Sýnileg siðbót
23.3.2009 | 20:31
Ríkisstjórnin verður að fá að eiga það sem hún á: það hafa orðið stórstígar framfarir á vissum sviðum hér á síðustu vikum, ekki síst hvað varðar upplýsingagjöf og gegnsæi. Kannski eru kröfur um siðbót í stjórnsýslunni að bera árangur!
Þrennt stendur uppúr síðustu daga allt mikil framfaraspor og til fyrirmyndar:
1. Ríkisskattstjóri hefur birt, í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins, upplýsingar um fjármál stjórnmálaflokkanna. Um þetta hefur verið beðið svo lengi sem ég man en ekki tekist fyrr en nú. Mig grunar að þetta hefði ekki gerst með Sjálfstæðisflokkinn í stjórnarráðinu.
2. Úrskurðarnefnd upplýsingamála hefur veitt Morgunblaðinu fullan aðgang að öllum gögnum um einkavæðingarferli bankanna. Mogginn er að birta glimrandi fínar greinar uppúr þessum gögnum nú um dagana. Strax hefur ýmislegt kúnstugt komið í ljós og sennilega margt eftir. Svo er að upplýsa hvers vegna þær ákvarðanir voru teknar sem reyndin varð ekki er endilega víst að það sé allt skjalfest.
3. Minnisblað Davíðs Oddssonar um fundina með bankastjórum í Bretlandi hefur verið birt og staðfestir það sem alla hefur grunað: auðvitað höfðu menn upplýsingar um að bankarnir væru í vafasömum málum löngu áður en þeir hrundu en hvorki Seðlabankinn né ríkisstjórnin gerðu nokkuð með þær upplýsingar. Seðlabankinn neitaði Vísi síðast fyrir fáeinum dögum um aðgang að plagginu, svo tæpast er það þaðan komið. Enda skiptir ekki alltaf máli hvaðan gott kemur.
Og svo leyfi ég mér að efast um að reglur um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum alþingismanna og trúnaðarstörfum þeirra utan þings hefðu umsvifalaust verið teknar upp í ríkisstjórninni ef sú fyrri sæti enn.
En svo getur upplýsingagleðin líka gengið örlítið of langt eins og á laugardaginn þegar fjármálaráðherrann gat ekki stillt sig um að senda út fréttatilkynningu um yfirtökuna á SPRON og Sparisjóðabankanum klukkutíma áður en bankamálaráðherrann hélt sinn blaðamannafund um málið og þurfti svo að biðja fjölmiðla um að bíða aðeins með birtingu upplýsinganna. Hefði ekki verið í lagi að láta Gylfa bara um málið?
Athugasemdir
Já það er aðeins byrjað að rofa til og farið að veita upplýsingar. Ég ætla bara að vona að upplýsingagjöf sé ekki stýrt til að hafa áhrif á kosningarnar. Það er örugglega margt eftir að koma fram sem er kannski alveg eftir bókinni. En það er partur af tiltekt, þá finnst oftast einhver skítur.
En að öðru, verið er að vinna við gamalt hús í Borgarnesi og þar fundust atkvæðaseðlar frá 1937, rúmlega fimmtíu atkvæði og flest greidd Sjálfstæðisframbjóðanda þess tíma sem hét Þorsteinn. Þetta hlýtur að valda vantrausti á kosningayfirvöld í Borgarnesi, eða hvað ??
Hólmfríður Bjarnadóttir, 23.3.2009 kl. 23:03
En hvað um framtíðina. Hvaða upplýsingar höfum við um hvernig fjárlagahallinn verður brúaður upp á 50ma. Hversu mikið hækka skattar og hvar verður skorið niður. Engir flokkar eru með haldbærar framtíðastefnu sem er tímasett og forgangröðuð. Hver er forgangsröðun hjá VG. Ekki orð um það eftir þeirra landsfund og enn minna af upplýsingum frá S, D og B. Nei, betur má ef duga skal.
Það er rétt að hlutirnar hafa aðeins batnað en alls ekki nóg.
Andri Geir Arinbjarnarson, 23.3.2009 kl. 23:33
Enn er rétt er að halda staðreyndum til haga: það var Úrskurðarnefnd upplýsingamála sem tryggði birtingu skýrslunnar að kröfu fréttastofu Ríkisútvarpsins. Nefndin er greinilega öll að koma til!
Ómar Valdimarsson, 23.3.2009 kl. 23:48
Sammála þér Ómar, mikið af upplýsingum streymir nú fram á sjónarsviðið og það er gott.
Á hinn bóginn þá er maður eiginlega í daglegri sjokkmeðferð.
Spillingin og siðblindan sem hér hefur grasserað er hreint ótrúleg. Það síðast að opinber einkahlutafélög eru í bullandi pólitík með því að styrkja ákveðna stjórnmálaflokka. Hafa menn alveg misst sjónar á því hvað er rétt og hvað er rangt? Er siðblindan algjör?
Friðrik Hansen Guðmundsson, 23.3.2009 kl. 23:53
Hvað segja þeir sem kusu Illuga í 1. sæti í Reykjavík og Björgvin á lista á Suðurlandi?
Andri Geir Arinbjarnarson, 24.3.2009 kl. 09:01
Nú stíga vitringar á svið, Ómar og Friðrik tekur undir. Lögin um upplýsingar um fjármál stjórnmálaflokkana voru ekki samin í tíð Jógu flugfreyju, nei, fyrir kannski tveim árum í tíð Sjálfstæðisflokksins. Rosalega eru þið stutteygðir, strákar og ef allt sem kemur frá þér Ómar er ekki byggt á meiri þekkingu en þetta, segi ég ekki meira um visku þína. Svo er Friðrik séní þegar hann segir að siðblindan sé hreint ótrúleg þegar opinber einkahlutafélög eru að styrkja ákveðna stjórnmálaflokka. Staðreyndin er að þegar þessi lög voru sett þá voru gjaldkerar allra flokksfélaga á Íslandi ekki lögfræðingar. Þetta var nýjung og hver kennitala mátti styðja hvern flokk um kr. 300.000.- Ef við tökum sem dæmi þá eru staðarfélög Sjálfstæðisflokksins kannski 150. Þau hafa því 150 gjaldkera. Fyrir þá var þetta nýtt umhverfi og á endanum fóru tvö félög út af brautinni og hafa skilað sínum styrkjum. Dæmið nú báðir sveinar eins hart og þið hafið gert, já er ekki algjör spilling í gangi ? Sem upplýsir sjálfa sig með því að birta allar tölur ?
ps: Þessi Friðrik Hansen Guðmundsson, er það sami maðurinn og skrifaði margar greinar um að Hvalfjarðargöng myndu hrinja saman á fyrsta degi með hörmulegum afleiðingum ?
Örn Johnson ´43 (IP-tala skráð) 25.3.2009 kl. 05:58
Umræðan hér fer oft út og suður og það gerir hún hjá Erni Johnson '43. Upphafsfærsla mín hér fjallaði ekki um hvenær lögin um fjármál flokkanna voru samin heldur að nú hefur ríkisskattstjóri í fyrsta sinn birt greiningu á þessum upplýsingum. Hvenær lögin voru samin kemur málinu ekki við. En ég get tekið undir það með honum að dæmin um misfellur í styrkveitingunum (amk árið 2007) virðast mun færri en hefði mátt ætla.
Ómar Valdimarsson, 25.3.2009 kl. 16:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.