Ekki drekka kók í Tíbet
10.9.2010 | 17:29
Nú vorum við allt í einu komin til Lhasa, höfuðborgarinnar í 3700 metra hæð yfir sjó og allt í kring voru miklu hærri fjöll. Læknirinn í hópnum var búinn að setja okkur á strangan kúr hæðarveikilyfja. Hann hefði líka átt að setja okkur á hægðalyf.
Við sluppum flest að mestu við hæðarveikina en ekki alveg. Svefn fer aðeins úr skorðum fyrstu dagana og það þarf ekki mikið til að þreytast. Maður varð lafmóður við að fara á klósettið um nætur, svo ekki sé minnst á átökin sem það kostar að klífa fleiri hundruð tröppur upp í Potala, vetrarhöll Dalai Lama, þaðan sem hann og forverar hans ríktu í vellystingum yfir örsnauðum almúga sem tilbað hinn endurfædda Búdda.
Lhasa er orðin stórborg, þangað er svo stöðugur straumur Kínverja að Tíbetarnir eru í mesta lagi fjórðungur borgarbúa þótt þeir séu enn í miklum meirihluta í landinu öllu. Borgin sýnist meira og minna öll splunkuný, það er aðeins gamla miðborgin og hofin og klaustrin allt í kring sem enn bera svip hinnar fornu menningar.
Og hvað sem manni kann að finnast um hernám Kínverja þá leynir sér ekkert að í landinu hafa orðið miklar framfarir á síðustu árum. Það er meiri og fjölbreyttari matur (fallegasta grænmeti sem ég hef nokkru sinni séð er þar á útimörkuðum) og innviðirnir hafa verið styrktir verulega. Stórlega hefur fækkað í klaustrunum (sem voru um sex þúsund um það leyti sem Dalai Lama XIV flýði), úr nokkur hundruð þúsund munkum í nokkra tugi þúsunda. Rúmlega fimm þúsund kílómetra langur vegur liggur frá Shanghai til landamæranna við Nepal; hann heitir vitaskuld Vináttuvegur.
Tíbetar sem við töluðum við drógu ekki dul á að miklar efnislegar framfarir hefðu orðið í landinu undir stjórn Kínverja (ekki síst í landbúnaði) en margir telja sig þó hersetna og eru skiljanlega afar ósáttir. En það borgar sig að tala varlega og ekki mjög hátt, stjórnarfarið býður ekki upp á háværar kvartanir eða athugasemdir, eins og dæmin sanna.
Á þeirri viku sem við vorum í Tíbet ókum við um víðáttumikla og grösuga dali, og um nakin fjallaskörð, eftir vináttubrautinni góðu frá Lhasa til nepölsku landamæranna.Við fengum næturgreiða í ágætum gistihúsum og borðuðum góðan mat. Það ætti hins vegar að taka af þeim kóka-kóla leyfið: kók er ódrekkandi í Tíbet.
Að kvöldi dags, á meðan enn skein sól og varla sást skýhnoðri á himni, komum við til Tigiri í rúmlega fimm kílómetra hæð yfir sjávarmáli.
Þarna, sagði tíbetski leiðsögumaðurinn og benti til vinstri. Og sjá: þar blasti við sjálft Everest fjall, óhagganlegt og ófrýnilegt. Himalaya-fjöllin teygðu sig til vesturs; hrikaleg, snævi þakin björgin glitruðu í kvöldsólinni og maður var ógnarlítill andspænis þessum ótrúlegu furðum náttúrunnar.
Ég vil fara þangað aftur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.