Um meydóm í stjórnarháttum
23.9.2008 | 16:06
Það er ekki hægt að segja með góðu móti að íslenskt samfélag einkennist af spillingu, þótt því sé oft haldið fram í heitu pottunum og víðar þar sem fullyrðingar eru látnar vaða. Og þegar maður hefur búið í löndum þar sem spilling gegnsýrir allt samfélagið, þá verður enn ljósara að við hér heima búum betur en flestir aðrir.
Transparency International hefur staðfest þetta enn eina ferðina með nýjustu skýrslu sinni um meydóm í stjórnarháttum (sjá http://www.transparency.org/news_room/in_focus/2008/cpi2008). Samkvæmt skýrslunni hefur Ísland lækkað örlitið á skalanum við vorum í efsta sæti á þessum lista ásamt Finnlandi fyrir tveimur arum með 9,2 stig (10 er best) en erum nú dottin niður í 8,9 stig. Þótt ástæða þess sé ekki tíunduð í skýrslunni, segja skýrsluhöfundar að ástæða þess að rík lönd tapi stigum á spillingarskalanum, sé oftast sú að stjórnvöld hafi ekki haft nægilegar gætur á einkaframtakinu eða að peningar skipti óeðlilega miklu máli í pólitík. Eða eins og segir í fréttatilkynningu Transparency International:
Corporate bribery and double standards
The weakening performance of some wealthy exporting countries, with notable European decliners in the 2008 CPI, casts a further critical light on government commitment to reign in the questionable methods of their companies in acquiring and managing overseas business, in addition to domestic concerns about issues such as the role of money in politics.
Sem sagt: verðbréfapjakkarnir og útrásarherinn hafa um of fengið að leika lausum hala og sú staðreynd hefur dregið svolítið úr tiltrú manna á þá fullyrðingu að spilling sé hér nánast óþekkt.
En þess ber auðvitað að geta að Transparency International leggur á það ríka áherslu, að það sé einkunnagjöfin sem skiptir máli fremur en í hvaða sæti þjóðir lenda. Við erum í sjöunda sæti en erum samt enn meðal þeirra þjóða þar sem spilling er talin minnst.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.