Skýrsla til heimabrúks

Undarlegt fyrirbæri, skýrslan um „skaðann“ sem hlaust af því að Bretar skyldu beita ákvæðum hryðjuverkalaga gegn íslenskum bönkum í október 2008. Í skýrslunni er komist að þeirri niðurstöðu að tjóninu megi jafna til fimm þúsund milljóna íslenskra króna og að það sé á ábyrgð Gordons Brown og Alastairs Darling. Í inngangi skýrslunnar segir orðrétt:

Í skýrslunni er tekið fram að fyrirtækin sjálf segjast með engu móti geta metið eigið fjárhagslegt tjón af völdum þessara þátta þar sem erfitt er að skilja það tjón frá öðrum þáttum hrunsins. Því þarf að byggja fjárhagslegt mat á hagstærðum og samkvæmt slíku mati, og öllum fyrirvörum, er heildartjónið metið í skýrslunni á bilinu tveir til níu milljarðar króna með líklegasta gildi nálægt 5 milljörðum. Áhrif laskaðs orðspors eru ekki tekin með í þá útreikninga þar sem tjón af töpuðu orðspori er nánast ómögulegt að meta til fjár.

Síðar segir:

Rauði þráðurinn í skýrslunni eru því ákvarðanir, atburðir, ummæli og umfjöllun sem tengjast beitingu hryðjuverkalaganna með beinum og óbeinum hætti og valdið hafa tjóni hjá íslenskum inn- og útflutningsfyrirtækjum. Ekki er fjallað tjón fjármálafyrirtækja, opinberra stofnana eða annarra nema í framhjáhlaupi.

Talan er sem sé fengin með því að setja puttann upp í loftið og mæla þannig sumt en ekki annað. Engu að síður kann að vera rétt að þetta megi reikna upp í fimm þúsund milljónir. Það er þó bara skítur á priki miðað við þær 85 þúsund milljónir Bandaríkjadala sem útlendir fjárfestar töpuðu á íslensku bönkunum sem voru studdir af þáverandi ráðamönnum okkar fram í rauðan dauðann.

En málið er þetta: þessari skýrslu er greinilega ekki ætlað að vera rök í hugsanlegum málarekstri, eða jafnvel diplómatísku þrasi, við Breta. Hún er eingöngu innlegg í íslenska orðræðu um ekkert. Skýrslan sú arna er nefnilega aðeins til á íslensku og verður ekki þýdd yfir á tungumál sem þeir Brown og Darling skilja, eða svo segir mér fjármálaráðuneytið. Þetta er því einskonar leyniskýrsla, aðeins ætluð til heimabrúks. 

Nema að Guðlaugur Þór Þórðarson og félagar hans fimmtán, sem báðu um skýrsluna, komi henni í þýðingu og sendi til London og heimti bætur úr hendi bresku stjórnarinnar. Það væri hið eina rökrétta framhald. En kannski var það aldrei ætlunin...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband