Sviðin jörð eftir íslensku innrásina
1.10.2010 | 06:18
ÁRÓSUM: Bæjarblaðið hér, Århus Stiftstidende, er að deyja. Upplagið hefur hrapað úr nærri 80 þúsund eintökum í minna en 30 þúsund á örfáum árum.
Þeir berjast um á hæl og hnakka enda á þetta ágæta blað sér rúmlega 200 ára merka sögu, stofnað 1794. En það berst við ofurefli Jyllands-Posten sem hefur haft aðgang að gríðarlegu fé til að berja samkeppnina niður.
JP hefur reyndar sjálft mátt verja miklu fé á undanförnum árum til að verjast viðbrögðum við þeirri ákvörðun að birta umdeildar teiknimyndir af Múhammeð spámanni (í nafni hins takmarkalausa tjáningarfrelsis) og nú eru miklar gaddavírsgirðingar í kringum höfuðstöðvar blaðsins í Viby, útbæjar Árósa. Þörfin fyrir víggirðinguna minnkar varla á næstunni því nú er verið að gefa teikningarnar út í sérstakri bók um það mál allt saman.
Fleiri dönsk blöð berjast í bökkum og raunar er kreppa í blaðaútgáfu ekki sér danskt fyrirbæri, dagblöð víða um heim eiga undir högg að sækja. Hvað hefur ekki verið að gerast á Íslandi?
Ein ástæða þessarar dagblaðakreppu hér í landi rekur ættir sínar til Íslands og er til tákns um að ekkert er eylandið í heimsvæðingu dagsins. Það var nefnilega þannig að Nyhedsavisen-ævintýri Gunnars Smára, Jóns Ásgeirs og félaga kostaði danska blaðaútgefendur um hálfan annan milljarð danskra króna þrjátíu milljarða íslenskra króna. Það fé var sett í að bæta samkeppnisaðstöðuna gagnvart íslensku innrásinni...sem rann svo út í sandinn eins og margt annað sem kokkað var á þeim bæ. Þessa peninga hefði allt eins verið hægt að nota til að bæta þau blöð sem fyrir voru.
Eftir sátu fátækari dönsk dagblöð, Århus Stiftstidende þar á meðal, og fjölmargir atvinnulausir danskir blaðamenn.
Athugasemdir
Áskrifendum Moggans fækkaði um einn í gær.
Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 1.10.2010 kl. 19:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.