Dog and Pony Show
24.3.2009 | 17:12
Einu sinni vann ég á skrifstofu í Afríku þar sem margvíslegur vandi steðjaði að: skipulag í molum, verklag sömuleiðis, fjáröflun ómarkviss, verkstjórn afleit, almenn forustukreppa og grasserandi spilling.
Erlendur 'sérfræðingur' kom í heimsókn til að taka út ástandið. Hann skrifaði mikla skýrslu með fjölmörgum ábendingum um það sem betur mætti fara og tiltók nokkur atriði sem var brýnt að koma í lag. Í framhjáhlaupi gat hann þess að anddyri skrifstofubyggingarinnar og aðkoma öll gæti vel litið betur út.
Stjórnendur þessarar skrifstofu tóku skýrslunni fagnandi og keyptu umsvifalaust ný húsgögn í móttökuna og á skrifstofur þeirra tveggja yfirmanna sem mesta ábyrgð báru. Annað var ekki gert.
Skömmu síðar fluttist ég á milli landa og settist að í höfuðstöðvum meðalstórs fyrirtækis sem var álíka komið fyrir. Forustumenn fyrirtækisins hittu þungaviktarmenn í alþjóðlega ráðgjafabransanum sem sögðu að ef fyrirtækið ekki hysjaði upp um sig buxurnar í einum grænum, þá færi það á hausinn með hvelli. Í framhjáhlaupi gátu þeir þess að kannski væri sniðugt að fara með 'road show' á nokkra staði til að hífa upp ímyndina.
Það fór eins hjá þessu fyrirtæki og skrifstofunni í Afríku: eina ráðið sem var þegið var þetta um farandsýninguna. Hitt var allt látið eiga sig - enda fór fyrirtækið á dúndrandi hausinn skömmu síðar og sér ekki enn fyrir endann á öllum þeim hörmungum.
Farandsýningin sem átti að bjarga málunum reyndist vera það sem háðskir Ameríkumenn kalla 'dog and pony show' sem allir sáu í gegnum og því fór sem fór.
Athugasemdir
Eva Joly á að baki glæstan feril og við skulum ekki vanmeta hana og hún á eftir að koma á óvart. Hins vegar er mikilvægt að vandað verði vel til við val á erlendum sérfræðingum og reynsluskrá þeirra verði skoðuð og metin áður en þeir taka hér til starfa.
Hilmar Gunnlaugsson, 24.3.2009 kl. 21:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.