Upplognar skoðanir
30.3.2009 | 20:09
Umræðan gengur of oft út á bull og vitleysu. Það hafa menn verið að halda því fram að einhverjir aðrir telji að aðild að Evrópusambandinu og upptaka Evru sé einhverskonar töfralausn sem muni slétta út allan vanda á svipstundu.
Hver hefur verið að halda því fram? Hver telur að Evrópusambandið og Evran leysi allan vanda? Enginn sem ég þekki eða hef heyrt í eða heyrt af. Ekki ég. Auðvitað eru engar svoleiðis galdralausnir til.
Hvers vegna er þá verið að ljúga þessum skoðunum upp á fólk? Það skyldi þó ekki vera gegn betri vitund?
Það breytir ekki því að ég er enn þeirrar skoðunar að við endum í Evrópusambandinu og tökum upp nothæfan gjaldmiðil. Og því fyrr sem það gerist þeim mun meiri möguleika eigum við á að gera það á okkar eigin forsendum.
Athugasemdir
Þetta er rétt athugað Ómar en andstæðingar sambandsins hafa oft notað þessa gömlu tuggu yfir stuðningsmenn ESB. Slíkur áróður er þeim vart til góðs og er ég farinn að hallast á þá skoðun að margir þeir sem séu á móti ESB séu afar ólýðræðislegir í hugsun t.d. talsmenn L-listans sem neita þvví ítrekað að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um sambandið. Að sjálfsögðu er það hið eina rétta að þjóðin fái að hafa lokaorðið.
Hilmar Gunnlaugsson, 30.3.2009 kl. 23:44
"..að hagsmunum okkar sé best borgið innan ESB.." er setning sem formaður Samfylkingarinnar notar þegar hún talar um nauðsyn þess að Íslendingar sæki um aðild að ESB.
Þeir sem harðast berjast gegn ESB nota allskonar bull og vitleysu máli sínu til stuðnings og þá gjarnan þessa klisju um að ESB sé einskonar töfralausn í hugum okkar Evrópusinna.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 31.3.2009 kl. 04:05
Löngu fyrir bankahrun fjallaði ég ítrekað um að taka upp aðra mynt á Íslandi. Við allnokkra yfirlegu lagði ég til að reynt yrði að semja við Norðmenn um upptöku norsku krónunnar. Evran og dollar komu einnig til greina, en ég sá ekki fyrir mér að samstaða næðist um upptöku á Evrunni.
Til þess að fara í Evrópusambandi, þá duga rökin, ,,af því bara" afskaplega skammt. Ef við verðum að skerða rétt okkar til fiskveiða, þá duga þessi rök enn skemur.
Ég hef lesið greinar þar sem rökin eru að við séum hluti af Evrópu,við þurfum að fara inn í nútímann, vera alþjóðleg og efla tengsl við nágranaríkin.
Ef ekkert annað fylgir er full ástæða að halda að einhverjir aðrir telji að aðild að Evrópusambandinu og upptaka Evru sé einhverskonar töfralausn.
Aðild að ESB var lengi vel ekki á dagskrá. Nú er hún á dagskrá. Samkvæmt síðustu skoðanakönnun sem ég sá vildi meirihluti að farið yrði í aðildarviðræður, en minnihluti taldi að við gengjum í sambandið.
Þegar ég upplifi allmarga stuðningsmenn ESB líta á aðild sem töfralausn, er það engin óvild í garð stuðningsmanna. Ég vil bara rök með og á móti, sjálfsagt eins og stór hluti þjóðarinnar. Þegar rök vantar dreg ég þá ályktun að um sé að ræða trúarbrögð. Þegar fólk upplifir slíkt, þá finnst því stuðningsmennirnir telji að aðild að Evrópusambandinu og upptaka Evru sé einhverskonar töfralausn sem muni slétta út allan vanda á svipstundu. Það hefur ekkert með upplognar skoðanir að gera.
Sigurður Þorsteinsson, 31.3.2009 kl. 08:25
Þessi klisja er vörn rökþrota fólks - sem er andsnúið þeim sjálfsagða rétti þjóðarinnar að komast til botns í málinu með aðildarviðræðum.
Yfirráð yfir auðlindum og fullveldi þjóðarinnar eru sögð fara fyrir lítið við inngöngu.
Eru Bretar búnir að missa sínar auðlindir? Búa Danir við minna fullveldi en við?
Þegar krónan mun endanlega verða jarðsunginn þá verður þjóðin að hafa annan gjaldmiðil. Allir skynsamir Íslendingar vita að Evran er eini raunhæfi kosturinn. Og hún er ekki í boði nema við inngöngu í ES.
Með inngöngu fáum við Evru, losnum við verðtryggingu, vextir geta lækkað, vöruverð getur lækkað, og rekstur fyrirtækja verður loks raunhæfur.
Við missum ekki meira fullveldi en þegar er orðið gegnum EES. Landbúnaður og sjávarútvegur munu aðlaga sig nýju umhverfi sem bæði býður uppá nýja möguleika og nýj vandamál.
Við erum Evrópuþjóð, ES er merkileg tilraun þjóða til að gera lífið betra sem sameiginlegu verkfæri.
Í dag erum við háð reglugerðum frá ES án mikilla möguleika á að hafa áhrif á þróun sambandsins.
Eigum við að ræða þetta eitthvað frekar?
Hjálmtýr V Heiðdal, 31.3.2009 kl. 08:36
Þessar ódýru einfaldanir á málflutningi eru afar þreytandi og fæstum samboðnar.
Ekki hvarflar t.d. að mér að halda því fram að Davíð Oddsson hafi líkt sjálfum sér við frelsarann í Laugardalshöllinni, þó mér þætti ræðan hans rætin og ómerkileg. (Reyndar honum alveg samboðin, en það er nú önnur saga)
Fylgdist með þessarri Evró-umræðu í Bretlandi á sínum tíma. Sé að sagan endurtekur sig enn og aftur; það eru lengst til vinstri og lengst til hægri, sem sameinast í því að vera hörðustu öflin á móti.
Athyglisvert.
Hildur Helga Sigurðardóttir, 31.3.2009 kl. 08:44
Það er rökstuðningur eins og hjá Hjálmtý V Heiðdal sem kallar fram þá hugsun að menn telji þá sem styðja inngöngu í ESB og upptöku Evru halda slíku fram sem töfralausn.
Með upptöku á annarri mynt er líklegt að vaxtastig lækki, hér yrði meiri stöðugleiki og því gæti verðtrygging fallið niður. Vandamálið er bara að þó að við færum inn í ESB á þessu ári, eru mörg ár þangað til að við hefðum heimild til þess að taka upp Evruna.
Merkilegasta framlagið er: ,,Landbúnaður og sjávarútvegur munu aðlaga sig nýju umhverfi sem bæði býður uppá nýja möguleika og ný vandamál".
Til hvers eru VG, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn með efasemdir um sjávarútveg og landbúnað innan ESB?
Það vantar bara, allir verða brosandi þegar við erum komin í ESB.
Umræðan verður að vera á nokk hærra plani en þetta.
Sigurður Þorsteinsson, 31.3.2009 kl. 08:51
Hvað er að verðtryggingunni? Það er ekki hún sem er að sliga fólk. Það eru þessir brjálæðislega háu vextir. Munurinn á húsnæðisláni á Íslandi og í Danmörku er svona:
Það eru vextirnir sem eru allt að drepa.
Einföldum dæmið. Þú skuldar 30 milljónir vegna íbúðar, til 30 ára. Þú greiðir 1.000.000 á ári í afborgun.
Í vexti greiðast fyrsta árið 6% af 30 milljónum. Það gera 1.800.000 krónur, samtals 2.800.000.
Í Danmörku greiðir sá sem skuldar 30 milljónir á sama hátt 0,8% vexti. Sá borgar því 240.000 í vexti og svo eina milljón í afborgun. Það gera 1.240.000 krónur.
Hér munar „aðeins“ 1.560.000 króna. Það eru til margra ára of háir vextir sem eru bölið.
Birgir Þór Bragason, 31.3.2009 kl. 09:14
á að vera: að gera lífið betra sem sameiginlegu verkfæri.
Hjálmtýr V Heiðdal, 31.3.2009 kl. 09:16
„Það er rökstuðningur eins og hjá Hjálmtý V Heiðdal sem kallar fram þá hugsun að menn telji þá sem styðja inngöngu í ESB og upptöku Evru halda slíku fram sem töfralausn.“
Stutt innlegg á bloggsíðu er auðvitað ekki mikil úttekt á kostum og göllum ES Sigurður.
Og að sjálfsögðu er nærtækasta verkefnið að laga ástandið hér og nú, inngangan og aðlögunin tekur sinn tíma. En þú getur ekki gripið mitt innskot á lofti og kenna það við töfralausn. Það er ódýrt trikk.
Hjálmtýr V Heiðdal, 31.3.2009 kl. 09:58
Allt er þetta nú heldur nöturleg umræða. Svarthvít umræða. Þjóðin skiptist í fylkingar. Annarsvegar ofsatrúarfólk á borð við Árna Pál Árnason og Dag Eggertsson og svo hinsvegar íhaldsmenn á borð við Styrmi Gunnarsson, Bjarna Harðarson og Hjörleif Guttormsson. Eins og málinu hefur verið stillt upp undanfarna daga verður ekki hægt að mynda ríkisstjórn að loknum kosningum. Það væri afar slæmt í þessu ástandi sem nú ríkir. Það sjá allir sem vilja sjá það, að langlýðræðislegasta leiðin er að þjóðin kjósi um hvort við eigum að sækja um aðild eða ekki. Það er afar einkennilegt lýðræði L listans að halda því fram að hafni þjóðin aðildarumsókn verði bara kosið aftur og aftur uns sæmþykki næst. Norðmenn höfnuðu aðildfyrir fyrst fyrir 37 árum og eru enn utan ESB.
Sigurður Sveinsson, 31.3.2009 kl. 10:21
Hvers vegna á að kjósa um það hvort farið verði í viðræður eða ekki?
Út frá hverju eiga menn að velja kostina?
Hvaða kost munt þú kjósa Sig. Sveins og hvers vegna?
Kosningar eru ekki ókeypis og það er ekki víst að margir mæti til leiks þegar svona einkennilegt val er sett fram.
Setjum svo að það verði 40% þátttaka og 50,1% þeirra segi nei. Þá fær þjóðin aldrei að vita hverju hún var að hafna - hún fer ekki í aðildarviðræður. Sem er eina leiðin til að draga fram kosti og galla ES svo skýrt verði fyrir alla.
Hjálmtýr V Heiðdal, 31.3.2009 kl. 10:49
Ég vil láta kjósa vegna þess að það er gífurlegur ágreiningur um málið og ég sé ekki lýðræðislegri leið en að þjóðin fái að taka af skarið. Ég er á milli fylkinga og vil fara varlega. Gegndarlaus áróður ykkar samfylkingarfólks fyrir aðild að ESB er mér ekki að skapi. Allt fyrir ekkert eins og Jón Baldvin orðaði það um árið. Heldurðu að stjórnendur ESB séu einhver gæðablóð þar sem við fáum allt fyrir ekkert. Mér er líka mjög í nöp við áróðurinn frá andstæðingum aðildar sem einnig er ákaflega einhliða. Ég á bágt með að þola fólk sem sem telur sig til þess borið að hafa vit fyrir öðrum. Hugleiðingar þínar um prósentutölur og "einkennilegt" val eru bara út í hött.
Sigurður Sveinsson, 31.3.2009 kl. 11:30
Ástæða þessarra ásakanna má finna í þeirri skoðun margra ESB-sinna að þeir sem eru á móti ESB-aðild hafi þá enga lausn í efnahagsmálum. Ef við getum komið okkur saman um að taka umræðuna um kosti og galla ESB-aðildar algerlega utan við hugmyndir okkar um hvernig við komum fyrirtækjum landsins aftur í gang, sjáum til þess að það verði til nógur matur næsta vetur, tryggjum fulla atvinnu, forðum hruni í velferðarþjónustunni næstu áramót, endurheimtum stolið fé frá útrásarvíkingunum og hvernig við komum í veg fyrir fjöldagjaldþrot heimilanna í landinu að þá erum við komin talsvert áleiðis í umræðunni.
ESB-aðild getur vel verið góður valkostur fyrir Ísland til langs tíma litið en hefur afar takmarkað með þau mál sem við þurfum að takast á við hér og nú. Auk þess vil ég benda á að við það að rífa landið inn í aðildarumsókn áður en nægjanlegur stuðningur meðal landsmanna er tryggður gætu ESBsinnar útilokað ESB-aðil fyrir Ísland til langs tíma litið og skaðað verulega samstarf okkar við lykil samstarfsaðila á erlendum vetvangi svo sem ESB og Noreg. Aðildarumsókn gegn vilja meirihluta fólksins í landinu mun ekki skila landinu neinu nema ófrið. Þið verðið að sannfæra stærri hluta Íslendinga áður en þið krefjist aðildarumsóknar.
Héðinn Björnsson, 31.3.2009 kl. 12:21
Ágæt umræða, góð og uppbyggileg komment. Takk fyrir það. Ég er sammála Hjálmtý Heiðdal um að kosningar um hvort eigi að fara í viðræður séu vitleysisgangur. Um hvað á að kjósa? Hvort eigi að fara og hitta fólk í Brussel? Hinsvegar er fullkomlega eðlilegt að kjósa um samningsdrögin - nema hvað!
Í framhjáhlaupi: ég er ekki ógurlega upprifinn yfir því að vera kallaður 'þið samfylkingarfólk' þótt ég sé Evrópu- og alþjóðasinni (og þótt frændi minn í Vestmannaeyjum kalli mig komma). Ég er í engum flokki, hef aldrei verið og verð sjálfsagt aldrei. Kaus síðast uppúr 1970.
Ómar Valdimarsson, 31.3.2009 kl. 22:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.