Þar sem plastpoki er eign
26.7.2011 | 22:51
Þegar ég kom fyrst til Eþíópíu í ársbyrjun 1985 var þar mikil hungursneyð. Það var lærdómsrík heimsókn en mest áhrif á mig hafði að uppgötva að plastpoki gat verið eign. Það er þegar maður á ekkert annað, alls ekkert.
Ég kom svo aftur til Eþíópíu fyrir hálfu öðru ári síðan til að taka þátt í úttekt Alþjóðasambands Rauða krossins til undirbúnings viðbragða við hungursneyð sem þá var í uppsiglingu. Nú er hún komin og margir láta eins og hún komi á óvart.
Það ætti ekki að vera. Hungursneyð í Eþíópíu, Sómalíu og norðurhluta Kenya hefur blasað við lengi. Raunar hefur verið viðvarandi matarskortur á þessu svæði um langt árabil. Ástæðan er tiltölulega einföld: efnahagslífið byggir á landbúnaði sem byggir á regni sem nú bregst ár eftir ár. Milljónir manna á svæðinu draga því fram lífið á matargjöfum frá Vesturlöndum.
Það hræðilega er að svo mun verða áfram þótt einhverjum hundruðum þúsunda nú verði forðað frá bráðum bana með matargjöfum frá örlátum Vesturlandabúum. Þurrkasvæðin bera einfaldlega ekki allt það fólk sem þar býr. Árið 1950 voru íbúar Eþíópíu um 18 milljónir. Nú eru þeir ríflega 80 milljón og fólksfjöldaspár gera ráð fyrir að þeir verði 173 milljónir um miðja öldina (2050). Fólk kýs að eiga mörg börn svo að einhver þeirra lifi og geti stutt foreldrana í ellinni. Það er öryggisnetið sem þriðji heimurinn býr við.
Tökum Norður-Wollo í Amhara-héraði norður af höfuðborginni Addis Ababa. Þarna var matarkista Eþíópíu um langan aldur bændur í héraðinu framleiddu gnótt matar sem var svo seldur um landið þvert og endilangt. 1974 varð þarna mikill þurrkur. Helmingur alls búpenings féll úr hor og kvart milljón manna varð hungurmorða. Norður-Wollo hefur aldrei náð sér almennilega. Landbúnaðarframleiðsla er lítil en fólkinu fjölgar jafnt og þétt. Og bændurnir hafa of lítið ræktarland: um einn hektara á (0,7 ha á fjallasvæðunum) sem er á við sæmilega einbýlishúsalóð á Reykjavíkursvæðinu. Helmingur landsframleiðslu í Eþíópíu er landbúnaður, 60% útflutningstekna eru af landbúnaði og 80% allra starfa eru í landbúnaði.
Um 16% íbúa Eþíópíu lifa á minna en einum dollar á dag. Í meðalári ná aðeins 65% íbúa í dreifbýli að innbyrða 2200 kalóríur á dag. Nærri helmingur barna undir fimm ára aldri eru undir meðalþyngd. Þrjár af hverjum fjórum fjölskyldum deila svefnrými með skepnunum og nærri helmingur barna sefur á jörðinni þar sem hiti um nætur (á kalda tímanum) fer niður í fimm gráður. Meðal fjölskyldan telur 6-7, býr í 30 fermetra hreysi og getur ekki aflað sér matar á þeim skikum sem hún hefur. Þessi lága framleiðni leiðir svo til hungurs, vannæringar og sjúkdóma. Lífslíkurnar í sveitunum í Eþíópíu eru 48 ár. Aðeins einn af hverjum tíu er sæmilega tryggur með drykkjarvatn.
Í Sómalíu eru ástandið enn verra; í norðurhluta Kenya er ekkert beitiland fyrir hirðingjana sem þar búa. Þurrkarnir í austanverðri Afríku hafa orðið meiri á síðustu árum, regnið kemur á skökkum tíma og veldur stórkostlegum flóðum og enn frekari búsifjum.
Auðvitað eigum við að leggja okkar af mörkum til að koma í veg fyrir að hundruð þúsunda blásaklausra öreiga deyi úr hungri á meðan við búum sjálf við ofgnótt. En við eigum líka að horfa fram á veginn taka fullan þátt í öllum aðgerðum sem draga úr áhrifum loftslagsbreytinga og gera þá kröfu til stjórnvalda í Eþíópíu, Kenya og víðar að þær geri þær kerfisbreytingar sem þau hafa margsinnis lofað. Því miður er engar kröfur hægt að gera til stjórnvalda í Sómalíu því þau eru ekki til. Og á meðan deyr fólk og á ekki einu sinni plastpoka.
Hér er svo viðhengi með meiru sem ég skrifaði fyrir Alþjóðasamband Rauða krossins eftir heimsókn mína til Eþíópíu um áramótin 2009/2010.
Athugasemdir
Sæll Ómar,
En hvað með ríkisstjórnir þessara "fátæku" landa og augljósa hunsun þeirra á innfæddum? - Eru þetta ekki þjóðirnar þar sem auðnum er rakað saman inn á persónulega reikninga forseta landanna erlendis, eins og dæmin hafa sýnt undanfarið ? - Er ekki rétt að skoða það mál aðeins í stað þess að skrifa sí og æ um vesöld fólksins (sem er náttúrulega alltof margt) og ganga með betlistaf í skrifum um og fyrir þetta fátæka fólk og herra þeirra.
Þetta eru þar að auki engin ný sannindi, þetta er búið að vera, a.m.k. í fréttum frá því við vorum litlir ormar eins og þú veist, og rétt væri að höggva aðeins nær ríkisstjórnum þessara vesælu landa í skrifum en útlista stöðugt hve mikill vandinn er og hrópa á hjálp frá öðrum og utanaðkomandi.
Ef land og/eða ríki, eða þá fólkið sjálft, getur sannarlega ekki brauðfætt sig, er það einfaldlega (frá mínu sjónarhorni) vandi ríkisins sjálfs og augljóst að þessa hít verður aldrei, aldrei hægt að fylla.
Þessi afríkulönd eru forrík að landgæðum, en rokgróði þessara landa ratar beint (eins og 90% af hjálparfé og fötum) í vasa ráðamanna, og það veist þú eins vel og allir sem vilja lesa sig til um þessi mál.
Eymdin er samt til staðar og er það slæmt.
Már Elíson, 27.7.2011 kl. 15:49
Takk fyrir upplýsinguna. Það er vont hvernig komið er fyrir fólkinu. Verra er þó að ekki sjái fyrir endann á þessari óáran. Það er alltaf vont þegar fólk verður upp á aðra komið með nauðþurftir. Fólkið þarf að fá úrræði svo það geti bjargað sér sjálft. En við getum því miður ekki stjórnað öðrum ríkjum og meðan fólkið sjálft rís ekki upp gegn ríkjandi stéttaskiptingu og spillingu er lítil von til að það verði sjálfbjarga þrátt fyrir aðstoð hjálparsamtaka.
Dagný, 29.7.2011 kl. 23:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.