Besta bankaþjónusta heims
2.10.2008 | 11:40
Um allan heim hatast fólk aðallega við þrennt: símafélög, orkufélög og banka. Á vissan hátt sameinar þetta mannkynið. Þetta gildir, sýnist mér, líka um Íslendinga - og til viðbótar hata þeir tryggingafélög og nú á síðustu tímum fjárfestingabanka. Á meðan ég bjó fjarri Íslands ströndum sýndist mér það raunar vera þveröfugt: þá voru fjárfestingabankar, verðbréfasalar og svoleiðis lið í guðatölu á Íslandi. En nú er hún Snorrabúð stekkur...
En hvað sem segja má um bankana, þá verður það ekki af íslenskum bönkum tekið að þeir veita almennt mjög góða þjónustu. Eftir að hafa búið í nokkrum löndum og þurft að eiga viðskipti við banka í enn fleiri löndum, þá er ég sannfærður um að íslensk bankaþjónusta sé sú besta í heimi. Í þann áratug sem við vorum í burtu vorum við með öll okkar viðskipti við banka hér heima og þurftum aldrei á öðru að halda.
Hér er lítið dæmi um þetta: Einhverntíma var ég með ameríska ávísun í höndunum og vildi fá henni skipt. Bankar í asísku fjármálamiðstöðinni Malasíu töldu að vísu hægt að skipta ávísuninni - en það myndi taka þrjár vikur. Þá sendi ég tékkann í pósti til SPRON við Skólavörðustíginn og var búinn að fá peningana til baka innan viku. Betra gerist það ekki.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.