Þaulseta án sóma

Þaulseta Seðlabankastjóranna tveggja sem eftir eru verður stöðugt vandræðalegri - í rauninni alveg með ólíkindum. Mér er ómögulegt að skilja hvaða endalokum þeir eru að bíða eftir.

Nú þykir mér ekki ólíklegt að þeir Eiríkur Guðnason og Davíð Oddsson telji sig hafa gildar ástæður fyrir afstöðu sinni. En þeir segja ekkert um þær - hvorki við almúgann né yfirmann sinn forsætisráðherrann, að manni skilst. Mér þætti hinsvegar gott að vita hverjar þessar ástæður eru.

Bankastjórarnir telja sig vafalaust órétti beittir - og að vissu leyti með réttu, því hingað til hefur ekkert það komið fram sem bendir til að þeir hafi gerst sekir um bein tækileg afglöp í starfi. Froðufellandi og heilalaust hatur í garð Davíðs Oddssonar sem við höfum orðið vitni að á undanförnum vikum og mánuðum hefur heldur ekki leitt nokkuð slíkt í ljós.

En auðvitað verða mennirnir að fara, sama hvaða ástæður þeir telja sig hafa til að sitja áfram. 

Það sem ég skil ekki er hvers vegna þeir vilja ekki gera það með sæmilegum sóma.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon


Samantekt Helga Hjörvar. Ætli eitthvað af þessu gæti ekki talist "nokkuð slíkt":  

1. Seðlabankinn er gjaldþrota. Stjórnendur hans töpuðu 150 milljörðum í óvarlegri lánastarfsemi til svokallaðra „óreiðumanna” í því sem kallað var ástarbréfaviðskipti. Þetta jafngildir hálfri milljón króna á hvert mannsbarn í landinu.
2. Seðlabankinn nýtti ekki góðu dagana til að byggja upp gjaldeyrisvaraforða í samræmi við vöxt fjármálakerfisins, þrátt fyrir ábendingar um nauðsyn þess, m.a. frá Þorvaldi Gylfasyni. Viðbúnaður bankans við fjármálakreppu var því í skötulíki.
3. Jafnvel í vor synjaði bankinn láni frá J.P. Morgan sem bauðst á góðum kjörum og nam hærri fjárhæð en aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins nú. Lýsir það ótrúlegu vanmati á viðbúnaðarþörf.
4. Bankinn áttar sig ekki á hlutverki sínu í fjármálastöðugleika og beitti ekki stjórntækjum sínum til að hemja vöxt bankanna, heldur lækkaði þvert á móti bindiskyldu sem var mjög misráðið.
5. Seðlabankinn hefur nær aldrei náð verðbólgumarkmiði sínu frá því honum var sett það í upphafi aldarinnar.
6. Bankinn vanmat augljóslega áhrif of sterks gengis á neyslu og fjárfestingagleði og þar með þenslu.
7. Að geyma gjaldeyrisforða þjóðarinnar á Englandi eftir að Icesave-vandinn var ljós og hætta á frystingu hans, er líkt því að vera í sjóorrustu hjá skipstjóra sem gleymdi púðrinu í landi. Yfirsjónin ætti að varða við þjóðaröryggi.
8. Óviðunandi er að stjórnendur Seðlabankans hafi frétt það í London í febrúar sl. að íslensku bankarnir væru í alvarlegum vanda. Ætlast verður til þess vegna stöðu og hlutverks bankans að hann hefði átt að uppgötva það sjálfur og fyrr.
9. Óskiljanlegar eru ívilnanir hinn 15. apríl í tengslum við bindiskyldu vegna útibúa erlendis eftir þær upplýsingar sem Seðlabankinn hafði fengið í London.
10. Hafi Seðlabankinn fengið svo greinargóðar upplýsingar um stöðu bankanna í London er skýrsla bankans um fjármálalegan stöðugleika frá maí sl. beinlínis villandi upplýsingagjöf.
11. Ófaglegt er að engin viðbragðsáætlun hafi verið til í bankanum vegna fjármálakreppu.
12. Lækkun og hækkun vaxta á víxl jók ekki trúverðugleika.
13. Óheppilegt var og trúlega viðvaningsháttur að Seðlabankinn keppti við viðskiptabankana um fjármagn, m.a. með skuldabréfaútgáfu og í lánalínum.
14. Viðvaningsháttur var að bankinn þagði þegar fréttir bárust af því að hann væri ekki með í samningum norrænu seðlabankana við þann bandaríska. Að bankinn skyldi ekki ná samningum við þann bandaríska var nógu slæmt en þögnin jók á ótta og óvissu og gróf enn frekar undan trúverðugleika á ögurstundu.
15. Ákvörðun um ríkisvæðingu Glitnis var stórslys. Svo röng var hún að stjórnvöld vonuðust fljótlega eftir þroti bankans svo ekki þyrfti að efna samninga! Hve illa er þá komið fyrir trúverðugleika Seðlabankans?
16. Fum og fát í gengismálum dró enn frekar úr trúverðugleika og fagmennsku í Seðlabanka Íslands. Ákvörðun um að festa gengið við 175 stig verður lengi kennd sem hrapaleg mistök, enda lifði „staðfesta” bankans í gengismálum aðeins í tvo daga, því oftrúin á krónuna var svo víðs fjarri veruleikanum á gjaldeyrismarkaði. Hún hefur síðan fallið um tugi prósenta.
17. Kastljósviðtal við formann bankastjórnar hjálpaði ekki til við að verja stærsta fyrirtæki landsins, Kaupþing, falli.
18. Þyngra er en tárum taki ótímabær yfirlýsing Seðlabankans um svokallað Rússalán. Bæði spillti það mjög þeim lánasamningum sem Geir Haarde hafði átt frumkvæði að og einnig orðspori okkar á alþjóðavettvangi.
19. Fyrrnefnt Kastljósviðtal, sem m.a. var birt í Wall Street Journal, dró nokkuð úr trúverðugleika íslensks fjármálakerfis á viðkvæmu augnabliki. Einkum þau ummæli sem voru þýdd svo:…Iceland is „not going to pay the banks’ foreign debts”.
20. Óheppilegt var að seðlabankastjóri skyldi hóta stjórnarformanni stærsta fyrirtækis landsins knésetningu.
21. Óheppilegt er að seðlabankastjóri dylgi um viðskipti einstaklinga við bankakerfið og ástæður beitingar hryðjuverkalaga.
22. Óheppilegt er að seðlabankastjóri aflétti einhliða trúnaði af fundum sínum með forystumönnum ríkisstjórnarinnar og samningum við IMF.
23. Óheppilegt er að seðlabankastjóri veiti seðlabankastjórum annarra ríkja tilsögn í mannasiðum.

Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 8.2.2009 kl. 09:48

2 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

 Upptalningin hér að ofan er nokkuð ítarleg og það skal tekið fram að þarna eru bara talin atriði sem viðtað er um úti í samfélaginu.

Staða þeirra D og E er að verða aumkunarverð og einkennileg. Þegar einhverjum er sagt upp í vinnunni þá vaninn að viðkomandi hætti. Auðvitað eru margir ósáttir sem er skiljanlegt, en svona er á svörtu loftum í dag.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 8.2.2009 kl. 11:15

3 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Kommon Þett eru bara 23 yfirsjónir og ég get nú slegið pennastriki yfir þær allar enda bara hatursmenn á einum manni sem koma upp með svona róg og skæting. Getiði ekki komið upp með eitthvað staðbetra morons. Ómar minn þú lætur þetta ekki hafa áhrif á þig.

Annars ráðleg ég gömlum poppurum að hlusta aftur á All Along the Watchtower í útsetningu og flutningi Jimi Hendrix. Það er fyrir mér spot on á stemminguna í dag.

Gísli Ingvarsson, 8.2.2009 kl. 11:49

4 identicon

Ef menn ætla að vitna í þessa upptalningu Helga Hjörvars verða menn líka að sýna svörin sem Ingimundur sendi frá sér.  Ef menn ætla sér að fá þjóðfélag sanngirni og réttvísi þá verða menn að muna að það gerist ekki með því að halda öðrum sjónarhornum út úr umræðunni.

Tómas Örn (IP-tala skráð) 8.2.2009 kl. 17:01

5 Smámynd: Ómar Valdimarsson

Ég hafði reyndar ekki séð grein Ingimundar - en sýnist þó að listi Helga Hjörvar sé fyrst og fremst yfir meintar pólitískar yfirsjónir. Annars skiptir það ekki öllu máli í þessu heldur hitt, að sú staða sem nú er komin upp er algjörlega ómöguleg. Bæði fyrir ríkisstjórnina og bankastjórn Seðlabankans - svo ekki sé nú minnst á sjálfa þjóðina og orðspor hennar út á við.

Ómar Valdimarsson, 8.2.2009 kl. 18:50

6 Smámynd: Þór Ludwig Stiefel TORA

Þessir tveir sem enn sitja, klárlega Davíð eins og sést af svarbréfi hans til forsætisráðherra, sjá ekki hjá sér NEINA sök á ástandinu. Það er með ólíkindum að æðstu stjórnendur Seðlabanka lands geti reynt að fyrra sig ábyrgð þegar land verður gjaldþrota á þeirra vakt. Maður á bara vart til orð!

Þór Ludwig Stiefel TORA, 8.2.2009 kl. 20:09

7 identicon

Orðin " - yfirmann sinn forsætisráðherrann" vejast fyrir mér.  Seðlabankinn er jú sjálfstæð stofnun, er það ekki?

Með fullri virðingu,

EE elle

EE (IP-tala skráð) 8.2.2009 kl. 22:15

8 identicon

Þ.e. - vefjast fyrir mér.

EE elle

EE (IP-tala skráð) 8.2.2009 kl. 22:16

9 Smámynd: Erlingur H Valdimarsson

Bölvað að Davíð skuli ekki hætta! sko er nebbilega búinn að sækja um starfið.Hafandi hann þarna þegar ég er tekinn til starfa veit ég að hann muni vera í því að fela strokleður og þynna vískið mitt með vatni

Erlingur H Valdimarsson, 8.2.2009 kl. 22:25

10 identicon

Þessir bankastjórar sem enn sitja eru bara dragbítar á þjóðfélaginu því það er augljóst að það þjónar engum tilgangi fyrir þá að sitja þarna lengur. Það eru frekar fáir sem hafa trú á Dabba og þá gildir einu hvar í heimi menn eru og varla batnar það á næstunni. Þetta er bara grátlegt gagnvart þjóðinni að þessir menn skuli ekki hafa haft sóma í sér til yfirgefa bankann fljótlega eftir hrunið.  Það er hlegið af okkur út í heimi vegna Seðlabankans, traustið er ekkert og verður ekkert fyrr en félagarnir tveir fara. Hér er ekki um neitt hatur að ræða þó það verði að teljast nokkuð augljóst að Davíð Oddson hafi komið nokkuð nálægt leikreglunum undanfarin ár. Davíð, farðu bara að skrifa bækur eða eitthvað, það fer þér miklu betur. Ekki biðja þjóðina að hata þig, það er óþarfi!

Þröstur (IP-tala skráð) 8.2.2009 kl. 23:31

11 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Hvað um það brot að setja Seðlbankann á hausinn? - Bankinn varð gjaldþrota undir stjórn Davíðs og félaga, lenti 150 milljörðum undir núlli - og líklega ekki allt þá talið, og þurfti 300 milljarða til að hafa lágmarks eigið fé.

Hvað varð um bankastjóra hinna bankanna þegar þeir urðu að játa sig sigraða? - Hvar eru forstjórar þeirra stórfyrirtækja sem hafa undanfarið lent undir núlli?

- Hvað vitleysis tal um hatur og einelti er þetta? - Ef einhver maður þarf yfir höfuð að sæta ábyrgð í öllu þessu máli er það yfirsmiðurinn, kerfishönnuðurinn og verkstjórnandinn Davíð Oddsson. - Og það er þessvegna sem hann verður að sæt ábyrgð vegna þess að þetta er hans verk, hönnun og smíð. - Hann ber höfuð ábyrgðina og það er hámark aulaháttarins að gangast ekki við henni, -nóg vildi hann monta sig af verkinu áður.

Vísa líka á „Bréfaritarann Davíð“ hér - afar athyglisverð 10 ára gömul fréttaskýring Friðriks Þórs um bréf Davíðs og brottrekstra þeirra sem fyrir honum voru, allt frá ræstingakonu til bankastjóra.

Helgi Jóhann Hauksson, 9.2.2009 kl. 03:00

12 identicon

Ég sagði að ofan að Seðlabankinn væri sjálfstæð stofnun.  Ætla hins vegar að taka það fram að ég meinti ekki að yfirseðlabankastjóri ætti ekki að víkja.  Eðlilegast hefði verið að hann hefði vikið í október, ef ekki fyrr, að mínum dómi.

EE elle

EE (IP-tala skráð) 9.2.2009 kl. 09:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband