Aftur í stríð

Ég hjó eftir því í dag að Össur utanríkisráðherra Skarphéðinsson sagði það vel koma til greina að Íslendingar myndu styðja við hernaðaríhlutun Vesturveldanna í Líbýu.

Það kann svo sem að vera að ég hafi misst af umræðum á Alþingi um þetta mál og hugsanlega þátttöku Íslendinga í hernaði gegn Líbýumönnum – að það sé búið að ræða það í þaula að okkar friðsama þjóð við ysta haf skuli nú í stríð suður í Afríku. Það væri þá ekki í fyrsta sinn sem ég missti af slíkum stórtíðindum.

En var það ekki einmitt þetta sama lénsherraviðhorf sem gerði okkur samsek um hernað Ameríkana og bandamanna þeirra í Írak – að forustumenn ríkisstjórnarinnar sem þá var ákváðu að við skyldum vera með og spurðu hvorki kóng né prest? Er þetta ekki annars sá sami Össur sem hefur verið að leita árangurslítið í skjalasöfnum stjórnarráðsins að pappírum sem skýra aðdraganda þess hernaðarævintýris okkar?

Þá er að vona að hann skjalfesti þessar hugmyndir sínar nú vel og vandlega svo að eftirmenn hans þurfi ekki að leita lengi og árangurslaust í skjalageymslum ráðuneytisins þegar hernaðurinn verður erfiður og óvinsæll.

Gaddafi ofursti er sjálfsagt ekki síðri skúrkur en Saddam sálugi Hussein. En það er bara allt annað mál.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband