'Talnaleikfimi' í grundvallaratvinnugrein

Síst vil ég gera lítið úr mikilvægi ferðaþjónustunnar á Íslandi. Gott ef hún skaffar ekki orðið álíka eða meiri tekjur en álið og ef ég man rétt er gert ráð fyrir um 400 þúsund ferðamönnum til landsins á þessu ári. Sennilega ná þær tölur yfir alla þá sem lenda, einnig Íslendinga. Það er fínt – ekki síst ef þessir ferðamenn eru viljugir að taka upp veskið.

En það breytir ekki því sem ég hélt fram hér í gær að hamagangurinn yfir fjögurra daga brúarleysi á Múlakvísl var til skammar.

Bæjarstjórinn á Hornafirði, Hjalti Þór Vignisson, sendi mér vinsamlegt bréf í gærkvöld vegna bloggsins frá í gær, baðst undan skömmum en sagðist vilja koma því til skila að ferðaþjónusta væri ekki aukabúgrein í byggðarlaginu „heldur algjör grundvallaratvinnugrein þar sem fjölmargar fjölskyldur eiga allt sitt undir. Samfélagið í heild á þess vegna mjög mikið undir að vel gangi í ferðaþjónustu.“

Þetta er vafalaust rétt hjá Hjalta Þór. En örfárra daga brúarleysi getur ekki réttlætt allan hávaðann sem ferðabransinn setti í gang um leið og hlaupið hafði skolað burtu brúnni yfir Múlakvísl. Röksemdir þeirra á Hornafirði, sem lesa má út úr bæjarstjórnarsamþykkt þeirra frá á mánudag (sjá hér: http://www.rikivatnajokuls.is/frettir/nr/8718), eru fengnar með nokkurri talnaleikfimi, eins og Bjarni orðar það sjálfur. Í samþykktinni segir m.a.:

Samkvæmt samantekt Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði er júlí mánuður langt stærsti ferðamánuður ársins, með tæplega 40% af öllum gistinóttum í Sveitarfélaginu Hornafirði. Samdráttur upp á 50% hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu í þrjár vikur í júlí mánuði telur ekki undir 390 m.kr.

Ekki ætla ég að bregða brigður á útreikninga Rannsóknarseturs HÍ – en varla er það svo að ferðamenn komi eingöngu til Hornafjarðar suðurleiðina. Koma virkilega engir úr hinni áttinni? Og var orðið ljóst strax í hádeginu á mánudag, tveimur dögum eftir hlaupið í ánni, að 50% samdráttur blasti við ferðabransanum á Hornafirði? Ætli það.

Í Fréttablaðinu í dag (http://www.visir.is/ExternalData/pdf/fbl/110713.pdf) er að finna viðtöl við hótelhaldara á svæðinu beggja vegna Múlakvíslar. Engin leið er að skilja ummæli þeirra svo að allt sé farið fjandans til þótt brúna hafi vantað í örfáa daga. Sárafáir ferðamenn höfðu afpantað gistingar – en einhverjar tilfærslur voru á milli staða, eins og gengur. Sem betur fer – ferðabransinn skiptir okkur öll máli.

Ath: Varð á að rangnefna bæjarstjórann í upphaflegu færslunni. Nú hefur það verið leiðrétt - og Hjalti beðinn afsökunar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Rúnar Þorvaldsson

Sæll Ómar

Bjarni Þór Vignisson er fallegt nafn er bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar heitir Hjalti Þór Vignisson. Svo held ég að tölurnar séu fyrst og fremst settar fram til að sýna fram á stærðirnar og mikilvægi atvinnugreinarinnar fyrir samfélagið.

 kv.

Árni Rúnar Þorvaldsson

bæjarfulltrúi í Sveitarfélaginu Hornafirði

Árni Rúnar Þorvaldsson , 14.7.2011 kl. 00:26

2 Smámynd: Ómar Valdimarsson

Úúúps! Mikið rétt. Hjalti er margfaldlega beðinn afsökunar. Ég leiðrétti þetta hér með.

Ómar Valdimarsson, 14.7.2011 kl. 01:09

3 Smámynd: Landfari

Er það ekki rétt munað hjá mér Ómar að hamagangurinn hafi byrjað þegar veriða var að tala um allt að þriggja vikna brúarleysi um hábjargræðistímann. Man ekki að neinn hafi bölsótast út í 4 daga brúarleysi heldur þvert á móti voru heimamenn að tala um að þetta mætti helst ekki taka nema 4-6 daga að redda þessu til bráðabirgða.

Það er svolítið kjánalegt hjá þér að tala um að ferðamennn komi báðu megin frá og því sé skaðinn ekki eins mikill og menn tali um. Ef þú værir túristi að koma með Norrænu í hálfsmánaðar ferð til Íslands myndirðu fara suður austfirðina og dvelja svo á kirkjubæjarklaustir þangað til þú færir til baka?

Það kann að vera en ég myndi ekki gera það. Ég færi norður um. Gistinæturnar yrðu jafn margar þær færu ekki á suðurlandið.

Hitt er svo annað að mér finnst menn oft fá æði háar taptölur þegar eitthvað kemur uppá. Velti því fyrir mér hvort þessar tölur skili sér í bókhaldið í "venjulegu" árferði.

Landfari, 14.7.2011 kl. 09:53

4 identicon

Sæll Ómar. 

Þessi umræða er að þokast í rétta átt að mínu mati.  Ferðaþjónusta er stór hér um slóðir og tölur úr bókun bæjarráðs því ekki úr lausu lofti gripnar. Rof á Hringvegi í 2-3 vikur hefði getað haft miklar afleiðingar í för með sér.  Samdráttur er samt staðreynd.  Ég hef fylgst vel með stöðu mála hér síðustu morgna og alveg ljóst að fyrirtækin hafa orðið af talsverðum tekjum.  Vegagerðin, bílaleigur, áætlunarbíllinn, flugfélagið og fleiri eiga þakkir skildar að bjarga því sem bjargað verður.  Vísa annars til skrifa minna um málið á bloggsíðu mína http://hjaltithor.blog.is/blog/hjaltithor/

Rof Hringvegarins um Múlakvísl dregur fram ýmislegt um stærð og stöðu ferðaþjónustunnar sem atvinnugreinar og mikilvægi hennar fyrir einstaka byggðir. 

Kær kveðja,

Hjalti Þór Vignisson

bæjarstjóri á Hornafirði

Hjalti Þór Vignisson (IP-tala skráð) 14.7.2011 kl. 10:39

5 Smámynd: Number Seven

Viðbrögð fulltrúa ferðaþjónustunnar voru fullkomlega eðlileg miðað við þau ummæli að hringvegurinn yrði lokaður í 3 vikur.   Það er mjög áhugavert að lesa pósta frá bloggurum sem hafa ekki minnstu hugmynd um nokkurn skapaðan hlut er viðkemur ferðaþjónustu -en halda samt áfram að blaðra. 

 Ef þú vissir það ekki Ólafur... þá þarf að keyra aftur til baka sömu leið ef farið er á Klaustur um norðurleiðina.   Við erum á háannatíma ferðasumarsins og það er næstum algjörlega ómögulegt að breyta gisting þannig að slíkt sé hægt -  svo ekki sé minnst á auka kostnaðar vegna tvöfalt lengri keyrslu. Ferðamenn hafa ekki marga kosti í stöðunni en að reyna að halda sínu striki og halda þeim bókunum sem þeir hafa.  Selflutningar yfir Múlakvísl gerði það mögulegt og fulltrúar ferðaþjónustunnar brugðust hárrétt við þegar þeir bentu á leiðir til þess koma því í kring.  Að kenna þeim aðilum um að rúta "valt á hliðina" í ánni er eins og að kenna þeim um öll bílslys á hringveginum.  

 Frekjakast fær algjörlega nýja merkingu þegar bloggarar fara að tala um frekju í ferðaþjónustunni þegar fréttir berast af því að hringvegurinn lokist í þrjár vikur á háannatíma.  Sumir ættu að hafa vit á því að kynna sér málið - og ef ekki - spara stóru orðinn, í stað þess að birta opinberlega þau ummæli sem hafa sést hér frá þér Ólafur.  

 Hverning væri að þú færir nú af stað hringinn og létir reyna á það að fá gistingu með dagsfyrirvara ? Gæfi þér tækifæri til að kynna þér ferðaþjónustu á Íslandi á háannatíma.  Góða ferð.

Number Seven, 15.7.2011 kl. 12:14

6 Smámynd: Ómar Valdimarsson

Hver er þessi Ólafur?

Ómar Valdimarsson, 16.7.2011 kl. 23:10

7 Smámynd: Number Seven

Sennilega skildur honum Bjarna.   Held þú skiljir gálgahúmorinn núna .

Number Seven, 17.7.2011 kl. 12:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband