68-byltingin beit okkur í rassinn
27.1.2009 | 16:24
Ég er af þessari svokölluðu 68-kynslóð. Gekk með perlufestar, talaði mig hásan um ást og frið, spilaði á bongó og klæddi mig í gæruskinn, gaf skít í kerfið og boðaði þjóðfélagsbyltingar til hægri og vinstri. Þeir sem ekki voru grúví, þeir voru skver og áttu sér ekki viðreisnar von. Ekki treysta neinum yfir þrítugu, var mantran sem mig minnir að hafi verið sótt til Abbie Hoffman og 'yippanna' vestur í Bandaríkjunum. Stúdentar troðfylltu alla þjóðfélagsfræði- og heimspekikúrsa í Háskólanum, prófessorar söfnuðu hári og skeggi og fengu sér í pípu. Við Drífa Kristjáns stóðum fyrir poppmessum í Langholtskirkju í félagi við séra Sigurð heitinn Hauk og spiluðum þar Haltu kjafti og slappaðu af á fullu blasti og kölluðum tímabæra áskorun til eldri kynslóðarinnar. Svo var farið út til að mótmæla Víetnam-stríðinu og Birna Þórðar sparkaði í punginn á yfirlögregluþjóninum í Reykjavík, sem var og er sómamaður.
Stórir flokkar af þessari kynslóð trúðu því að það væri hægt að breyta heiminum, gera út af við efnishyggjuna, eyða stríði og búa við miklu manneskjulegri gildi en okkur fannst foreldrar okkar og hið ógurlega kerfi vilja reka ofan í kok á okkur. Og raunar er ég orðinn svo skver núna, að ég trúi því ennþá.
En svo komst 68-kynslóðin til manns og valda og eignaðist börn og buru. Valdamennirnir urðu Davíð Oddsson og Ólafur Ragnar og sýslumaðurinn á Selfossi og börnin kusu að verða heildsalar eða viðskiptafræðingar eða lögfræðingar! Þau fóru í bankana og vissu ekkert fyrirlitlegra en hugsjónir foreldranna um manneskjuleg gildi, ást og frið og bongó.
Því þegar öllu er á botninn hvolft, voru það börn 68-kynslóðarinnar sem stóðu fyrir útrásinni og því gengdarlausa og fullkomlega smekklausa sukki og bílífi sem nú hefur komið þjóðinni á kaldan klakann.
Ætli nokkurri kynslóð hafi tekist jafn hrapallega að ala upp börnin sín og einmitt hippakynslóðinni minni?
Þetta væri í rauninni drepfyndið ef þetta væri ekki svona hræðilega sorglegt.
Athugasemdir
Þín kynslóð sleppur nú ekki alveg svona auðveldlega, Ómar!
Björgúlfur, Kjartan, Ólafur, Finnur o.fl. Þeir eru nú enginn börn.
Ég held frekar að Frjálshyggjan hafi verið best heppnaða áróðursbragð allra tíma - því miður. Af hvaða kynslóð voru brautryðjendur hennar hér á landi?
Það var fólk á öllum aldri sem dansaði með!
Doddi (IP-tala skráð) 27.1.2009 kl. 16:52
Það létu nú ekki allir af 68- kynslóðinni heilaþvo sig.
María Kristjánsdóttir, 27.1.2009 kl. 21:06
Góður pistill.
Þín kynslóð setti fordæmi sem ennþá er munað eftir, sem betur fer. Í dag alveg eins og á "blómatímabilinu" er talað illa um þá á opinberum vettvangi sem dyrfast að mótmæla gömlu stríðsmaskínunni...... Í Bandaríkjunum var FBI í því hlutverki að njósna um hina "stórhættulegu" hippa sem hugsanlega hryðjuverkamenn, því þeir vildu jú breyta þjóðfélaginu.......hættulegir hópar eins og kvennréttindahreifingin og þeir sem börðust fyrir mannréttindum blökkumanna voru hryðjuverkamenn þess tíma... (FBI cointelpro)
Lítið hefur breyst.....nema nöfnin á hinum meintu hryðjuverkamönnum.....
ennþá jarma margir með áróðrinum frá stjórnvöldum Vestra, það hefur ekki breyst.
Það sem er kannski verra í dag er það að fólk á svo erfitt með að trúa því að stjórnvöld ljúgi til að fara í stríð, eða til þess að næla sér í auðlindir......
Eða bara til þess að redda efnahagnum....Sama gamla góða spillinginn og margir eru alltaf jafn barnalegir.
Hunter S Thompson er einn rithöfundurinn sem fjallaði um vonbrigði þinnar kynslóðar, t.d. í "Better Than Sex" sem fjallar um stjórnmál þrátt fyrir nafnið.....
Hann hataði Nixon alla sína hundstíð en bar á endanum smá virðingu fyrir honum vegna þess að hann var svo augljóslega illur maður, sem hann taldi eftir á að hyggja virðingarverðara en hinir en fölsku stjórnmálamenn nútímans sem þykjast vera góðir en eru svo ennþá verri menn en Nixon.
Fólk dansar með eins og einhver bendir á hér að ofan, en benda svo á allt og alla nema sjálf sig........í takt við tónlistina.
magus (IP-tala skráð) 27.1.2009 kl. 21:14
Var það ekki '68 kynslóðin sem gekk um með rauð kver Maós? Skildi það aldrei. Er þetta ekki bara í genunum? Ungt fólk vill breytingar en nennir svo ekki aðstanda í því seinna? Vill frekar búa sig vel undir ellina og aurar í vasa eru besta tryggingin fyrir rólegu ævikvöldi. Nú og svo eru peningar fínir í að borga fyrir dýra bíla og stór hús sem ganga í augun á hinu kyninu sem gerir okkur kleyft að spreða genunum, því það snýst allt um sex...
Villi Asgeirsson, 28.1.2009 kl. 09:26
Sem sag allt skrifað á okkur hehehe...
Ía Jóhannsdóttir, 28.1.2009 kl. 09:27
Kemur kannski ekki þessu máli við en er rétt munað hjá mér að þú hafir legið sem dauður í vegkanti og beðið eftir miskunnsama Samverjanum? Reyndar dálítið síðar en '68.
Yngvi Högnason, 29.1.2009 kl. 09:58
...og beið og beið en Samverjinn kom bæði seint og illa. Það er rétt, einhverntíma gerðist þetta. Þá var ég ungur blaðamaður á Vikunni. Það ætti að þjóðnýta minnið í þér.
Ómar Valdimarsson, 29.1.2009 kl. 10:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.