar skín í gegn hvern mann Ólafur hafði að geyma.

Guðrún Ebba bað um þennan fund fyrir ári og samkvæmt fréttum sátu viðstaddir þöglir á meðan hún talaði.

Hún á það við sjálfa sig hvort hún segir meira - hins vegar er hún búin að hjálpa þeim mörgu sem sitja uppi með erfiða reynslu af þessu tagi en hafa ekki getið tjáð sig um hana.

Þórdís Bachmann, 18.8.2010 kl. 15:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband