Óendanlegur hryllingur Tuol Sleng
18.2.2009 | 12:19
Þeir eru loksins farnir að rétta yfir fjöldamorðingjum Rauðu khmeranna austur í Kambódíu, þremur áratugum eftir að Pol Pot og hans nótar hófu slátrunina. Stjórnvöld þar í landi hafa að vísu séð til þess að flestir þeirra sem mesta sök báru fengu að lifa í friði sína ævidaga enda forsætisráðherrann, Hun Sen, fyrrum samherji Pols Pots. Kannski verður einhverntíma réttað yfir honum sjálfum fyrir mannréttindabrot hans og spillingu og fyrir að hafa komið í veg fyrir að Kambódíumenn hafi fengið að gera upp þennan ógnarlega kafla í sögu sinni.
En réttarhöldin eru hafin og það er gott.
Sá fyrsti fyrir réttinum er fyrrum yfirmaður útrýmingarmiðstöðvarinnar Tuol Sleng eða S-21, sem var sett upp í gagnfræðaskóla í höfuðborginni Phnom Penh. Þar er nú safn án þess að nokkru hafi verið breytt eða lagað til eftir að manndrápunum og pyntingunum lauk.
Heimsókn þangað er einhver svakalegasta upplifun sem ég hef orðið fyrir. Maður gengur í gegnum þessa byggingu þar sem þúsundir manna létu lífið og smám saman rennur hryllingurinn upp fyrir manni: sumar skólastofur voru notaðar til pyntinga og þar eru enn blóðslettur á gólfum og ótrúlega frumstæð pyntingartæki að ryðga og rotna í hitabeltissvækjunni. Sums staðar eru málverk eftir þá sem lifðu vistina af og loks kemur maður í stórt herbergi þar sem eru myndir af hundruðum fórnarlamba: Rauðu khmerarnir gættu þess nefnilega að skrásetja vandlega öll sín fórnarlömb börn og gamalmenni og allt þar á milli.
Það tekur marga daga að ná úr sér hrollinum eftir heimsókn í Tuol Sleng en hún er þess virði, bæði til að reyna að skilja vonsku mannsins og til að geta dáðst að nær óendanlegri þrautsegju hans.
Athugasemdir
Hvað er það sem rekur fólk til svona voðaverka? Ég ætlast ekki til þess að fá svar, en samt kemur þessi spurning fram úr fingrunum sem pikka á lyklaborðið.
Hvernig stendur á því að fólk sem nær ógnarvaldi yfir öðru fólki, verður svo ósnertanlegt að ekki er hægt að hrófla við því, þó fjöldinn vilji það. Er það óttinn sem leiðir eða meðvirkni eða bara eitthvað allt annað.
Heilaþvottur er eitthvað sem talað er um í þessu sambandið og skoðanankúgun. Hvernig má það vera að alþjóðasamfélagið standi bara hjá og skerist ekki í leikinn.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 18.2.2009 kl. 14:39
Alþjóðasamfélagið skerst aldrei í leikinn nema hagsmunir USA séu í húfi og hvernig þeir geti náð yfirráðum yfir auðlindum annarra ríkja. Til dæmis snýst tilurð og tilvera Sameinuðu þjóðanna um þetta eitt og ekkert annað, hagsmuni Bandaríkja Norður-Ameríku. Skýrustu dæmin þar um er annars vegar innrásin í Írak og hins vegar takmarkalaus verndun helfarar nazistanna í Ísrael gegn palenstínsku þjóðinni. Þarf nokkuð fleiri dæmi?
corvus corax, 18.2.2009 kl. 15:43
Ég er sammála því að það taki nokkra daga að ná úr sér hrollinum eftir heimsókn til þessa skelfilega staðar.
Ég var þarna á ferð 2004 og fæ hroll þegar ég skoða myndirnar mínar frá þessum stað. Þó ég vilji ekki gera lítið úr ómanneskjulegri meðferð nasista á fólki í útrýmingarbúðum þeirra, þá eru drápsaðferðirnar slíkar að maður á erfitt með að æla ekki þegar maður er að lesa sig til um og skoða þetta á svæðinu, með mannabein fórnarlambanna undir fótum sér.
Þetta er ein ótrúlegasta saga mannvonsku sem til er á seinni tímum.
Kristján Guðmundsson, 18.2.2009 kl. 17:03
Ég hef ekki komið á þennan stað og ekki viss um að ég vilji það en ég hef komið í útýmingabúðir nasista og það er eitthvað sem maður hristir ekki af sér á nokkrum dögum. Eftir svoleiðis heimsókn er ekki laust við að maður daprist svolítið í trúnni á mannlegt eðli. ER eðli okkar þannig að lifum við ákveðna tegund hugmyndafræði þá glatist sá hluti okkar sem gerir okkur mennsk ?
Hjalti Tómasson, 18.2.2009 kl. 22:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.