Óendanleg smekkleysa
11.11.2011 | 20:21
Síbylja fjölmiðlunar hefur bæði kosti og galla. Kostirnir eru þeir að maður getur nánast hvenær sem er náð sér í upplýsingar um hvað sem er. Gallarnir eru meðal annars þeir að það er allt of mikið blaðrað og bullað og mokað yfir mann fréttum og upplýsingum sem maður hefur ekkert við að gera og kærir sig ekki um. Ég er til að mynda ábyggilega ekki einn um að vita miklu meira um Kim Kardashian en ég hef minnsta áhuga á. Hvers vegna í veröldinni ætti maður að hafa áhuga á konu sem varð fræg fyrir að gera hitt með einhverjum kærasta og kom því svo öllu á netið?
Hér heima er líka stundum of mikið talað um einstök mál sem er jaskað út í umræðunni þar til komið er út yfir öll velsæmismörk. Margar hyggjurnar eru vafasamar en þráhyggjan þó sýnu verst. Í hvers þágu eru til dæmis persónulegar skeytasendingar í fjölmiðlum á milli Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur og fjölskyldu hennar? Hvað á maður að þurfa að sitja lengi undir því andstyggðarmáli öllu saman? Er ekki komið nóg?
Hún hefur sagt sína sögu vel og skilmerkilega, bróðir hennar hefur sagt sögu þeirra hinna ekki síður vel og skilmerkilega og eftir stendur að enginn utanaðkomandi hefur hugmynd um hvað er satt og hvað er ekki satt. Áframhaldandi upphróp um fjölskylduharmleikinn í fjölmiðlum breyta engu um það. Smekkleysið er þarna gengið út yfir allan þjófabálk.
Athugasemdir
Sammála.
hilmar jónsson, 11.11.2011 kl. 21:03
Ertu ekki Blátt áfram kominn á hættulega Drekaslóð með þetta álit þitt Ómar?
Hilmar Þór Hafsteinsson (IP-tala skráð) 11.11.2011 kl. 21:11
Sæll Ómar Ég tek undir með Hilmari Sértu ávallt kært kvaddur
Ólafur Ragnarsson, 11.11.2011 kl. 21:26
Innilega sammála
Gunnar Th. Gunnarsson, 12.11.2011 kl. 00:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.