Vélbyssurnar í Betlehem

Það er að koma að jólum og þá minnumst við þess um allan heim að Jesúbarnið fæddist í Betlehem. Þá biðjum við fyrir friði á jörð og velþóknun Guðs yfir öllum mönnum, jafnt ástvinum okkar og þeim sem hungraðir eru og hrjáðir sem falsspámönnum sem koma til okkar í sauðaklæðum en eru innra glefsandi vargar.

Við hjónin komum til Betlehem fyrir nokkrum árum. Uppreisnin, Intifatah, var þá í algleymingi. Göturnar voru nærri auðar, neglt var fyrir búðarglugga og -dyr og hermenn með alvæpni stóðu í flokkum á götuhornum eða óku um í opnum jeppum með vélbyssurnar mundaðar.

Leiðsögumaðurinn hálfhljóp á undan okkur inn í fæðingarkirkjuna og niður um ranghala og þrönga ganga. Skyndilega stoppaði hún og sagði: Hérna. Þetta er grottan. 

Við vorum í lítilli og myrkri kapellu í iðrum fæðingarkirkjunnar, um það bil þrjátíu af ýmsu þjóðerni. Við stóðum grafkyrr stutta stund og störðum á silfurstjörnuna sem greypt hafði verið í marmaraplötu á upphækkun frá gólfinu, á lágum stalli, eins og segir í kvæðinu. Reykelsisker voru um allt loftið og inni í jötunni. Tjaldað var fyrir með gullbrydduðu flaueli.

Svo byrjaði einhver að fara með faðirvorið á ensku. Aðrir tóku undir á sínu eigin tungumáli, gyðingarnir sögðu ekkert. Tilfinningarnar sem fóru um mann eru ólýsanlegar. Þetta líktist hvorki fjárhúsi né jötu, eðalmálmarnir á skreytingunum allt í kring voru sótugir af milljónum kertaljósa sem hafa brunnið á liðnum öldum í þröngri fæðingarhvelfingunni. Og á máðri steinhellunni er skínandi silfurstjarna sem kristnir pílagrímar snerta í lotningu.

Þarna fæddist Jesús Kristur. Nákvæmlega þarna, segir sagan. Auðvitað veit það enginn fyrir víst, en í gegnum aldirnar hafa kristnir menn komið sér saman um að þarna skuli það hafa verið. Og skyndilega stendur maður á þeim stað sem hefur mótað allt manns siðferði, alla manns afstöðu og allt manns líf, allt frá barnæsku.

Allt í einu fannst mér ég muna nákvæmlega hvernig mamma bað með mér faðirvorið í fyrsta sinn og það var eins og barnatrúin mín helltist yfir mig aftur.    

Sumir krupu á kné, kysstu silfurstjörnuna og báðust fyrir. Aðrir stóðu hreyfingarlausir með lokuð augu. Enn aðrir tróðust á milli pílagrímanna með vídeóvélarnar sínar til að ná mynd af konunni sinni standa þar sem Jesús fæddist. Eftir fáeinar mínútur sagði leiðsögumaðurinn: Jæja, áfram nú, við eigum einn stað eftir.

Nýr hópur tróðst á móti okkur niður í „fjárhúsið“ og um það bil sem við komum fram í anddyrið heyrðum við berast upp ómana af jólasálminum Adeste Fidelis: „Ó, dýrð í hæstum hæðum, Guðs heilagi sonur, dýrð sé þér...“

Löngu seinna finnur maður enn lyktina af reykelsinu, kertaljósunum og sótinu í fæðingarkirkjunni í Betlehem. Og maður finnur enn fyrir undarlegri, óútskýranlegri návist sem færir mann langt yfir dægurþrasið og dagsins amstur. Sú návist færir mann í hæstu hæðir og þá eru alltaf jól í brjóstinu - og fullvissan um að Guð er raunverulegur og alltaf nálægur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Talar um að fæðingarhvelfingin hafi verið lítil og þröng.Þá er ekki vinsælt væri maður að skoða hana að prumpa

Erlingur hólm (IP-tala skráð) 1.1.2009 kl. 02:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband