Vafasamur meydómur fjölmiðla

Það kemur enginn vel út úr þessari nýjustu uppákomu á DV, hvorki blaðamaðurinn brottgengni né ritstjórinn. En það skiptir kannski engu máli, það tekur enginn mark á þessu blaði hvort eð er, sbr. nýja könnun um hvernig fólk upplifir áreiðanleika fjölmiðla.

En ég hef ekki getað stillt mig um að brosa í kampinn yfir þeim meydómi sem ýmsir blaðamenn eru að sverja í tengslum við þetta mál. Ég vann í rúm 20 ár á íslenskum dagblöðum og fréttastofum og er í daglegu sambandi við gamla og nýja kollega. Ég ætla því að fullyrða að á öllum fjölmiðlum kemur það fyrir að mál eru sett ofaní skúffu vegna utanaðkomandi þrýstings af einu eða öðru tagi. Oftast eru þetta tiltölulega saklaus mál en stundum ekki. 

Og sem betur fer er það svo, að ef þetta eru ekki ómerkileg mál, þá leita þau fram í dagsljósið fyrr eða síðar. Það skipti því í sjálfu sér engu hvort "fréttin" um að Sigurjón Árnason væri að leita eftir bitum úr búri Landsbankans birtist í DV eða ekki, það var þegar vitað.

En auðvitað er gott að fá staðfestingu á siðferðisþreki þeirra sem stýra DV.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Gaman að sjá nafni, að við fjöllum báðir um það sama í blogginu á sama tíma.

Ómar Ragnarsson, 16.12.2008 kl. 17:03

2 Smámynd: Marinó Már Marinósson

Sem betur fer eru enn til heiðarlegir fréttamenn og þið Ómar eruð þar fremstir á meðal manna.   

Marinó Már Marinósson, 16.12.2008 kl. 17:57

3 Smámynd: Haukur Már Haraldsson

Þegar við vorum að stíga okkar fyrstu, - og hvað mig snertir eiginlega síðustu líka, - skref í blaðamennsku á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar var fjölmiðlaumhverfið allt annað en í dag, Ómar sæll. Þetta voru mestanpart (nema þáverandi DV) flokksblöð sem stungu undan, hagræddu og gerðu yfirleitt það sem þeim sýndist við fréttir. Og við blaðamennirnir spiluðum með, eins og þú ugglaust manst. Í dag heimta menn óhæði í fjölmiðlum, daðra jafnvel við heiðarleika þegar vel liggur á þeim. Akkúrat þess vegna er þessi jómfrúartendens svona áberandi og hávær. Hvort þetta er svo eitthvað skárra en hjá okkur í gamla daga er svo annað mál.

Haukur Már Haraldsson, 16.12.2008 kl. 21:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband