Í þágu flokks en ekki þjóðar
12.1.2009 | 06:31
Hugmyndin um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort eigi að ræða við Evrópusambandið er della. Hún er ekki sett fram með hagsmuni þjóðarinnar í huga, heldur flokkakerfisins - og þá fyrst og fremst Sjálfstæðisflokksins. Hugmyndin er sem sagt sett fram til að koma í veg fyrir klofning í stjórnmálaflokki sem ekki getur horfst í augu við nútímann, hvað þá framtíðina.
Um hvað ætti svosem að kjósa í þessari fyrirfram þjóðaratkvæðagreiðslu? Hversu margir eiga að vera í viðræðunefndinni sem fer til Brussel? Á hvaða hóteli þeir eiga að búa?
Hvers vegna ekki að ganga hreint til verks, senda hóp sérfræðinga til Brussel til að gera rækilega úttekt á því sem kann að vera í boði, láta þá svo koma heim með niðurstöðuna og leggja skýra valkosti fyrir þjóðina?
Það er nefnilega þannig að í landinu situr Alþingi með umboð frá kjósendum og ríkisstjórn með umboð þings og forseta. Það er hlutverk þessa fólks að stjórna landinu í þágu þjóðarinnar en ekki flokkanna - og enn síður í þágu þröngra flokkshagsmuna. Það er gömul saga og ný, sem hefur sannast rækilega undanfarnar vikur, að hagsmunir flokkanna fara ekki alltaf saman við hagsmuni þjóðarinnar sem getur ekki annað en kosið þá aftur og aftur - því það er enginn valkostur.
Sjálfur hætti ég að taka þátt í kosningum fyrir 1980. Fór þó á kjörstað í sveitastjórnarkosningum fyrir allmörgum árum þegar ég hafði skoðun á hver ætti að sitja í stjórn míns sveitarfélags. Niðurstaðan úr þeim kosningum varð sú að sá frambjóðandi sem hafði lang minnst fylgi varð bæjarstjóri!
Sem sannaði fyrir mér enn og aftur að kosningar hér eru yfirleitt marklausar.
Athugasemdir
Ég er sammála þér nafni að kosningar um það hvort fara eigi í aðildarviðræður eru aukakrókur sem þyrfti að komast fram hjá.
En ef um þá tvo kosti er að velja að þetta mál haldi öllum stjórnmálum á Íslandi í gíslingu eða að aðeins verði á þennan hátt hægt að rífa það út úr flokkafarvegi, þá gildir hið fornkveðna að stjórnmál eru list hins mögulega.
Nú virðist hins vegar sem æ fleiri í Sjálfstæðisflokknum, nú síðast Einar Guðfinnsson, sjái að eðlilegast sé að hreinsa þetta mál með aðildarumsókn og þjóðaratkvæðagreiðslu um útkomu hennar.
Þar með virðast áhyggjur okkar af málalengingum,- sem þó yrðu illskárri en pattstaðan, - séu að verða óþarfar.
Líklega áttu við það varðandi sveitarstjórnarkosningarnar að Framsóknarflokkurinn, sem var minnstur í Kópavogi, fékk bæjarstjórastöðuna.
En engin er regla án undantekninga. Ég man nefnilega ekki betur en að Sigurður heitinn hafi orðið vinsælasti einstaklingurinn í stjórnmálum bæjarins þannig, að ef bæjarbúar hefðu valið sér bæjarstjóra í einstaklingskjöri, hefði hann jafnvel sigrað !
Er að vísu ekki viss um hvort þetta er rétt hjá mér eða hvort ég læt glepjast af gamalli vináttu við Sigurð sem mér fannst mætur maður.
Ómar Ragnarsson, 12.1.2009 kl. 09:52
Rétt hjá þér, nafni minn, ég átti einmitt við Sigurð Geirdal. Og hann var ágætlega mætur maður - en það breytir ekki því að úrslit kosninganna voru tæpast ákall bæjarbúa um að fá Framsóknarmann í bæjarstjórastólinn. Þetta tilskrif mitt snerist um prinsippið, ekki persónuna.
Kveðja, ÓV
Ómar Valdimarsson, 12.1.2009 kl. 10:27
Ef allt væri í stakasta lagi væru kosningar um aðildarviðræður óþarfar. En það bara er ekki allt í stakasta lagi. Því miður.
Ríkisstjórn sem nýtur stuðnings 35% kjósenda hefur ekki umboð til að fara í jafn stórt mál og aðildarviðræður eru. Stjórn sem getur ekki einu sinni afnumið eftirlaunalögin skammlaust. Með ráðherra sem ítrekað fá ofanígjöf frá Umboðsmanni Alþingis. Stjórn þar sem er stálhnefi í hádeginu og undanhald á kvöldin.
Það þarf í það allra minnsta að kjósa til Alþingis áður en nokkuð er hreyft við umsókn um ríkisborgararétt í Evrópuríkinu fyrir 320 þúsund manns.
Að "stytta sér leið" eða að "spara sér tíma" er ekki réttlætanlegt í svona stóru máli. Máli sem varðar hag komandi kynslóða Íslendinga.
Haraldur Hansson, 12.1.2009 kl. 10:29
Auðvitað yrði það ekki ríkisstjórnin sem ákvæði að fara í aðildarviðræðu heldur Alþingi.
Síðast þegar ég vissi sitja þar þjóðkjörnir fulltrúar þjóðarinnar.
Ef farið er að nota prósentutölur í skoðanakönnum, má benda Haraldi Hanssyni á að samkvæmt skoðanakönnunum vill meirihluti þjóðarinnar enn fara í aðildarviðræður við ESB.
Ef þú ert samkvæmur sjálfum þér, hlýturðu að hlusta á þessa "staðreynd" líka?
Guðbjörn Guðbjörnsson, 12.1.2009 kl. 11:52
Guðbjörn: Eins og þú veist er ein þyngsta gagnrýnin á stjórnkerfið sú að hér ríki ráðherravald og Alþingi hafi veikst. Jafnvel talað um að endurreisa þurfi Alþingi. Það er nóg að opna annað augað til að sjá hver myndi ákveða hvað.
Auðvitað tek ég mark á öllum staðreyndum og lít ekki framhjá neinum. Ef orðið hefði viðlíka hrun og hér varð, í einhverju öðru vestrænu ríki, væru ráðamenn búnir að segja af sér og embættismönnum vikið til hliðar.
Hér axlar enginn ábyrgð. Það hefur rúið stjórnvöld trausti og með því veikist umboðið um leið. Þess vegna þarf að endurnýja það. Það er ekki nóg að telja atkvæði í kosningum frá 2007 og segja "ég má það víst". Slíkri bankablindu þarf að úthýsa.
Krafan um Nýja Ísland má ekki vera orðin tóm. En hún verður það ef við föllum strax á fyrsta prófinu.
Haraldur Hansson, 12.1.2009 kl. 12:36
Ómar þið snillingar getið þá vafalaust talið upp hverjir kostir ESB eru umfram EES ? Eða trúið þið kannski líka þeirri þjóðsögu að ESB hefði hindrað bankahrunið ?
Það er ekkert þarna sem hífir okkur upp úr skítnum, nema okkar eigin dugur. Markaðir okkar eru þegar þokkalega opnir inn í ESB....hvað er þangað að sækja ? Einbeitum okkur frekar að vandanum, en að búa til stærri vanda.
Haraldur Baldursson, 12.1.2009 kl. 17:14
Ég er hlynnt því að halda áfram með flokksbundið þingræði. Við þurfum ekkert að byggja upp neitt nýtt kerfi heldur taka til í flokkunum og gera skýrar reglur um að ekki sé ásættanlegt að þingið sé færiband sem stimplar ákvarðanir ráðherra. Þingið þarf að vera miklu sterkara enda eru þar kjörnir fulltrúar þjóðarinnar sem eiga að gæta hagsmuna fólksins. Flokkarnir eiga að endurspegla vilja sinna kjósenda ef rétt er staðið að málum og því væri kannski frekar hægt að breyta uppstillingarkerfunum. Auðvitað eigum við að fara í aðildarviðræður við ESB, sjá hvað við fáum og láta svo þjóðina í heild skera úr um niðurstöðurnar en ekki láta staka einstaklinga ákveða fyrir okkur hvort fara eigi í aðildarviðræður eða ekki. Við höfum ekki efni á því að skoða ekki möguleikann og friða jafnframt þá kjósendur sem telja hag okkar betur borgið þar og trúa því að við getum fengið góðan samning. Við þurfum jú að setja framtíðarstefnu og markmið þjóðarinnar og verðum að skoða alla möguleika áður en lokaákvörðun er tekin með hagsmuni þjóðarinnar í heild að leiðarljósi.
Adda Sigurjónsdóttir (IP-tala skráð) 12.1.2009 kl. 17:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.