Sérhagsmunafréttir
3.8.2011 | 21:44
Fréttastofa RÚV sagði frá því í kvöld að bílaverkstæði væru að segja upp samningum sínum við tryggingafélögin vegna þess að þau borguðu ekki nóg fyrir tjónaskoðanir.
Þar með small síðasta púslið í spil sem hefur verið í gangi undanfarna daga. Það hófst með sjónvarpsviðtali við sérfræðing tryggingafélaganna um að allt of mikið væri um að fúskarar gerðu við bíla. Það stefndi öryggi vegfarenda í hættu.
Þetta hefur svo verið endurtekið í fréttum hér og þar og mig var farið að gruna að hér væri í gangi PR átak einhverrar almannatengslastofunnar sem ynni fyrir bílaviðgerðarmenn.
Það kom enda á daginn í kvöld: tilgangur átaksins var sem sé að knýja tryggingafélögin til að borga meira og um leið að fá að hækka taxta bílaverkstæða um 20 prósent, allt í nafni umferðaröryggis. Varla yrði það til að minnka biðraðirnar hjá meintum bílaviðgerðafúskurum...
En þetta sýnir enn og aftur að flestar fréttir af þessu tagi verða til vegna þess að einhver á hagsmuna að gæta.
Athugasemdir
Sæll Ómar,
Rétt til getið hjá þér um "PR" átakið, en sannleikskornið er samt það, að hafa "betri" tjónabíla á vegum úti, það er nú staðreyndin sem stendur uppúr í þessari grein.
Verðlagning bílaverkstæða í dag er hroðaleg, og ekkert í takt við tímann, það veit ég og hef reynt á eigin skinni.
Sterk dæmi um "PR" sem er núna í gangi, eða réttara sagt hagsmunatengdar og útsmognar áróðursfréttir, eru "fréttir" www.turisti.is á seinkunum eða óförum Iceland Express.
Ekki það að ég sé áð taka upp hanskann fyrir félagið sem hefur valdið mér persónulega leiðindum á flugvöllum hérlendis og þarafleiðandi erlendis (heimförin) - heldur það, að ekkert er minnst á bilanir eða tafir Icelandair sem eru einnig tíðar. Icelandair auglýsir einmitt á síðum þessa netmiðils, turista.is, og því skyldi rugga bátnum ?
Hagsmunatengsl og siðleysi er allstaðar, og í öllu. Það þarf bara að lesa yfir tvisvar og vera á varðbergi gagnvart hrægömmunum sem sveima yfir um leið og fátækt og varnarleysi gerir vart við sig í lífi fólks.
En það er einmitt að gera vart við sig á Íslandi núna, frekar en áður.
Már Elíson, 4.8.2011 kl. 09:11
Þetta var fyrirferðarmikið stönt, en hversu vel heppnað veit ég ekki - of gegnsætt auglýsingapot.
Ég varð fyrst var við þessar skrítnu fréttir þegar ég heyrði rammfalskan tón í frétt um að Hekla gæti ekki fengið bifvélavirkja til vinnu, þrátt fyrir auglýsingar og um leið var talað um atvinnuleysi í grein bifvélavirkja! Í á annan áratug, líklega lengur, hefur sárvantað bifvélavirkja, ekki aðeins á verkstæðin heldur einnig nema í faginu. Þeir hafa verið rifnir út úr skólunum og ráðnir áður en þeir hafa náð að klára prófin.
Þessar "fréttir" eru fluttar eins og ekkert sé, fullkomlega gagnrýnislaust.
En - við hverju er að búast þegar nýgræðingar, vart komnir af fermingaraldri, manna fréttastofurnar að stærstum hluta. Flest duglegt og efnilegt fólk, vissulega, en sárvantar þekkingu og reynslu sem aðeins kemur með árunum. Jafnvel Ríkisútvarpið hefur gengið svo langt nú í sumar að í vaktstjórn frétta hafa verið settir nýgræðingar með 2-3 vikna starfsreynslu.
Kjöraðstæður fyrir slynga og ósvífna PR menn!
Þórhallur Birgir Jósepsson, 4.8.2011 kl. 09:45
Þórhallur ; - Einmitt, þetta hjá Heklu er álíka og upphlaupið / auglýsingamennskan hjá þeim manni sem sagðist á dögunum ekki hafa fengið neinn til vinna hjá sér við úthringingar. Sá var nú tekinn á beinið, greiðsla fyrir vinnuna þá var á 3ja heims basa, og aldrei að vita nema Hekla sé einmitt að nýta sé neyð annarra og atvinnuleysi, og borga/ eða bjóða smánarlaun. Samkvæmt síðustu fréttum, er bifreiðaverkstæðamafían um þessar mundir að reyna að þrýsta taxta sínum upp um a.m.k. 20%, taxta sem er allt of hár fyrir, fáir geta greitt fyrir, sem aftur veldur að svarta starfsemin heldur innreið sína af meira afli en áður.
Þetta er hin nýja lenska um þessar mundir, og ber að varast þessa skreyttu mynd sem þeir setja fram þessir atvinnurekendur. Gott hjá fólki að sjá í gegnum þetta og bjóða sig ekki fram í vinnu þar sem níðst er á þeim launalega. Hekla hefur verið/eða var, fræg fyrir að vera dýrt fyrirtæki og hef ég sjálfur lent í klónum á okri þeirra. Það skilar sér ekki í launaumslagið hjá þrælum þeirra, og þó lentu þeir á endanum í gjörgæslu bankanna, en voru seldir aftur nýlega, að vísu.
Já, fréttaflutningur og framsetning frétta síðustu misseri, ásamt viðeigandi málvillum og skorti á réttri stafsetningu, er ein stóra meinsemdin sem ríður húsum á ritvelli blaða og netmiðla núna. Hvernig á þessu stendur, þessu metnaðarleysi, - skil ég bara ekki.
Már Elíson, 4.8.2011 kl. 10:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.