Ég vil ekki vera dólgur

Auðvitað ætla ég að greiða atkvæði með IceSave samningnum. Ég vil ekki standa í illdeilum við umheiminn út af máli þar sem við stöndum augljóslega höllum fæti – jafnvel þótt það sé álíka höllum fæti og Bretar og Hollendingar. Það er siðaðra manna háttur að semja um misklíð sína. Viljum við teljast siðað fólk eigum við að sýna það í verki, ekki halda áfram að hegða okkur eins og dólgarnir sem komu okkur í skítinn.

Auk þess held ég að við skattgreiðendur munum aldrei þurfa að borga – jafnvel ekki krónu. Þrotabú Landsbankans á þegar 90% fyrir þessu. Og ef það fer ekki alveg í hundrað prósent, þá hlýtur að vera heppilegra að borga eitthvað fyrir frið og sæmd heldur en að hafa þennan andskota yfir okkur mörg ár enn og verða afgreiddir sem kjánar og ómerkingar. Ég vil taka þátt í veröldinni; annars gæti ég alveg eins flutt til Norður-Kóreu og hlustað þar á viðlíka þjóðrembubelging og þann sem nú er gusað yfir mann.

Mestu skiptir þó að á okkur hvílir siðferðileg skylda að gera málið upp. Þrjár ríkisstjórnir, allar löglegar, hafa lofað að semja um málið allt frá haustinu 2008. Ríkisstjórnir tala fyrir hönd þjóðarinnar, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Þannig er stjórnskipulagið hér.

Þvættingur um barnaþrælkun, forréttindastéttir, nýlendukúgara og allt það...iss, ekki gef ég mikið fyrir slíkan málflutning. Ég vil heldur horfa fram á veginn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Herbert Guðmundsson

Sæll Ómar! Hvaðan hefur þú upplýsingar um að þrotabú Landsbankans eigi þegar 90% fyrir þessu? Fyrir hverju?

Herbert Guðmundsson, 7.4.2011 kl. 05:03

2 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Ómar Hve mikinn pening erum við fólkið búið að láta í landsbankann fyrir utan að fá aldrei borgað fyrir hann.  Ert þú að segja að allir íslendingar séu dólgar sem vilja aðeins réttlæti. Sem betur fer ert þú einn núna því við erum yfir 90% sem viljum ekki borga Icesafe nema sanngjarn dómur segi svo. Ég hef alltaf borgað allar skuldir mínar og mun gera en hef aldrei borgað skuldir annarra sérstaklega þeirra sem tóku þennan pening og hafa falið hann. Þú sjálfur ert dólgurinn sem ræðst á fólk eins og handrukkari og heitar að fólk borgi það sem það skuldar ekki. vonandi skilur þú þetta.  

Valdimar Samúelsson, 7.4.2011 kl. 13:08

3 Smámynd: Ómar Valdimarsson

Skilanefnd Landsbankans metur innheimtu þrotabúsins nú um 89 prósent og segir varlega áætlað. Steingrímur Sigfússon fjármálaráðherra ítrekaði þetta á fundi í Háskóla Íslands í hádeginu - og minnti á að væntanleg sala á Iceland-keðjunni í Bretlandi gæti hugsanlega skilað 300 milljörðum. Meira að segja Þór Saari sagði á þessum HÍ-fundi að sennilega myndi lítið standa út af þegar búið væri að fá allt út úr þrotabúinu.

Ómar Valdimarsson, 7.4.2011 kl. 14:10

4 Smámynd: Hörður B Hjartarson

   Ómar !

    Með þessum orðum þínum , þá get ég ekki skilið þig öðru vísi en að við íslendingar hefðum verið dólgar í   ÖLLUM   landhelgisstríðunum , því þessi mál eru að mörgu leiti lík hvort öðru , þar að auki , langt frá öllum dólgsfullyrðingum , þá komum við til með að borga þennann skít - spurningin er einfaldlega : Hvort við viljum vera menn ellegar mýs .

Hörður B Hjartarson, 7.4.2011 kl. 15:10

5 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Hvað skilanefnd segir skiptir ekki máli. Við förum að lögum og ef þú manst ekki þá skal ég rifja þetta fornfræga upp fyrir þér. Með Lögum Skal Land Byggja. Segðu svo ekki að það hafi ekki verið gert hingað til og ekki farið eftir stjórnarskránni með ESB samningin. Sjáðu við fólkið viljum að það sé farið eftir lögum. Comprehende... 

Valdimar Samúelsson, 7.4.2011 kl. 15:22

6 Smámynd: Ómar Valdimarsson

Sjá til dæmis þetta: http://www.dv.is/frettir/2011/4/7/sala-iceland-foods-gaeti-thurrkad-ut-icesave-skuldina/

Gangi þetta eftir sé ég ekki betur en að óreiðumennirnir séu sjálfir að borga þessa skuld.

Ómar Valdimarsson, 7.4.2011 kl. 15:45

7 Smámynd: Herbert Guðmundsson

Sæll Ómar aftur! Þú hefur ekki svarað spurningum mínum síðan í morgun. Veist þú upphæð þeirra skulda sem á að samþykkja og greiða til Breta og Hollendinga? 89% eða 90% af hverju, hvaða upphæð, hvaða upphæðum? Það er fáránlegt að ætlast til að skrifað verði undir óútfyllta ávísun og án reiknings.

Herbert Guðmundsson, 7.4.2011 kl. 17:58

8 Smámynd: Ómar Valdimarsson

Nei, Herbert. Ég ætla ekki í þennan leik við þig. Flettu upp á vefsíðu fjármálaráðuneytisins, Landsbankans eða Seðlabankans ef þig vantar töluna.

Ómar Valdimarsson, 7.4.2011 kl. 22:12

9 Smámynd: Herbert Guðmundsson

Fyrirgefðu, fyrirgefðu. Ég hef ekki ánuga á nainum leik eða leikjum. Ef þú hefur þannan einfalda smekk á veruleikann, eins og þú gefur í skin, þá er sá veruleiki þinn enn ekki minn. Flóknara er það ekki okkar í milli ...

Herbert Guðmundsson, 8.4.2011 kl. 16:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband