Organdi frekjudósir
12.7.2011 | 12:53
Hvernig má það vera að ferðabransinn sé búinn að tapa milljörðum króna á því að brú hefur vantað á Múlakvísl í fjóra daga? Og hvernig skyldi standa á því að þessar yfirlýsingar eru birtar í fjölmiðlum daginn út og inn án þess að þær séu skoðaðar gagnrýnum augum?
Mig grunar að þetta meinta milljarðatap sé að mestu leyti enn ein birtingarmynd þeirrar yfirgengilegu frekju sem hér er allt að drepa. Þetta stenst engan veginn skoðun.
Ég hef hvergi séð tölur um hversu margir gestir hafa hætt við að koma til Hornafjarðar eða Víkur í Mýrdal. Samt láta hótelhaldarar og sveitastjórnarmenn á þessum stöðum eins og himininn hafi hrunið yfir þá og að peningarnir fljúgi út úr kössunum þeirra. Hvernig er hægt að tapa milljörðum króna á fjórum dögum?
Er ekki allt eins líklegt að erlendir ferðamenn sem hingað koma fái aukaskemmtun af því að fara þá ægifögru Fjallabaksleið nyrðri? Enda hafa verið sagðar af því fréttir að erlendir ferðamenn hafi komið að Múlakvísl og ekki haft hugmynd um að brúin væri farin. Varla voru þeir þá búnir að afpanta hótelherbergi fyrir milljónir króna á Klaustri eða Hornafirði...
Á þessu landi má búast við náttúruhamförum hvenær sem er. Það er stór hluti aðdráttaraflsins að óvissan er alltaf fyrir hendi. Ferðabransinn gerir út á það að verulegu leyti.
Frekjudósirnar í ferðabransanum (og einstaka tækifærissinnaðir pólitíkusar) ættu að orga minna og þakka fyrir að Vegagerðin er snör í snúningum.
Athugasemdir
Er þessi Erna Hauksdóttir, ekki fulltrúi ferðaþjónustunnar um allt land? Hún talar eins og svæðið milli Víkur og Hafnar sé eina ferðamannasvæði landsins og hrópar; afbókanir, afbókanir!
Það þarf enginn að segja mér að ferðamenn nýkomnir til landsins snúi heim í fýlu út af þessari brú, eða þeir sem eru rétt ókomnir rífi farmiðana sína og hætti við Íslandsferð. Menn breyta bara sínum ferðaáætlunum og eyða sínum gjaldeyri annarstaðar á landinu.
Það er þokkalegt fyrir ferðaþjónustuna fyrir vestan, norðan og austan að heyra það frá fulltrúa sínum að fjölgun ferðamanna hjá þeim sé glatað fé og vísasta leiðin til að rústa greininni.
Það er ólíklegt að nokkurt fé hafi glatast, eða muni gera það, af völdum þessa flóðs, það flyst bara til, tímabundið.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 12.7.2011 kl. 15:17
Sæll Ómar.
Við byggjum málflutning okkar á tölum sem Háskólasetur Háskóla Íslands á Hornafirði hefur unnið. Ef þú hefur áhuga get ég sent þér forsendur þeirra talna og útreikningana sjálfa áður en lengra er haldið í umræðunni. Ég þyrfti að fá tölvupóstinn þinn til að geta sent þér þetta. Við höfum ekki notað stór orð í okkar umfjöllun um menn eða málefnið og frábið mér orðalag um frekjudósir og tækifærismennsku.
Það er alveg ljóst að þeir sem áttu bókað hér hafa ekki skilað sér allir og ekki síður þeir sem hefðu lagt leið sína hingað að öllu jöfnu. Ég held við þurfum að gera okkur grein fyrir hvað ferðaþjónustan er stór atvinnugrein og hversu tölurnar eru fljótar að hlaupa upp í miljónatugi og þaraf meira.
Kær kveðja
Hjalti Þór Vignisson
bæjarstjóri á Hornafirði
hjaltivi@hornafjordur.is
Hjalti Þór Vignisson (IP-tala skráð) 12.7.2011 kl. 15:18
Minnstu munaði að frekjan og lætin í ferðaþjónustuaðilum kostaði tugi mannslífa í dag. Það er því miður augljóst að hjá þessum aðilum er krónur og aurar meira virði en mannslíf.
Þetta eru náttúruhamfarir og forsvarsmenn ferðaþjónustunnar láta eins og Steingrímur og Jóhanna hafi kveikt í Kötlu. Það þarf einfaldlega að gefa því þann tíma sem þarf til að koma á ÖRUGGUM samgöngum.
Óskar, 12.7.2011 kl. 15:33
Það hefur verið yfirgengilegt að hlusta á sumt af þessu ferðaþjónustufólki. Varla var sólarhringur liðinn þegar farið var að tala um seinagang stjórnvalda. Svo er grátbroslegt hvernig (misheppnaðir) stórnmálamenn reyna að slá sig til riddara á bökkum Múlakvíslar !
Eiður Svanberg Guðnason, 12.7.2011 kl. 17:29
ferðaþjónustan hlýtur að skila vel í ríkiskassann í venjulegu árferði
Sigrún Óskars, 12.7.2011 kl. 20:00
Ég held að þið vitið ekkert hvað þið eruð að gaspra, málflutningur ykkar er ekkert skárri en það sem þið eruð að gagnrýna. Og já, ferðaþjónustan skilar miklu í venjulegu árferði Sigrún!
HP Foss, 12.7.2011 kl. 21:44
Tapið er ekki hjá ferðaþjónustunni í heild heldur á sér stað tilflutningur á tekjum. Þetta birtist td. í því að hópar sem ætluðu hringinn á lágum eindrifsrútum - aka norður að Mývatni og snúa þar við. Eftir standa hótel og gististaðir á Austurlandi og Suð-Austurlandi með afbókanir og tóm herbergi. því miður gleymist í þessari umræðu að það er um að ræða ferðaþjónustu á öllu svæðinu frá Mýrdalssandi að Jökulsá á Fjöllum sem glímir við þessar afleiðingar. Sama svæði og varð hvað verst úti í fyrra ( sjá gistináttatólur fyrir júní í fyrra á Austurlandi). Þessir aðilar gista þá annarsstaðar á landinu, líkt og gerðist í fyrra. Viðbrögðin eru því harðari en ella. Ekki síst þar sem innlendir ferðamenn hafa heldur ekki sótt Austur- og Suðausturland vegna veðurs.
Ferðaþjonusta skilar líklegast meira í hagkerfið okkar en stóriðja - því að það eru gríðarlegar upphæðir sem erlendir ferðamenn skilja eftir í gegnum virðisaukaskatt af kaupum á vörum og þjónustu.
Ásta , 12.7.2011 kl. 22:36
Það er nú fljótt að telja þegar gistinætur, skoðunarferðir, smásala ofl. telst til. Fyrir lítil samfélög sem byggja tekjur sínar mikið til á ferðamönnum eru 4 dagar í tekjutapi erfiðir, hvað þá ef spáin um 2-3 vikur gengur eftir. Þetta blogg ber vott um vanþekkingu á staðháttum og malefninu í heild. "Mæl þarft eða þegi" var hann afi minn gjarn á að segja þegar fólk fór með fleipur og á það vel við hér.
Dagný, 12.7.2011 kl. 23:31
Senda bara mennina norðurfyrir. Hvað er vandamálið. Smá aukakrókur. Enga stund að skutlast þetta.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 13.7.2011 kl. 00:52
Gaman er þegar málfarsriddarinn joðlausi segir aðra misheppnaða,líklega feilfrír sjálfur.
Yngvi Högnason, 13.7.2011 kl. 09:44
Hvaða væl er þetta Ómar, er nú landsbyggðin að taka pening frá ykkur þarna við Faxaflóann? Eða er hún að fá brot af því sem henni ber?
Hvernig stendur á því að bæði þú og aðrir svokallaðir "blaðamenn" forðist að fjalla um grein sem birtist í DV 5. júlí undir fyrirsögnini "Reykjavík á spena landsbyggðarinnar" og er um skýrslu Vífils Karlssonar hagfræðings. Þér til fróðleiks fjallar skýrslan ,í grófum dráttum, um það hvað landsbyggðin borgar mikið meira til ríkisins en hún fær til baka.
Þetta væri góð lesning fyrir þig og annað forréttindapakk þarna suðurfrá. Eða ætlar "fjórða valdið" að reyna að þegja þetta í hel?
Alli, 13.7.2011 kl. 09:48
Alli - hvaða dómadags rugl er í þér? Hver er að tala um landsbyggð og höfuðborg? Hvað kemur það Múlakvísl við? Reyndu að halda þig við efnið.
Ómar Valdimarsson, 13.7.2011 kl. 10:22
Ok. Ómar, ég viðurkenni mistök mín, þitt blogg er ekki um kostnað við að opna hringveginn aftur en ég er búinnað heyra þvílikt rugl um að það liggi ekkert á að opna veginn aftur og allur flýtikosnaður sé óðasættanlegur. Það var kveikjan að athugasemd minni.
En að öðru. Hefurðu seð þessa grein sem ég minntist á og áttu eitthvað komment á hana.
Alli, 13.7.2011 kl. 10:52
Ég er viss um að ferðaþjónustufólk sem tapar fé vegna afbókana í kjölfar náttúruhamfara, er í stökustu vandræðum. Það á samúð mína eins og aðrir sem verða fyrir tapi. En við búum á Íslandi, þar sem hamfarir, veður og veðraleysa hafa alla tíð sett nokkur strik í reikninga. Það gengur ekki að berja lóminn og kenna stjórnmálamönnum eða Vegagerð ríkisins um. Ég tek undir með Óskari nr. 3, en hann vill meina að Jóhanna og Steingrímur hafi ekki kveikt í Kötlu. Það er örugglega rétt hjá honum.... Hafi ferðamálafólk ekki tekið eftir því, þá er byrjað að smíða brú og lagfæra veg.
Anna Dóra Gunnarsdóttir, 13.7.2011 kl. 16:45
Vegagerðin er snör í snúningum vegna þess að þeim er veitt stöðugt aðhald um að halda verkinu áfram og ljúka því hið fyrsta. Sá þrýstingur kemur úr öllum áttum - hvort sem það er ferðaþjónustan - sveitastjórnir eða ríkisstjórnin. Það er þeirra hlutverk. Það er einfaldlega ekki boðið uppá það að hringvegurinn sé lokaður í 3 vikur eins og vegagerðin gaf út í fyrstu.
þriggja vikna lokun hringvegarins er háalvarlegt mál. Barnaskapur bloggara er algjör og engum nema þeim sjálfum til háborinnar skammar ef horft er á þau ummæli sem hér hafa sést.
En það er nú oft þannig að bloggarar hugsa ekki um annað en sinn rass og láta sig lítið varða um aðra. Blogg Ómars er gott dæmi þar um.
Er hann kannski einn af þeim sem er að borga 30% hærri flutningsgjöld á nausynjavörum þessa dagana vegna flóðsins?
Held að sumir ættu ná að tala minna um frekjudósir og þess í stað lesa bullið sem rennur upp úr þeim hér á blogginu.
Number Seven, 15.7.2011 kl. 18:39
Dálítið undarleg birting þessa gríðarlega taps ferðaþjónusunnar eru fregnir sem ég hafði í vikunni að það hafi verið fullt úr úr dyrum í Víkurskála og sjaldan sést annar eins mannfjöldi þar og síðan enga gistingu að hafa á Vík eða í nágrenni Víkur og sá sem þetta sagði mér endaði á að keyra til Reykjavíkur.
Ég geri hins vegar ráð fyrir að það séu færri ferðamenn fyrir austan Klaustur en yfirleitt og líklegast einna mest tap á Höfn. En þetta margmilljarða tap er eitthvað mikið orðum aukið.
Hef síðan alveg misst af þeirri umræðu að einhver hafi fundið að því að framkvæmdinni verði hraðað. Hef bara séð gífuryrði ferðaþjónustunnar um að áætlanir og aðferðir Vegerðarinnar séu óásættanlegar.
eir@si, 15.7.2011 kl. 18:44
eir@si - Í Vík varðs þú vitni af nákvæmlega því sem gerist þegar ferðaáætlanir fara úr skorðum. Fólk neyðist til að fara af svæðinu, jafnvel sofa í bílum sínum þegar enga gistingu er að hafa. Milljarða tap er ekki orðum aukið ef miðað er við þær þrjár vikur sem var talað um í fyrstu og að engin leið yrði að koma fólki yfir Múlakvísl á fólksbílum.
Háannatími þýðir jú háannatími. Gistirúm vaxa ekki af sjálfum sér annarstaðar á landinu þegar fólk kemst ekki ferða sinna eins og ráð var fyrir gert. Flestar gisingar eru fullbókaðar fyrir og sú neikvæða umræða sem skapast vegna þeirra óþæginda sem ferðamenn verða fyrir skaðar alla ferðaþjónustuaðila til langs tíma.
Sú staðreynd að ein brú yfir eina "smásprænu" (í eðlilegu árferði) setji nánast allar ferðaáætanir upp í loft á öllu landinu er umræða sem þarf að taka núna. Sú umræða þarf að vera málefnaleg og miða að því að finna leiðir til að tryggja að slíkt hafi ekki svo afgerandi áhrif á heila atvinnugrein og fjölda byggðarlaga að öðru leiti.
Bloggarar ættu að halda sig fyrir utan þá umræðu - því barnaskapur bloggara um að þetta snúist bara um nokkra ferðaþjónustuaðila á Suð-Austurlandi er nátturlega bara til merkis um hversu hræðilega illa upplýstir þeir eru. Og já ... Barnaskapur er eiginlega besta orðið yfir blogg eins og er. Það lýsir bloggurum ágætlega þegar þeir missa stjórn á puttunum á sér án þess að hugsa.
Number Seven, 15.7.2011 kl. 19:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.