Sjávarútvegsstefnan ekki vandinn, heldur...
6.10.2010 | 17:12
BRUSSEL: Sænskir bændur stórgræddu á inngöngu Svíþjóðar í Evrópusambandið, sagði mér sænskur kollega í dag, þeir fengu miklu meiri peninga í sinn hlut en þeir höfðu fengið áður. Og embættismenn úr þeirri deild framkvæmdastjórnarinnar sem annast aðildarsamningana við Íslendinga létu eins og það væri augljóst mál að allur íslenskur landbúnaður myndi falla undir svokallaðan heimskautalandbúnað, þ.e. þá uppfinningu að flokka hluta landbúnaðar Svía og Finna þannig landbúnað norðan við 62. gráðu norðlægrar breiddar. Ísland er allt norðan við þessa gráðu.
Niðurstaðan eftir nærri þriggja vikna samfellda skoðun á ESB, stofnunum þess, sáttmálum og reglum, er sú að það sé ekki hin sameiginlega sjávarútvegsstefna sem Íslendingar eigi að hafa áhyggjur af (eftir sem áður mun enginn komast inn í fiskveiðilögsöguna sem ekki hefur þar veiðikvóta), heldur fjórfrelsisákvæðið um frjálst fjármagnsflæði sem heimilar fyrirtækjum í aðildarríkjunum að reka atvinnustarfsemi hvar sem er.
Þetta er það sem Íslendingum mun reynast erfiðast, sagði embættismaður hér í dag en bætti við að alltaf væri hægt að finna lausnir á erfiðum vandamálum. Varanlegar undanþágur væru illa séðar í sambandinu, sagði hann, en frjóir samningamenn hefðu hingað til getað látið sér detta í hug alls konar útfærslur sem nýst hafa vel.
Þingmaður á Evrópuþinginu sagðist í vikunni ekki hafa miklar áhyggjur af viðræðunum við Íslendinga eða fyrirvörum þeirra um fiskveiðistefnuna. Sú stefna er í endurskoðun og að sjálfsögðu verður verulega litið til Íslands í þeim efnum, þeir reka sjálfir góða og ábyrga sjávarútvegsstefnu sem reynst hefur vel. Svo gerum við Íslending að sjávarútvegsstjóra! sagði hann við góðan fögnuð norrænna manna og kvenna.
Embættismenn hér segjast hæstánægðir með samskiptin við Íslendinga hingað til og lýstu sérstaklega ánægju sinni með hversu fljótt og vel (betur en margir aðrir) hefðu skilað þeim upplýsingum sem lágu til grundvallar þegar framkvæmdastjórnin samþykkti að hefja aðildarviðræðuferlið.
Það næsta sem gerist í þessu ferli er að 9. nóvember næstkomandi kemur út áfangaskýrsla um viðræðurnar og jafnframt er að fara í gang rækilegur samanburður á íslenskri löggjöf og lagaumhverfi ESB. Hinar eiginlegu viðræður ættu því að geta hafist ekki síðar en á miðju næsta ári, sögðu menn hér í dag. Það verður fróðlegt að fylgjast með því.
En á meðan er hægt að benda á sérstaka vefsíðu um endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar sem sænskur græningi á Evrópuþinginu hefur sett upp. Þar er að finna allar mögulegar upplýsingar um stefnuna sjálfa og þær hugmyndir sem eru í gangi um endurskoðun hennar.
Athugasemdir
Sjávarútvegsstefna ESB hefur verið í endurskoðun síðan 1983 og nánast ekkert breyst. Þessi stefna er sniðin að ríkjum sem eiga samliggjandi lögsögur, en ekki ríki sem er nokkur hundruð sjómílur í burtu.
Að láta sér detta það í hug að setja íslenska útgerð undir Brusselvald er mér algerlega óskiljanlegt. Það bendir til þess að menn þekki hvorki haus né sporð á íslenskri útgerð eða brusselskri stjórn.
Innan ESB eru fiskveiðar taldar olnbogabarn í landbúnaði. Þar er útgerð félagslegt vandamál en ekki atvinnugrein. Hún er rekin á grundvelli byggðasjónarmiða en ekki arðsemi. Í flestum aðildarríkjum þykir fólki það beinlínis framandi að litið sé á fiskinn í sjónum sem auðlind.
ESB hefur ekki afskipti af auðlindum á landi eða í jörðu; námum, olíulindum og nytjaskógum. Aðeins af fiskinum í sjónum, þar sem öll ríki þurfa að játast undir brusselska leiðsögn. Ef Ísland gengur í ESB og fellir útgerðina undir brusselskt vald, setjum við nýtt Evrópumet í framsali á forræði yfir auðlindum. Og það okkar allra verðmætustu auðlind.
Hversu bláeygur þarf maður að vera til að trúa því að það sé í lagi? Það er eins og að draga fram gömlu kynningarbæklinga bankanna um öruggan sparnað í peningamarkaðsbréfum og trúa þeim.
Haraldur Hansson, 7.10.2010 kl. 00:27
Svíþjóð hefur aldrei fengið eina krónu frá ESB. Ekki eina einustu nettó krónu. Landið hefur alltaf verið nettógreiðandi til ESB. Nú síðast er fátækasta lén Svíþjóðar, Norrbotten, orðið nettógreiðandi til Evrópusambandsins.
Kanntu ekki fleiri sögur Ómar?
Gunnar Albert Rögnvaldsson, 7.10.2010 kl. 09:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.